Útdráttur úr skýrslu framkvæmdastjórnar Ungra Jafnaðarmanna starfsárið 2004-2005

Á heildina litið var starfsár framkvæmdastjórnar Ungra jafnaðarmanna 2004-2005 afar viðburðaríkt. Fleiri hugmyndir komu upp á árinu sem ekki komust í framkvæmd. Er það von fráfarandi stjórnar að öllu því góða starfi sem hafið hefur verið á starfsárinu verði haldið áfram og óskum við komandi framkvæmdastjórn velfarnaðar í starfi. Upphafið
Fyrsti fundur þessarar framkvæmdastjórnar var haldinn í nýjum húsakynnum Samfylkingarinnar hér á Hallveigarstíg, fimmtudaginn 2. september á síðasta ári. Varð ljóst strax í upphafi að þarna var saman kominn hópur af kraftmiklu og áhugasömu fólki sem náði vel saman alveg frá byrjun.

Metnaður stjórnarinnar kom strax í ljós á þessum fyrsta fundi þar sem samþykkt var að fara í heimsókn helst í alla framhaldsskóla á landinu til að kynna hreyfinguna, halda vikulega opna félagsfundi þar sem efnisleg umræða um þjóðfélagsmálin færi fram, fara í reglulegar herferðir til að vekja athygli á mikilvægum málum í samfélaginu, og síðast en ekki síst, að halda reglulega framkvæmdarstjórnarfundi á tveggja vikna fresti.

Framkvæmdastjórnarfundirnir urðu um 35 að tölu, heimsóttir voru 7 framhaldsskólar, haldnir voru á annan tug opinna umræðufunda, fleiri ályktanir sendar út, spjallþráður opnaður, ritstjórn og vefstjórn skipaðar fyrir vefritið, vinnu 8 málefnanefnda komið af stað, ein herferð farin, tvær hópeflingarferðir og ein málefnaferð.

Framhaldsskólaheimsóknir
Farið var í nokkra framhaldsskóla til að kynna Unga jafnaðarmenn og Samfylkinguna. Höfðum við þá samband við fulltrúa nemenda í hverjum skóla og fengum að mæta á staðinn, spjalla við nemendur, dreifa bæklingum o.þ.h.

Pólitík.is
Í mars síðastliðinn var ákveðið að skipa tvær nefndir til að sjá um uppsetningu og uppfærslu vefrits Ungra Jafnaðarmanna á slóðinni www.politik.is. Var það annars¬vegar vefstjórn sem hafði það hlutverk helst að koma upp nýrri vefsíðu sem í bígerð hafði verið um nokkuð skeið. Sú síða hefur enn ekki litið dagsins ljós, en vinnan komin langt á leið. Hinsvegar var skipuð ritstjórn sem ætlað er að sjá um uppfærslu síðunnar og huga að öllu skriflegu efni. Mun hlutverk ritstjórnar ekki virkjast að fullu fyrr en ný síða kemur upp. Arndís Anna Gunnarsdóttir tók svo við af Magnúsi Má Guðmundssyni, ritstjóra síðunnar, í október.

Spjallþráðurinn
Segja má að hálfger bylting hafi orðið í starfsemi framkvæmdastjórnar með tilkomu lokaðra spjallþráða á netinu í janúar á þessu ári. Drög að ályktunum urðu þar til og þar þróuð í átt að fullunnum ályktunum sem sendar voru svo á fjölmiðla. Skipulagning ýmissa viðburða fór fram í gegnum spjallið, svo og allskyns upplýsingamiðlun á milli framkvæmdar¬stjórnar¬meðlima. Spjallið gerði stjórninni kleift að halda starfinu mjög virku á milli funda. Fundargerðir voru einnig og eru allar vistaðar á sérstökum þræði sem aðeins er opinn framkvæmdastjórnarmeðlimum.

Þegar í ljós kom að lokaða spjallið virkaði áfallalaust, var ákveðið að búa til sérstaka spjallþræði sem opnir væru öllum skráðum félagsmönnum UJ. Hefur sá þráður einnig gefið mjög góða raun, en þar hafa skapast mjög líflegar umræður um málefni deiglunnar og annað sem ungum jafnaðarmönnum liggur á hjarta. Með tilkomu ritstjórnar og vefstjórnar voru svo settir upp sérstakir spjallþræðir sem aðeins eru opnir stjórnunum tveimur ásamt framkvæmdastjóra.

Opnir umræðufundir
Á annan tug opinna umræðufunda var haldinn á árinu. Í kjölfar fundanna urðu oft til ályktanir og frekari umræða um tiltekin málaflokk. Umræðufundirnir þóttu vel til þess fallnir að halda efnislegri umræðu um stjórnmál gangandi, ásamt því að laða að og virkja nýja unga jafnaðarmenn til starfa með UJ.

Málefnahópar
Settir voru á fót nokkrir málefnahópar. Hugmyndin kom upp strax í upphafi starfsárs en varð ekki að veruleika fyrr en í vor/sumar. Nú eru starfandi 8 málefnahópar, en málefnum er skipt í flokka eftir þeirri skipan ráðuneyta sem við teljum æskilegasta. Skiluðu nokkrir þessara hópa af sér afrakstri málavinnu haustsins á þinginu. Forsætisnefnd, innanríkisnefnd, utanríkisnefnd, umhverfisnefnd, heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálanefnd, menntamálanefnd, efnahags- og skattanefnd, atvinnuveganefnd.

Í kjölfarið var haldið málefnaþing í Árnesi í október þar sem vinna hófst við gerð skilagreina sem lagðar eru fram á landsþingi í nóvember 2005.

Ýmis önnur verkefni framkvæmdastjórnar
Upplýsingaskrifstofa um ESB var opnuð í febrúar í húsnæði Samfylkingarinnar að Hallveigarstíg í Reykjavík. Í febrúar gáfum við Halldóri Ásgrímssyni og Davíði Oddsyni miða á leiksýningu Stúdentaleikhússins „Þú veist hvernig þetta er“. Fylgir ekki sögunni hvort þeir hafi slegið til og skellt sér á sýninguna. Nokkrar ungar konur gerðu sér ferð til Hveragerðis í september, á stofnfund Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar og létu að sér kveða þar. Hart var unnið að því að virkja aðildarfélög UJ víðsvegar um landið og stóð árangurinn ekki á sér. Á árinu voru haldnir aðalfundir í mörgum félögum og nýjar stjórnir kjörnar. Nýtt félag var stofnað í Mosfellsbæ í september 2005. Í september 2004 var haldið undir Eyjafjöllin til að efla samstarfsanda nýrrar stjórnar. Heppnaðist ferðin afar vel. Hópeflisferð UJ hin síðari var farin í júní á þessu ári, á Flúðir. Jólakort var sent á velunnara UJ um jólin 2004. Á því voru ungbarnamyndir af framkvæmdastjórnarmeðlimum.

Samstarf við aðrar ungliðahreyfingar
Stofnun ÆSÍ, Sambands íslenskra æskulýðsfélaga í september – Andrés Jónsson kjörinn formaður samtakanna.
Þing Unga Fólksins var haldið í hátíðarsal Háskóla Íslands í mars á þessu ári í samstarfi við ungliðahreyfingar hinna stjórn¬mála¬flokkanna. Gekk þingið vel og hefur þegar verið sett saman nefnd til skipulagningar samskonar þings fyrir næsta starfsár.

Að lokum
Á heildina litið var starfsár framkvæmdastjórnar Ungra jafnaðarmanna 2004-2005 afar viðburðaríkt. Fleiri hugmyndir komu upp á árinu sem ekki komust í framkvæmd. Er það von fráfarandi stjórnar að öllu því góða starfi sem hafið hefur verið á starfsárinu verði haldið áfram og óskum við komandi framkvæmdastjórn velfarnaðar í starfi.

F.h. fráfarandi framkvæmdastjórnar UJ
Arndís Anna Gunnarsdóttir, ritari

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand