Það getur því munað heilmiklu í tekjum eignist viðkomandi aðili barn t.d. í desember eða í byrjun janúar. Eignist maður barn 31. desember 2005 er miðað við tekjur ársins 2004 og 2003 en eignist viðkomandi barn 1. janúar 2006 er miðað við tekjur ársins 2005 og 2004. Fyrir þann sem eignast gamlársdagsbarnið er því ekki tekið tillit til þeirra tekna sem unnið var til á því ári. Í því tilviki er því litið til 36 mánaða aftur í tímann í stað 24 mánaða. Síðastliðna helgi var haldið Þing unga fólksins. Það var afburða skemmtilegt, þarna tókust menn á og ævilöng vináttusambönd hófust. Eins og gefur að skilja þegar fólk með ólíkar skoðanir kemur saman þá er hart barist, allir hafa rétt fyrir sér, allir eru handberar sannleikans og hinna réttu skoðana. Þar er ég engin undantekning. Þess vegna ætla ég í þessari grein að miðla mínum sannleika um kynjakvóta, þar sem hann varð að töluverðu umræðuefni um síðastliðna helgi.
Það er eins og hræðsla grípi um sig meðal fólks þegar kynjakvóti er nefndur. Margir eru á móti honum og fyrir því eru aðallega gefnar tvær ástæður. Sú fyrri er eftirfarandi; „Mér finnst að það eigi að velja einstakling á hans eigin forsendum, ekki af kyni.“ Sú síðari er eftirfarandi; „Ég er fylgjandi jafnrétti og allt það en mér finnst kynjakvóti ekki rétta leiðin, það á að gera eitthvað annað til þess að jafna bilið á milli kynjanna.“
Nú ætla ég að svara þessum rökum. Fyrri rökin, að fólk eigi að vera valið af eigin forsendum, er góð og gild í draumasamfélagi þar sem allt er gott og rétt og allir eru hamingjusamir. Staðreyndin er sú að fólk er ekki valið af eigin forsendum í dag, tökum Seðlabankastjórann sem dæmi, tökum hæstaréttardómara sem dæmi, tökum fyrrum útvarpsstjóra sem dæmi, tökum skipan sendiherra Íslands víða um heim sem dæmi, tökum tengdason biskupsins sem dæmi. Mér finnst það skjóta skökku við þegar fólk deplar ekki auga við pólitískar ráðningar en hleypur upp til handa og fóta þegar orðið kynjakvóti er nefnt –eins og þá skipti einstaklingurinn fyrst máli. Fólk er ekki bara metið af eigin verðleikum, það held ég að eigi aldrei eftir að gerast. Þess vegna er sú hugsjón að fólk eigi ekki að komast áfram vegna sjálf sín ekkert annað en hugsjón og heldur fjarstæðukennd að mínu mati.
Seinni rökin, um að það eigi að beita einhverju öðru vopni en kynjakvóta til þess að jafna hlutföll kynjanna á vinnumarkaði, er eilítið skrítin líka. Einkum og sér í lagi vegna þess að þegar ég spyr hvaða aðra leið er farsælast að fara er fátt um svör. Fólk virðist ekki vita hvaða önnur leið gæti skilað jafn miklum árangri, það eina sem það veit er að kynjakvóti er ekki sniðugur. Gott og vel, gefum okkur það að kynjakvóti er ekki sniðugur en þetta er eina haldbæra leiðin til þess að jafna hlutföll kynjanna á vinnumarkaði sem skilar árangri. Ekkert gerist af sjálfu sér og síst af öllu jafnrétti kynjanna, jafnrétti er ekki snjóbolti sem rúllar niður brekku, jafnrétti er mikil vinna, að halda öðru fram er móðgun við þær konur (og karla) sem hafa fórnað sér fyrir málstaðinn. Það er sannað að kynjakvóti hefur bætt stöðu kvenna svo um munar á vinnumarkaðnum, konur sækja um störf sem áður voru eyrnamerkt körlum og karlar voga sér að fara í vinnu sem þykja kvenlegar. Er það slæmt?
Að lokum vil ég segja það að Samband Ungra Sjálfstæðismanna var með mjög ákveðnar skoðanir gegn kynjakvóta um helgina. Sjálfstæðismenn voru 24 á Þingi unga fólksins, þar af 20 karlmenn og 4 konur. Voru virkilega bara 4 konur sem voru jafn hæfar og 20 karlmenn? Nei, ég bara spyr.