Áfram ESB!

Hver manneskja skal hafa fullt sjálfræði og rétt til að móta framtíðina í félagi við aðra. Ungir jafnaðarmenn sjá fyrir sér samfélag þar sem allir tekið ákvarðanir um eigið líf og látið drauma sína rætast óháð kynferði. Til að þetta samfélag geti orðið að veruleika verðum við að bylta þeim stofnunum og gildum sem enn standa í vegi fyrir og takmarka jafnrétti kynjanna. Það hefur ekki farið mikið fyrir umræðunni um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu að undanförnu. Þó er þessi spurning ein mikilvægasta pólitíska spurning samtímans. Ég er sannfærður að með aðild Íslands að Evrópusambandinu myndu lífskjör á Íslandi batna til muna.

Í þessu greinakorni ætla ég eingöngu að fjalla um áhrif aðildar á íslenskt viðskiptalíf en áhrifin á fullveldið, fiskinn, landbúnaðinn og landsbyggðina má finna í öðrum greinum eftir undirritaðan (sjá s.s. Hafa skal það sem sannara reynist, Sjávarútvegurinn og ESB, Meinloka Morgunblaðsins og Sjávarútvegi er betur borgið innan ESB)

ESB er stærsta viðskiptablokk í heimi

ESB er stærsta viðskiptablokk í heimi, með um 15% alls innflutnings í heiminum og um 16% útflutnings og er það hærra hlutfall en Bandaríkin hafa. ESB er með um 20% af vöruviðskiptum heimsins en Bandaríkin eru með 16% og Japan er með 9%. ESB er með um 25% af útflutningi þjónustu en Bandaríkin eru með 19% og Japan er með 9%. Í ESB eru 25 ríki og tæplega 500 milljónir íbúa. Slíkt veitir evrópskum fyrirtækjum innan ESB yfirburðasamningsstöðu gagnvart öðrum ríkjum. Um 60% af útflutningi og 58% innflutnings Íslands kemur frá og fer til markaða innan Evrópusambandsins. 66% af útflutningi Íslendinga fer til ríkja EES og 70% innflutnings er frá EES ríkjum.

Með þátttöku í ESB yrðu Evrópusambandslöndin að heimamarkaði íslenskra fyrirtækja. Viðskipti milli Íslands og ESB yrðu jafneinföld og viðskipti milli Akureyrar og Vestmannaeyja. Ísland yrði hluti af sterkustu viðskiptablokk heims og myndi taka þátt í að móta viðskiptastefnu hennar.

Matvælaverð myndi lækka við aðild

ESB er tollabandalag. Í því felst að engir tollar eru í viðskiptum milli ríkjanna, vöruflæði milli þeirra er frjálst og tollgæsla á sér ekki stað á innri landamærum þó svo að eftirlit vegna t.d. fíkniefnaleitar haldi áfram. Allir tollar milli Íslands og annarra ESB ríkja myndu falla niður. Þetta hefði í för með sér gífurlegt hagræði fyrir íslenska inn- og útflytjendur og sparnað fyrir tollayfirvöld. Jafnframt myndu viðskipti milli ESB ríkja og Íslands stóraukast.

Verð til neytenda myndi stórlega lækka og yrði fólkið í landinu fljótt vart við lægra verð á matarkörfunni þar sem verð á nauðsynjavörum er um 40-70% lægra í nágrannaríkjum okkar í ESB. Þegar Svíar og Finnar urðu aðilar að ESB árið 1995 lækkaði matvælaverð í löndunum tveimur til muna.

Erlendar fjárfestingar ykjust

Fjárfesting útlendinga í íslenska hagkerfinu er ein sú minnsta í allri Evrópu enda eru útlendingar tregir að fjárfesta hér á landi vegna þess að við erum ekki í ESB. Öll viðskipti myndu einfaldlega blómstra enda er megintilgangur ESB að auka viðskipti og auðvelda þau milli ríkja. Með inngöngu í ESB yrðu erlend fyrirtæki fúsari til að fjárfesta hér á landi enda væru þau að starfa á markaði sem þau þekktu út og inn.

Fjölmargir viðskiptasamningar

Ríki ESB standa saman að viðskiptasamningum og samningar sem gerðir eru ná til allra ríkjanna. Samningsstaða Íslendinga myndi því styrkjast því við hefðum þá stærsta viðskiptaveldi heims sem bakhjarl.

ESB þátttaka felur í sér greiðari aðgang að fjölda erlendra markaða enda hefur ESB mun fleiri og umfangsmeiri viðskiptasamninga við þriðja ríki en Ísland getur státað af. ESB hefur samið við um 30 ríki í Evrópu, Afríku, Asíu og S-Ameríku. Hluti þessara samninga eru samningar sem áður voru samningar einstakra ríkja er féllu undir ESB við inngöngu þeirra í ESB.

Við inngöngu í Evrópusambandinu myndu Íslendingar ganga inn í þá viðskipta- og fiskveiðisamninga sem ESB hefur gert við önnur ríki, nema við gerðum sérstaka kröfu um undanþágu frá þeim til lengri eða skemmri tíma. Slíkt væri þó mjög ótrúlegt þar sem samningarnir miðast að auknu frelsi í viðskiptum og tryggja allir þeir fiskveiðisamningar sem ESB hefur gert við 27 ríki, þjóðum ESB aukna fiskveiðimöguleika.

Efling lítilla og meðalstórra fyrirtækja

Innan ESB hefur verið lögð sérstök áhersla á að efla lítil og meðalstór fyrirtæki sem geta fengið fjármagn úr uppbyggingarsjóðum til nýsköpunar. Flest íslensk fyrirtæki nytu því góðs af inngöngu Íslands í ESB. Utanríkisviðskiptastefna ESB byggist í raun á því að afla fyrirtækjum og einstaklingum innan ESB sem greiðastan aðgang að mörkuðum víða um heim.

Oft heyrast hræðilegar sögur um staðlaáráttu ESB en í raun semur ESB enga staðla sjálft heldur hefur ESB samið við frjáls staðlasamtök sem eru standa saman af viðkomandi hagsmunahópum. Fyrirtækin sjálf leita eftir þessum stöðlum. Markmiðið með stöðlum er að auðvelda viðskipti milli landa á innri markaðinum og ná fram hagkvæmni í framleiðslu. Staðlarnir koma einnig í veg fyrir höft á viðskiptunum.

Evran eykur hagvöxt og viðskipti

Í upphafi árs 2002 komu á sjónarsviðið peningaseðlar og mynt í evrum og gömlu gjaldmiðlar flestra ríkja ESB hurfu algerlega um mitt árið. Aðeins ríki ESB geta tekið þátt í myntsamstarfinu. Með upptöku evrunnar urðu öll viðskipti innan svæðisins einfaldari og auðveldari. Þátttaka Íslands í efnahags- og myntbandalagi ESB stuðlar að auknum stöðugleika og lægri vöxtum.

Evran mun leiða til lægri viðskiptakostnaðar og hagvaxtaráhrif evrunnar innan svæðisins munu örva viðskipti. Þátttakan í myntsamstarfinu leiðir til minni verðbólgu en ella væri. Sameiginlegur gjaldmiðill leiðir til aukinna fjárfestinga og hefur örvandi áhrif á vinnumarkaðinn því með stöðugu verðlagi skapast aðstæður fyrir aukna atvinnu og betri lífskjör og vextir haldast í skefjum. Neytendur njóta góðs af auðveldari verðsamanburði milli landa sem síðan skapar aðhald gagnvart fyrirtækjum.

Sameiginleg mynt dregur úr gengisáhættu og minnkar kostnaðinn við að skipta úr einum gjaldmiðli í annan og gerir ferðalög auðveldari en áður var. Með evrunni sparast kostnaður vegna gjaldmiðlaskipta sem er áætlaður allt að 0,5% af landsframleiðslu ríkjanna.

Krónan er handónýtur gjaldmiðill

Íslensk fyrirtæki þurfa nú að búa við sveiflur í tekjum og afkomu vegna gengissveiflna íslensku krónunnar og kostar það milljarða á hverju ári. Nú þurfa íslensk fyrirtæki að þurfa að þola allt að 40% sveiflu í íslensku krónunni og það er ekki hægt að bjóða þessu fyrirtækjum til lengri tíma. Einnig kostar marga milljarða að halda úti eigin gjaldmiðli sem margir telja vera handónýta mynt sem hvergi er gildur gjaldmiðill nema á Íslandi.

Sameiginleg mynt eykur framleiðni og hagsæld hjá ESB ríkjunum vegna minni viðskiptakostnaðar, stöðugra verðlags, hreyfanlegra vinnuafls, auðveldari verðsamanburðar, öflugri fjármálamarkaðar, minni gengisáhættu, lægri vaxta og sparnaðar vegna gjaldmiðlaskipta. Einnig mun fjármagnsmarkaðurinn í heild eflast og stækka við myntsamrumann.

Hagþróun þeirra ríkja ESB sem bjuggu við ólíka hagsveiflu en þá sem mátti finna hjá meginþorra ESB ríkjanna, t.d. Finnland og Írland, hefur ekki farið úr böndunum við þátttöku þeirra í myntbandalaginu.

Gríðarlegur ávinningur fyrir íslensk fyrirtæki og heimili

Einnig myndi rekstrarkostnaður við þátttöku, fundarsókn, þýðingar, mikill hluti ferðakostnaðar o.fl. sem íslensk stjórnvöld greiða nú koma úr sameiginlegum sjóðum. Þegar fram líða stundir mætti hugsa sér að laða mætti einhvern hluta Evrópusamstarfsins hingað til lands með tilheyrandi flutningi sérfræðingastarfa og fjármagns.

Fjárhagslegur ávinningur af inngöngu okkar í ESB er gífurlegur og má telja að hann yrði tugmilljarða króna. Þar sem íslenska hagkerfið er ekki nema um 1/2000 af hagkerfi ESB verður ávinningur ESB ríkja af fríverslun við Ísland vart mælanlegur en aftur á móti er ávinningur Íslands af fríverslun við ESB gífurlegur.

Aðgangur að mörkuðum ESB yrði greiðari, meiri samkeppni yrði á heimamarkaði, viðskiptakostnaður myndi lækka, kjör neytenda myndu stórbatna, tollar féllu niður, tæknilegar viðskiptahindranir myndu hverfa og almennar viðskiptahindranir hyrfu, framleiðslukostnaður myndi lækka og stærðarhagkvæmni hjá íslenskum fyrirtækjum myndi aukast, vextir munu lækka, fjárfestingar milli svæðanna munu eflast til muna, framleiðsla Íslendinga í landbúnaði þróast í þá átt sem hún er hvað hagkvæmust, starfsskilyrði íslenskra fyrirtækja batna og margt fleira sem hefur í för með sér að hver króna sem Ísland ver til ESB kemur margföld til baka.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið