Af hverju mótmælum vér ekki allir?

Ég hef mjög gaman af því að mótmæla hlutum. Það er rosaleg stemmning að smíða slagorð, mála á skilti, þramma niður á Austurvöll og mótmæla einhverju í góðum félagsskap. Og býður oft upp á tilefni til að fara á gott skrall á eftir. Ef ég væri fræðimaður myndi ég kalla þetta gildishlaðna félagslega athöfn. Ég hef mjög gaman af því að mótmæla hlutum. Það er rosaleg stemmning að smíða slagorð, mála á skilti, þramma niður á Austurvöll og mótmæla einhverju í góðum félagsskap. Og býður oft upp á tilefni til að fara á gott skrall á eftir. Ef ég væri fræðimaður myndi ég kalla þetta gildishlaðna félagslega athöfn.

Sérstaklega ekki stelpur
Sumir halda því fram að ég og fólk af mínu sauðahúsi sé bara að ,,mótmæla til þess að mótmæla” en ég vil mótmæla þeirri fullyrðingu. Ég hef einfaldlega þessa skrítnu þörf fyrir að hafa skoðun á hlutum sem mér finnst koma lífi mínu við (ég hef t.d. aldrei mótmælt úrskurðum húsfriðunarnefndar eða jarðaskiptingu í Austur-Landeyjum).

Hinir fjölmörgu fingur handa minna (fingur hinna fjölmörgu handa minna) duga ekki til að telja þau skipti sem ég hef fengið að heyra – út undan mér að vísu, því fólk virðist telja að ég sé ofbeldisfyllri en ég í rauninni er – að ég sé nú meiri truntan að þurfa alltaf að vera með uppsteyt. Geti aldrei sætt mig við hlutina eins og þeir eru. Það þykir ekki smekklegt að fólk, og sérstaklega ekki stelpur, sé alltaf að flagga skoðunum sínum á þennan hátt.

Haldið þið að þetta muni í alvörunni hafa einhver áhrif?
Ég fór að velta þessu svolítið fyrir mér um daginn þegar ég og nokkrir málefnalegir vinir mínir stóðum fyrir mótmælum gegn samræmdu stúdentsprófunum. Þá fengum við nefnilega að heyra svona komment ansi oft: Af hverju getið þið ekki bara sætt ykkur við þetta eins og allir aðrir? Af hverju þurfið þið alltaf að vera með vesen? Haldið þið að þetta muni í alvörunni hafa einhver áhrif? Þessar athugasemdir voru frekar þreytandi og ekki vel til þess fallnar að hvetja mann áfram. Ég vissi heldur ekki betur en það væru stjórnvöld sem væru með vesen en ekki við. Fyrir mér er þetta orsakasamhengi: ef maður er á móti einhverju þá mótmælir maður því. Ekki: ef maður er á móti einhverju nöldrar maður dálítið við sjálfan sig og lætur svo valta yfir sig.

Ekki mitt mottó að sætta mig bara við hlutina
Ég gat ekki sætt mig við þetta eins og allir aðrir því að ef það væri í alvörunni mitt mottó í lífinu að sætta mig bara við hlutina myndi ég enda sem bitur og nöldrandi gömul kelling. Hvernig væri heimurinn ef allir hefðu þetta viðhorf, að það borgaði sig ekki að koma skoðunum sínum á framfæri? Maður veit það aldrei nema prófa. Annars gæti maður eins setið heima hjá sér allan daginn. ,,Æi, ég nenni ekki að sækja um þessa vinnu, ég fæ hana hvort eð er ekkert.” Hvernig væri heimurinn ef Gandhi, Martin Luther King og allt hitt liðið sem mér finnst soldið kúl, hefði hugsað svona – og haldið sig bara heima?

Föðurlegt bros Il Duce skín sem sólin yfir auðmjúkum og afskiptalausum þegnunum
Við eigum ekki að vera áhorfendur að eigin lífi. Það er það sem er mitt mottó og þess vegna mun ég halda áfram að mála á mótmælaspjöld til að veifa framan í stjórnendur bananalýðveldisins Íslands. Þegar löngu verður búið að breyta landinu í eitt stórt álver, úthýsa öllum útlendingunum, afnema jafnréttislögin, útrýma öllum fjölmiðlum nema Flokksblaðinu og stofna íslenskan her sem getur tekið að sér að bombardera hin og þessi lönd aftur á steinöld, og þegar föðurlegt bros Il Duce skín sem sólin yfir auðmjúkum og afskiptalausum þegnunum – meira að segja þá ætla ég að koma mér fyrir á Austurvelli með mótmælaspjald í annarri og óbugandi þrjósku íslensku sauðkindarinnar í augunum. Þó ekki væri nema til að halda sjálfsvirðingunni.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið