Að víkja ekki frá sinni sannfæringu

0,,Það að standa fast á sinni sannfæringu þó svo að hún sé ekki sú vinsælasta er gríðarlega erfitt en sú staðfesta er þó grundvöllur trúverðugleika“. Segir Sölmundur Karl Pálsson ritstjóri politik.is í grein dagsins….

Eitt af því sem undirritaður hefur verið duglegur við að rita um er pólitískur þroski og hugrekki stjórnmálamanna. Ein af fyrstu greinum sem birtist eftir mig á politik.is fjallaði einmitt um hugrekki stjórnmálamanna. En í hugrekki stjórnmálamanna felst að stjórnmálamaður standi á sinni eigin sannfæringu sama hvað á gengur hvort sem flokksystkini eða almenningur er sammála. Að standa á sinni sannfæringu er ekki auðvelt fyrir stjórnmálamann sem þarf að treysta á atkvæði almennings til að halda sinni atvinnu. Þegar stjórnmálaandstæðingar eða almenningur eru ekki sammála tiltekinni sannfæringu er mjög erfitt að standa fast á sinni sannfæringu þó svo að stjórnmálamaðurinn telji að sannfæring hans sé best fyrir almenning. Stjórnmálamaður þarf að hafa sterk bein til að standast ýmsar árásir, en sem betur fer eru til stjórnmálamenn sem hafa það sterk bein að þeir víkja aldrei frá sinni sannfæringu hvernig sem viðrar. Svoleiðis stjórnmálamenn eru þó vandfundnir og því ber okkur hinum sem fylgjumst vel með stjórnmálum að hrósa slíkum stjórnmálamönnum.

Jafnaðarstefnan í fyrirrúmi

Þann 1. maí veittu Ungir jafnaðarmenn þeim Rannveigu Traustadóttur og Barna- og unglingageðdeild Landsspítalans félagshyggjuverðlaunin en sérstök heiðursverðlaun féllu Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra í skaut. Ungir jafnaðarmenn verðlaunuðu Jóhönnu fyrir að víkja aldrei frá jafnaðarmannahugsjóninni í þau 30 ár sem hún hefur starfað á Alþingi. Það að Jóhanna hafi aldrei vikið frá jafnaðarhugsjóninni sýnir mikið þrekvirki þar sem hún stóð á sínu þrátt fyrir ýmsa erfiðleika, þó svo að hún hafi verið slegin niður stóð hún alltaf upp og hennar tími kom svo að lokum. Jóhanna er gott dæmi fyrir jafnaðarmenn að víkja aldrei frá hugsjóninni þrátt fyrir erfiðleika.

Annað gott dæmi um jafnaðarmann sem hefur staðið á sinni sannfæringu er hæstvirtur umhverfismálaráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir. Mikið hefur gerst eftir að Þórunn tók við embættinu, margt af því sem hún hefur þurft að glíma við hefur henni ekki reynst auðvelt. Bæði landslög og nokkrir stjórnmálamenn hafa ekki gert henni lífið auðveldara, jafnvel hefur samstarfsflokkurinn ekki verið sammála henni í einu og öllu. Þrátt fyrir að ekki hafi allir verið sammála henni hefur hún þó ávallt staðið við sína sannfæringu. Þórunn hefur lengi verið á móti virkjun í Þjórsá og þann 8. maí síðastliðinn á Alþingi staðfesti hún að hún væri á móti eignarnámi á landi við Þjórsá. Eins og ástandið í efnahagsmálum er í dag, er mjög auðvelt að falla í þá freistingu að styðja við uppbyggingu virkjunar í Þjórsá. Sama hvernig ástandið verður, mun Þórunn ekki breyta um skoðun á virkjanamálum, og því að vera mótfallinn frekari virkjunaráformum þarf virkilega sterk bein til, ekki síst þegar efnahagsástandið er eins og það er í dag.

Standa vörð um grunngildin

Allir jafnaðarmenn sem og aðrir stjórnmálamenn eiga að taka þessar tvo ráðherra sér til fyrirmyndar. Það að standa fast á sinni sannfæringu þó svo að hún sé ekki sú vinsælasta er gríðarlega erfitt en sú staðfesta er þó grundvöllur trúverðugleika. Ef ráðherrar, þingmenn og sveitarstjórnarmenn flokksins halda áfram að vera trúir sinni jafnaðarmennsku mun flokknum vegna vel. Um leið og einstaklingarnir í hvaða flokki sem er fjarlægjast sína eigin sannfæringu, taka einhverja tískustrauma upp mun sá flokkur smá saman hverfa. Hins vegar ef einstaklingarnir á bakvið flokkinn standa fastir á sinni sannfæringu mun grunnurinn vera traustur og flokkurinn lifa áfram þrátt fyrir mótlæti. Því hvet ég ráðherra, þingmenn og sveitarstjórnarmenn Samfylkingarinnar að halda áfram að hafa jafnaðarhugsjónina að leiðarljósi í störfum sínum. En fyrst og fremst vil ég að fulltrúar Samfylkingarinnar standi fastir á sinni eigin sannfæringu, það er það sem skiptir mestu í heiðarlegum stjórnmálum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand