Við vitum sem er að jafnt aðgengi allra þegna samfélagsins að öflugri og ókeypis menntun er öflugasta einstaka tækið sem stjórnvöldum er tiltækt til að bæta lífskjör og jafna aðstöðu þegnanna. Þetta staðfesta niðurstöður óteljandi rannsókna sem gerðar hafa verið um víða veröld. Kosningarnar nú í vor snúast um menntamál. Menntun er í það minnsta það atriði sem ungt Samfylkingarfólk vill að þær snúist um öðru fremur. Það er vegna þess að við vitum sem er að jafnt aðgengi allra þegna samfélagsins að öflugri og ókeypis menntun er öflugasta einstaka tækið sem stjórnvöldum er tiltækt til að bæta lífskjör og jafna aðstöðu þegnanna. Þetta staðfesta niðurstöður óteljandi rannsókna sem gerðar hafa verið um víða veröld. Þá er og ótalinn sá hagvaxtarauki sem jafnan fylgir í kjölfarið á bættu menntunarstigi þjóða. Að auki hljóta menntamál að vera ungum kjósendum sérstaklega hugleikin þar sem það erum jú við sem fyllum skólana, við vitum hvað við viljum og við vitum líka hvað það er sem við þurfum til að geta stundað námið og náð þeim árangri sem við stefnum að.
Vinna sem bar ávöxt
Eitt af þeim tækjum sem eru algerlega nauðsynleg og forsenda þess að veita öllum aðgang að menntun er LÍN, Lánasjóður íslenskra námsmanna. Undirritaður varð svo frægur að sitja í stjórn LÍN fyrir nokkrum árum í umboði stúdenta við Háskóla Íslands. Reyndar var það í aðdraganda síðustu þingkosninga sem ég var stjórnarmaður í LÍN og þann kosningavetur unnu námsmannahreyfingarnar mikið og samhennt starf með það markmið að leiðarljósi að ná fram kjarabótum námsmönnum til handa. Það starf tókst reyndar svo vel að þáverandi menntamálaráðherra, borgarfulltrúinn Björn Bjarnason, sá sitt óvænna og hækkaði námslánin strax í endaðan mars. Þannig bar vinna okkar ríkulegan ávöxt rúmum mánuði fyrir kosningar. Það var greinilegt af gerðum ráðherra að markmiðið var að setja snuð upp í þann háværa þrýstihóp sem stúdentar voru þá.
Tannlaus hagsmunabarátta
Fyrir þær kosningar sem nú fara í hönd bregður hins vegar nýrra við. Ekki hefur heyrst orð frá Stúdentaráði eða öðrum námsmannahreyfingum um óskir eða kröfur námsmanna um breytingar á LÍN. Ef leggja má út af þögninni er engu líkara en að stúdentar séu ánægðir með LÍN eins og sjóðurinn er rekinn í dag. Þó vita allir að af meiru en nógu er að taka þegar úrbætur á LÍN eru annars vegar. Þarna eru forsvarsmenn námsmanna að bregðast sínum skyldum með því að rækja ekki hlutverk aðhalds- og þrýstihóps gagnvart stjórnvöldum. Fyrir vikið hafa stjórnarherrarnir sloppið við að taka LÍN á dagskrá fyrir þessar kosningar, ég fann jafnvel ekki eitt einasta orð um sjóðinn í kosningastefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Þetta segir meira en nokkuð annað um þann sess sem menntun skipar í forgangsröð íhaldsins. Þá er Framsókn skömminni skárri að því leiti að á vef flokksins er í það minnsta að finna nokkuð ítarlegar tillögur um lagfæringar á LÍN. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að eftir að hafa setið aðgerðarlaus í ríkisstjórn í átta ár og horft upp á skiptingu menntakerfisins í tvennt fyrir þá sem efnameiri annars vegar og svo hinna er næsta ótrúlegt að Framsóknarflokkurinn fari að gera einhvern skurk í menntamálum nú árið 2003.
Ungur jafnaðarmenn vita hvað þeir vilja
Það er því ljóst að það stendur upp á okkur sjálf ungt fólk að skilgreina hvaða úrbætur eru brýnastar í málefnum LÍN og hvernig beri að koma þeim í framkvæmd. Þetta hefur ungt fólk í Samfylkingunni gert og í raun mótað stefnu flokksins í þessum efnum. Í okkar huga er fyrsta og mikilvægasta krafan sú að forsendur grunnframfærslunnar (grunnframfærslan = sú upphæð sem ætluð er einstaklingi til framfærslu á mánuði) verði tekin til gagngerrrar endurskoðunar og hún löguð að því sem raunverulega kostar að lifa í dag. Við vitum að það þarf að laga fleira. Við viljum forða námsmönnum út úr bankakerfinu og kostnðaðarsömum yfirdráttarlánum með því að greiða námslán út fyrirfram fyrir hvern mánuð. Við viljum fella niður lántökugjald á námslán. Við viljum fella niður kröfuna um ábyrgðarmenn á námslánum enda samræmist slíkt ekki lögum um jafnrétti til náms. Að námi loknu þegar endurgreiðsla lánanna tekur við þarf svo að lækka endurgreiðslubyrði námslána auk þess að taka upp möguleika á skattaafslætti til móts við upphæð afborgunar af láninu.
Það er ljóst að af nógu er að taka ef vil viljum bæta og styrkja LÍN. Núverandi ríkisstjórn hefur haft til þess átta ár án þess að nokkuð hafi gerst. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með menntamál síðustu tólf ár og afrekað það helst að þrengja hag námsmanna verulega á sínum tíma. Af verkunum skuluð þér dæma þá og af verkum þeirrar ríkisstjórnar sem nú á aðeins eftir rúma viku á valdastóli má ljóst vera að breytinga er þörf.
Oft var þörf en nú var nauðsyn. Merkjum X við S og tryggjum þannig jafnrétti til náms.