Fyrir um tvö þúsund árum var á dögum maður sem átti eftir að breyta gangi sögunnar um aldir alda. Það gerði hann ekki með vopnavaldi heldur orðkynngi, ekki með hversdagsathöfnum heldur kraftaverkum, ekki með hatri heldur kærleik, ekki með vandlætingu heldur umburðarlyndi. Það kristallast í orðum hans: „Í húsi föður míns eru margar vistarverur.“ Í 3. gr. laga um tæknifrjóvgun nr. 55/1996 kemur fram að það megi aðeins framkvæma tæknifrjóvgun ef ákveðin skilyrði séu uppfylt. Þau eru meðal annars að kona sem undirgengst aðgerðina sé í samvist með karlmanni, í hjúskap eða í óvígðri sambúð sem hefur staðið að minnsta kosti í 3 ár. Einnig þarf aldur tilvonandi foreldra að vera „eðlilegur“ og þá á að taka tillit til velferðar barnsins á uppvaxtarárum. Andleg og líkamleg heilsa parsins verður að vera góð og einnig félagslegar aðstæður. Þessi skilyrði eru góð og gild.
En það er forvitnilegt að bera þessi lög saman við lög um ættleiðingar nr. 130/1999 en þá kemur í ljós að skilyrðin þar eru strangari. Þar þarf par að vera gift eða í óvígðri sambúð í 5 ár. Reyndar má leyfa einstaklingum að ættleiða ef sérstaklega stendur á og það sé talið barninu ótvírætt til bóta. Af hverju er mismunur á þessum lögum? Snýst þetta ekki um að veita barni öruggt og ástríkt heimili? Tel ég að samræmi ætti að vera hér.
Við vitum að heilbrigðiskerfið á Íslandi styður vel við bakið á verðandi mæðrum. Má þar nefna meðgöngueftirlit og fría þjónustu á sjúkrahúsi við fæðingu og einnig að henni lokinni. Ungbarnaeftirlit hér á landi er með því besta sem gerist. Þeir sem fara í tækni- og glasafrjóvganir fá þann kostnað greiddan að hluta. Þær konur sem geta ekki orðið þungaðar nýta sér augljóslega ekki þessa þjónustu og ættu að mínu mati að fá þá styrk til ættleiðingar.
Fram kemur á heimasíðu Ættleiðingar að þegar kemur að ættleiðingu þurfa væntanlegir kjörforeldrar að greiða allan þann útlagða kostnað sem til fellur sem getur farið uppí 1,5 milljón fyrir hvert barn. Þessi kostnaður er mikill og er ekki fyrir alla að standa í því. Einnig er ættleiðingarferlið tímafrekt og reynir mikið á andlega líðan. Fólk sem fer í ættleiðingar hefur auk þess flest reynt að fara í glasa- og tæknifrjóvganir sem eru erfiðar og kostnaðarsamar. Ísland er eina landið á Norðurlöndunum sem ekki styður fjárhagslega við bakið á væntanlegum kjörforeldrum. Ég tel að þetta sé mikið jafnréttismál sem við ættum að laga eins fljót og hægt er.
Mynd: solere.blogs.com