Af hverju ungar konur í sveitarstjórnir?

Þor’ég, get ég, vil ég?Fyrir réttum 30 árum gengu 25 þúsund konur um miðbæ Reykjavíkur og hrópuðu: já, ég þori, get og vil! Sú barátta skilaði ómældum árangri. Við sem erum yngri erum eilíflega þakklátar fyrir það. Nú er komið að því að ganga skrefinu lengra og segja: Ég þori, get, vil, og SKAL! Staða skólamála
Þegar horft er á íslenskt samfélag af sjónarhóli ungra kvenna þá eru ekki mörg ár síðan að börn komust ekki að á leikskóla, til dæmis í Reykjavík, fyrr en þau voru komin vel á fjórða ár, og þá bara hálfan daginn.

Svo þegar grunnskólinn tók við var það sama uppi á teningnum, börn voru annaðhvort í skóla fyrir eða eftir hádegi og ekki boðið upp á dagvistun hinn hluta dagsins. Af þessu leiddi að erfitt var fyrir konur að vinna úti og oft var það hið mesta púsluspil að redda deginum. Vandamálið margfaldaðist svo þegar börnin voru fleiri en eitt því öll þurftu þau að vera í skólanum á sama tíma svo að mögulegt væri að sinna vinnunni.

Reykjavíkurlistinn breytti miklu í þessum efnum og það skiptir miklu fyrir ungar konur að ekki fari aftur í sama horfið. Auðvitað snertir þetta karla ekki síður en konur og það skiptir karla að sjálfsögðu miklu máli að fá dagvistun allan daginn, meðal annars vegna þess að erfitt er að reka heimili með aðeins eina fyrirvinnu. Hins vegar er hættan sú að ef dagvistunarmál fara í sama horf og þau voru fyrir nokkrum árum þá verði það fyrst og fremst konur sem hverfi af vinnumarkaðnum, ekki síst í ljósi þess að laun karla eru því miður ennþá almennt hærri en laun kvenna.

Hér er líka hægt að nefna málefni eins og gjaldfrjálsan leikskóla og niðurgreiðslu á tómstundaiðju fyrir börn. Þessi þjónusta skiptir ungt fólk og aðra sem minna hafa á milli handanna gríðarlegu máli.

Sérstaða sveitarstjórna
Sveitarstjórnarmál eru ólík landsmálunum að því leyti að þau standa nær fólki og daglegu lífi þess. Það er heldur ekki nauðsynlegt að flytjast frá sinni heimabyggð eða dvelja langdvölum fjarri fjölskyldunni þó að einstaklingar setjist í sveitarstjórn eða nefndir og ráð á vegum þeirra ólíkt sem seta á Alþingi krefst. Það er óneitanlega kostur fyrir ungar konur sem skiljanlega vilja ekki eða eiga erfitt með að vera fjarri fjölskyldunni.

Svo ég nefni dæmi um atriði sem fælir fólk frá því að starfa fyrir sveitarstjórnir er að þær hafa ekki að öllu leyti forræði á eigin málum. Þegar ágreiningur verður milli ríkis og sveitarfélaga veldur það því að sveitarfélög hafa ekki getað beitt sér eðlilega í ákveðnum málefnum. Sem dæmi um slíkt má nefna flutning grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga en það fylgdi ekki nægilegt fjármagn frá ríkinu til þess að halda uppi kennslu svo viðunandi væri. Útkoman varð sú að sveitarfélög voru að eyða mun meira fé í kennsluna en ríkið hafði áætlað og tók það sinn toll af fjárhag sveitarfélaganna, ekki síst þeirra minni. Þegar kjaramál kennara hafa svo verið til umræðu vísar ríkið frá sér allri ábyrgð og bendir á sveitarfélögin, umræða um kjör leikskólakennara í þinginu í vikunni er dæmi um slíkt. Hendur sveitarfélaga eru hins vegar bundnar vegna þess að ríkið ákveður hverjir tekjustofnar sveitarfélaga eru og þar af leiðandi einnig hversu mikla fjármuni þau hafa milli handanna.

Tengsl jafnréttis og lýðræðis
Líkt og á öðrum sviðum mannlífsins skiptir miklu að konur beiti sér í sveitarstjórnarmálum. Ekki bara ungar konur heldur konur á öllum aldri, þar sem þau verkefni sem sveitarstjórnir sinna snerta allt íslenskt mannlíf, alla aldurshópa í samfélaginu. Ísland er lýðræðisríki. Til lýðræðisríkja eru gerðar formlegar kröfur um þátttöku þegnanna í opinberri stjórnun, svo sem að stjórnvöld hafi umboð frá þjóðinni með reglulegum kosningum. En lýðræðishugtakið felur ekki eingöngu í sér að uppfylltar séu formlegar kröfur um lýðræði heldur skiptir ekki síður máli að þeir hópar sem eiga hagsmuna að gæta komi að ákvarðanatökunni og tekið sé mið af ólíkum hagsmunum, sér í lagi hagsmunum minnihlutahópa.

Skipulegt misrétti, t.d. kynjamisrétti sem birtist í því að vægi kvenna í stjórnkerfinu er óeðlilega lítið veldur því að sjónarmið og gildi kvenna eru vanmetin í ákvarðanaferli sem annars kann að uppfylla formlegar kröfur um lýðræðislega ákvörðun. Það er því skilyrði lýðræðislegra stjórnarhátta að sjónarmið þeirra sem málið varðar komi fram og að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða þegar ákvarðanir eru teknar. Af þessu leiðir að ef konur koma ekki að ferli við ákvarðanatöku sem snertir íslenskt þjóðlíf er lýðræðishalli á samfélaginu. Það sama á við um fólk af erlendum uppruna, samkynhneigða, fatlaða og aðra minnihlutahópa í íslensku samfélagi.

Af framangreindu leiðir að sterkustu rökin fyrir því að ungar konur eigi að taka virkan þátt í sveitarstjórnum er að til þess að ákvarðanir sveitarstjórna séu lýðræðislegar er nauðsynlegt að hlutfall kynja í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum þeirra sé jafnt og að tekið sé mið af sjónarmiðum og hagsmunum þeirra.

Ekki þarf að rökstyðja að konur eiga fullt erindi í sveitarstjórnir. Þar eru teknar ákvarðanir sem skipta miklu máli fyrir konur og varðar miklu að sjónarmið þeirra komi fram og að farið sé eftir þeim. Hér áðan nefndi ég sem dæmi málefni leikskóla og grunnskóla. Ég nefndi þetta ekki vegna þess að hér er um að ræða klassíska “mjúka málaflokka” og að konur ráði ekki við önnur mál. Ég nefndi þessa flokka vegna þess að þeir skipta höfuðmáli fyrir atvinnuþátttöku kvenna og því nauðsynlegt að konur séu með í ráðum þegar stjórnvöld ræða um þá.

Markmið í sveitarstjórnarkosningum 2006, leiðir til árangurs
Það hlýtur því að vera forgangsmál hjá Samfylkingunni að fjölga hæfum konum í sveitarstjórnum og nefndum og ráðum á vegum þeirra. Við vitum allar að innan Samfylkingarinnar er mikið kvennaval sem okkur er sómi að. Þá er spurningin hvernig hægt er að fjölga konum í sveitarstjórnum?

Svo ég svari því hvernig fjölga eigi ungum konum í sveitarstjórnum og pólitík yfir höfuð þá held ég að persónulegt tengslanet sé mikilvægt tæki. Slíkt net myndi ekki einungis auðvelda að fá nýjar konur inn í starfið og virkja þær til þátttöku. Aukinn stuðningur frá eldri og reyndari Samfylkingarkonum til þeirra sem yngri eru myndi einnig hafa mikil áhrif. Ýmis dæmi eru um að reyndari pólitíkusar styðji við þá sem eru að stíga fyrstu skrefin og taki að sér hlutverk leiðbeinenda eða mentora. Sem dæmi má nefna að einn aðalhugmyndafræðingur ónefnds íhaldsflokks hér á landi hefur stutt við bakið á fjölmörgum mönnum sem í dag eru virkir í sveitarstjórnum eða komnir á þing.

Við, sem erum að stíga okkar fyrstu skref í pólitík, höfum rætt að okkur finnst við stundum vera svolítið einar í heiminum. Ekki vantar áhugann eða viljann til þess að láta að sér kveða en stundum vitum við ekki alveg hvar maður á að byrja eða hvernig er best að hegða sér í þessum efnum. Þá væri ómetanlegt að hafa ykkur sem eruð reyndar til að leiðbeina okkur,örva og hvetja til dáða.

Þor’ég, get ég, vil ég?
Fyrir réttum 30 árum gengu 25 þúsund konur um miðbæ Reykjavíkur og hrópuðu: já, ég þori, get og vil! Sú barátta skilaði ómældum árangri. Við sem erum yngri erum eilíflega þakklátar fyrir það. Nú er komið að því að ganga skrefinu lengra og segja: Ég þori, get, vil, og SKAL!

Erindi flutt á framhaldsstofnfundi Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 11. nóvember s.l.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand