Áframhald Hannesarhagkerfisins?

hannes-holmsteinn

PISTILL Þarna dásamar töframaðurinn Hannes Hólmsteinn áhrif kvótakerfisins svo að það líkist nánast trúarlegri athöfn. Eftir hrun íslenska efnahagskerfisins gera flestir sér grein fyrir því að það sem Hannes var þarna að lýsa var einmitt ein stærsta ástæðan fyrir falli okkar.hannes-holmsteinn

PISTILL Sjálfstæðismenn halda áfram að standa vörð um eiginhagsmuni kvótahafa. Málflutningur þeirra byggist, sem endranær, á því að þjóðinni sé fyrir bestu að örfáir aðilar fái að sitja að fiskveiðiheimildunum gegn einföldu loforði um að þeir hagi sér vel með þessa miklu hagsmuni og leyfi þjóðinni að njóta afrakstursins með sér. Það loforð hafa þessir aðilar svikið eins og öllum er kunnugt um.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hinn ötuli talsmaður og ráðgjafi Sjálfstæðisflokksins talaði fyrir efnahagshrunið mikið um „íslenska efnahagsundrið“ sem hann taldi eiga sér ákaflega eðlilegar útskýringar. Það hefði verið framkallað með því að „virkja fjármagn sem áður lá dautt“. Um þetta sagði Hannes: „Við gerðum það á tveimur sviðum. Í fyrsta lagi þá voru fiskistofnarnir verðlausir áður fyrr, þeir voru óframseljanlegir, óveðhæfir, óseljanlegir. Síðan er kvótum úthlutað og þá verður til fjármagn þarna. Hitt atriðið var að ríkisfyrirtækin þau lágu einmitt dauð, þetta var fjármagn sem var óframseljanlegt, óveðhæft, óskráð, enginn átti, enginn bar ábyrgð á. Fyrirtækin voru seld og þá varð skyndilega til fjármagn. Þannig að af þessum tveimur ástæðum, bæði kvótakerfið og einkavæðingin þá varð til fjármagn sem ekki var til áður.“

Þarna dásamar töframaðurinn Hannes Hólmsteinn áhrif kvótakerfisins svo að það líkist nánast trúarlegri athöfn. Eftir hrun íslenska efnahagskerfisins gera flestir sér grein fyrir því að það sem Hannes var þarna að lýsa var einmitt ein stærsta ástæðan fyrir falli okkar. Þegar menn fóru að geta veðsett „loft“ lentum við einmitt í óefni. Veðsetning á óveiddum fiski fyrir 4.500 krónur á kílóið getur aldrei annað en endað með ósköpum hvað svo sem Hannes Hólmsteinn segir. Núverandi fyrirkomulag hefur leitt af sér að sjávarútvegurinn hefur náð að skuldsetja sig upp á hundruðir milljarða sem afrakstur auðlindarinnar mun nú fara í að greiða afborganirnar af í stað þess að renna til þess að bæta kjör fólksins og byggðanna.

Hagsmunaaðilar standa vaktina sem fyrr

Það er grátlegt að hagsmunaaðilar skuli vera í framboði til þess að verja þetta fársjúka kerfi. Ásbjörn Óttarsson útgerðarmaður og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi hefur mikilla eigin hagsmuna að gæta. Á sjónvarpsfundi frambjóðenda í NV-kjördæmi þann 6. apríl sagði Ásbjörn meðal annars: „Það er alveg klárt í okkar huga að við ætlum að byggja á aflamarkskerfinu áfram, […] á óbreyttu kerfi.“ Ásbjörn er sem sagt staðráðinn í að verja kvótakerfið sem hefur átt stóran þátt í að koma okkur á kaldan klaka. Gekk hann meira að segja svo langt að halda því fram að óbreytt kerfi muni bjarga þjóðinni út úr ógöngunum! Það er augljóst að hugmyndafræðin á bak við kvótakerfið í núverandi mynd hefur beðið skipbrot, en Ásbjörn vill að við gefum því enn eitt tækifærið í boði íslensku þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn stendur, nú sem endranær, staðfastur á bak við þessi orð Ásbjörns líkt og sjá má á stefnu flokksins.

Þjóðareignir „færðar“ í einkaeigu

Eiginhagsmunavæðingin mun halda áfram líkt og undanfarin ár á Íslandi ef Sjálfstæðisflokkurinn fær einhverju um það ráðið. Kvótakerfið er gott dæmi um það, en Hannes Hólmsteinn lýsti svo ógleymanlega hvernig því var komið á, þar sem hann sagði jafnframt: „Hér á Íslandi var fjármagnið fært í hendurnar á eigendunum, gert skrásett og veðhæft og þá fór það að vaxa og þá lifnaði það allt við.“ Hvað munu þessir aðilar taka til bragðs þegar þeir hafa „fært“ öll veðhæf verðmæti í einkaeigu? Verður gerð tilraun til að gera tunglið veðhæft svo við getum fjármagnað næsta „góðæri“ Sjálfstæðismanna?

Eiginhagsmunaöflin munu halda áfram að „færa fjármagn“ í hendur flokksgæðinga fái þau til þess brautargengi. Látum ekki stoppa okkur í því að koma fiskveiðiauðlindinni í hendur þjóðarinnar á ný, í trássi við vilja Flokksins, en í þágu 99% þjóðarinnar.

Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur, skipar fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand