Af hverju ekki ESB?

,,Af hverju getum við ekki treyst þjóðinni til að ákveða svona gríðarlega stórt mál? Það er fráleitt að láta þetta ráðst eftir flokkalínum. Hægri- og vinstrimenn vilja aðild að ESB. Þeir hægri menn, sem vilja þó aðild (einsog gríðarlega margir í viðskiptalífinu) geta hins vegar ekkert gert þar sem að flokkurinn hefur ákveðið að vera á móti ESB.“ Segir Einar Örn Einarsson í grein dagsins. Það sem vekur ítrekað furðu mína varðandi umræðu um Evrópusambandið á Íslandi er hversu lokaðir allir stjórnmálaflokkar, utan Samfylkingarinnar, virðast vera fyrir því að skoða aðild Íslands að ESB. Allir flokkar utan Samfylkingarinnar virðast ekki hika við að halda því fram að allt sé ómögulegt í samningaviðræðum við ESB, án þess þó að hafa nokkuð fyrir sér í þeim efnum . VG virðast vera á móti ESB af því að þá getum við ekki verslað við Suð-Austur Asíu (einsog Árni Þór Sigurðsson sagði) – alveg einsog að ESB þjóðir versli ekkert við lönd utan ESB. Aðrir flokkar virðast aðallega vera á móti ESB aðild vegna þess að þeir gefa sér þær forsendur að við munum ávallt ná mjög slæmum árangri í samningaviðræðum um aðild að ESB.

Umræður um ESB hjá öðrum flokkum virðast algjörlega taka mið af því að þeir flokkar gefa sér þær forsendur að við munum engum árangri ná með okkar mál í aðildaviðræðum við ESB. Allir eru sannfærðir að aðildaviðræður verði einhver algjör einstefna, þar sem ESB fær öllu fram, kvótinn verði ákveðinn frá Brussel og svo framvegis. Aðeins einn flokkur vill láta á það reyna hvað aðildaviðræðurnar skila okkur. Það er Samfylkingin. Ég bara get ekki fyrir mitt litla líf skilið af hverju fólk er á móti þeirri stefnu Samfylkingarinnar. Í stað þess að gefa sér eilíft neikvæðar forsendur fyrir árangri að aðildarviðræður, þá vill Samfylkingin láta á það reyna. Í stað þess að tala bara stanslaust um neikvæðu hliðarnar á ESB aðild, þá vill Samfylkingin láta reyna á það hvaða jákvæðu áhrif ESB aðild getur haft fyrirÍsland.

Takið eftir því að stefna Samfylkingarinnar er ekki að ganga inní ESB. Stefnan er að skilgreina það, sem við viljum ná útúr aðildaviðræðum, fara í þær, sjá hvaða árangri við náum útúr þeim og leggja svo niðurstöðurnar fyrir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvað er að þessu?

Ef allt verður ómögulegt í viðræðunum, þá einfaldlega fellum við samninginn. Ef við hins vegar getum náð árangri með okkar mál og menn telji að það sé til dæmis hagstæðara að vera með evru í stað krónu, þá samþykkjum við aðildina. Þetta er ekki svo flókið. Er það ekki gáfulegra að Íslendingar fái að sjá hverju aðildaviðræður geta skilað okkur? Er það okkar í hag að besservisserar í öllum hornum reyni að skálda það upp hvað ESB mun segja í aðildaviðræðum? Væri það ekki frekar þjóðinni til hagsbóta að sjá hvað við fáum í raun útúr aðildaviðræðum?

27 Evrópuþjóðir eru hlutar af ESB, þar á meðal allar stærstu þjóðirnar. Flestar aðrar þjóðir vilja innöngu. Af hverju ekki Íslendingar? Af hverju erum við svona spes?

Já, en horfið á Noreg öskra þá andstæðingar ESB. Já, horfum á Noreg. Þar fékk fólkið að ákveða hvort það vildi aðgang að ESB. Þar fór ríkisstjórnin í aðildaviðræður og lagði svo það í dóm kjósenda hvort að hag Noregs væri betur borgið innan ESB eða utan. Nákvæmlega það sama og t.d. Svíar og Finnar gerðu. Svíar og Finnar sögðu já – Norðmenn nei. Af hverju fá Íslendingar einir þjóða ekki einu sinni að ákveða hvort þeir vilji vera í ESB?

Af hverju þurfum við að láta stjórnmálamenn hafa vit fyrir okkur? Af hverju getum við ekki treyst þjóðinni til að ákveða svona gríðarlega stórt mál? Það er fráleitt að láta þetta ráðst eftir flokkalínum. Hægri- og vinstrimenn vilja aðild að ESB. Þeir hægri menn, sem vilja þó aðild (einsog gríðarlega margir í viðskiptalífinu) geta hins vegar ekkert gert þar sem að flokkurinn hefur ákveðið að vera á móti ESB.

Eina lausnin á þessum deilum er að fara í aðildaviðræður, sjá hvaða árangri við náum og leyfa svo þjóðinni að ákveða. Alveg einsog hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa haft tækifæri til. Við Íslendingar eigum það líka skilið.

Greinin birtist í gær á vefriti Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík – UJR.is


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand