Aldrei fór ég suður

Umræðan um Evrópumál hér á landi hefur lengi verið lítil og oft byggð á þreytandi orðræðu er byggist á veikum grunni. Á það bæði við um stuðningsmenn Evrópusamrunans sem og andstæðinga. Það er virkilega mikilvægt að hér á landi fari fram heilbrigð og málefnaleg umræða um Evrópumál þar sem almenningi gefst tækifæri til að mynda sér skoðanir um framtíð Íslands í evrópsku samstarfi.

Mig langaði aðeins að stíga upp úr skotgröfunum, dusta af mér ryk liðinnar stjórnmálaumræðu og tala um búsetu.

Já, þannig er mál með vexti að ég bý úti á landi, nánar tiltekið á Ísafirði. Ég er búinn að horfa á eftir mörgu góðu fólki í gin höfuðborgarinnar en auðvitað fóru þangað margir til að mennta sig og jafnvel til að verða frægir.
En glettilega margir fóru bara til að fara. „Maður getur ekki farið í keilu hér í sveitinni“ var viðkvæðið hjá sumum en aðrir báru við menningalegri deyfð hér fyrir vestan og djammfýsnin dró þá til Reykjavik city.

En ég skil ungt fólk vel. Ég fór suður til að djamma og skoða fræga fólkið en sagði mömmu og pabba að ég væri eingöngu í leit að menntun. Ég skemmti mér konunglega í borginni og sótti meira að segja pínulítið af menntun. En svo kom ég heim aftur.

Það var kannski þá sem ég áttaði mig á því hversu gott er að búa á Ísafirði. Hér er nefnilega, góðir hálsar, ýmislegt annað en fiskur og snjór.
Í Ísafjarðarbæ er rekið mjög gott kvikmyndahús, öflugur tónlistarskóli, nokkur kaffihús, góð líkamsræktarstöð, fatabúðir, skíðasvæði, menntaskóli, háskólasetur, slatti af veitingastöðum, nokkrar sundlaugar, nokkuð gott úrval af atvinnutækifærum fyrir menntaða sem ómenntaða ásamt bara flestu því sem finna má í höfuðborginni ef vel er að gáð. Og ekki má gleyma að maður er einungis 40 min (0,66 klst) að skreppa til RVK.

Aðalkosturinn við að búa hér á norðvesturhorni landsins er hins vegar að mínum dómi töluvert minni spenna á samfélaginu. Hér er auðvelt að labba/hjóla frá A-B, Hér færðu til leigu 100fm íbúð á um 40-50 þúsund, Þú labbar í næsta hús og færð lánaðan einn bolla af sykri, einbýlishús kosta frá 8 milljónum króna, krakkar fara að veiða niður á bryggju og ef lítið er að hafa er aðeins um 15 mínútna gangur upp í fjall þar sem ævintýrin gerast.

Ég er alls ekki með þessu að segja að Reykjavík og nágrenni séu slæmir staðir að búa. Ég er aðeins að minna á landsbyggðina sem raunhæfan búsetukost sem vill stundum gleymast í öllum þessum yfirtökum, hagnaði og stóriðjum.

Að lokum vil ég minna á hina geysimerkilegu „Aldrei fór ég suður“ tónleikaveislu sem haldin er á Ísafirði um páskana.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand