Af hugtakinu frelsi

Frelsi er vandmeðfarið, og hefur oft verið beygt og snúið í gegnum tíðina. Ungir sjálfstæðismenn hafa oft á tíðum haldið því á lofti að flokkur þeirra sé hinn sanni boðberi frelsis, og halda úti heimasíðu sem ber nafnið www.frelsi.is. Í því tilefni vilja þeir lækka allar álögur á einstaklinga, svo menn ráði því algjörlega sjálfir hvað þeir geri við sitt fjármagn. Þannig sjá þeir frelsið í sinni tærustu mynd. Þeir vilja einnig að ríkið skipti sér sem minnst af stoðum samfélagsins, allt í nafni frelsisins.

Reyndar er hugtakið frelsi voðalega loðið hugtak og erfitt að negla það niður í fáum orðum. Það er svo sem hægt að þvarga endalaust um skýringu á hugtakinu frelsi og í hvaða mynd frelsið birtist. Hér er samt sem áður aðeins verið að ræða það „frelsi“ sem hægrimenn og ungliðar þeirra boða.

Ungir sjálfstæðismenn beygja hugtakið frelsi á ákveðinn hátt. Hið skrumskælda frelsi þeirra er aðeins í sambandi við frjálst flæði fjármagns. Þessi hönd Smiths, sú frjálsa og ósýnilega stjórnar. Stuttbuxnaarmur íhaldsins er á þeirri skoðun að ef skattar og álögur eru í algjöru lágmarki fái frelsið að njóta sín. Á vissan hátt er það alrangt. Hvernig virkar frelsið ef þú kemst ekki í framhaldsmenntun sökum efnahags? Hvernig virkar frelsið þegar einstaklingurinn hefur ekki efni á heilbrigðisaðstoð? Hvað er þetta frelsi eiginlega?

Sterk samfélagsleg aðstoð er grundvöllur þess að samfélagið virki sem heild. Að allir þegnarnir hafi greiðan aðgang að samfélaginu eru lágmarksréttindi þegnanna. Í mínum augum snýst frelsið um réttindi einstaklinga og skyldur samfélagsins til að sinna því frelsi. Menntun og heilbrigðisaðstoð fyrir alla er hið tærasta frelsi.

Sama hvar maður drepur niður fæti fyrir kosningarnar núna í maí, eru helstu kosningamálin á sviði félagsþjónustu. Málefni aldraðra, leikskólamál, kjaramál ungra barnafjölskyldna og öryrkjamál eru alls staðar á dagskrá og virðast vega hvað mest í hugum kjósenda. Því spyr ég ykkur lesendur góðir, hvaða flokkur getur sinnt félagsþjónustu betur en félagshyggjuflokkurinn Samfylkingin?

Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkurinn sem hefur Frelsi, jafnrétti og bræðralag að leiðarljósi, er hinn sanni boðberi frelsis. Frelsi allra til þátttöku í því samfélagi sem þeir búa í.

Höfundur er formaður UJA og er frambjóðandi á lista Samfylkingarinnar á Akureyri.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand