Mikið hefur verið rætt um fyrirhugaða styttingu framhaldsskólans undanfarna daga. Frumvarp menntamálaráðherra hefur ekki vakið mikla lukku, hvorki meðal nemenda né kennara framhaldsskólanna. Í þessari grein mun ég hins vegar ekki taka afstöðu til fyrirætlana menntamálaráðherra heldur fara hér á eftir nokkrar hugleiðingar varðandi nám á Íslandi, af hverju við ættum að stytta það og hvernig. Mikið hefur verið rætt um fyrirhugaða styttingu framhaldsskólans undanfarna daga. Frumvarp menntamálaráðherra hefur ekki vakið mikla lukku, hvorki meðal nemenda né kennara framhaldsskólanna. Í þessari grein mun ég hins vegar ekki taka afstöðu til fyrirætlana menntamálaráðherra heldur fara hér á eftir nokkrar hugleiðingar varðandi nám á Íslandi, af hverju við ættum að stytta það og hvernig.
Heildarsýn í menntamálum?
Þegar verið er að endurskoða lengd náms í framhaldsskóla verður að taka mið af námi í heild sinni. Þannig er ekki skynsamlegt að skera eitt ár af einu skólastigi án þess að gera ákveðnar breytingar á öðru. Í framhaldsskólunum væri til dæmis mjög óskynsamlegt að stytta námið niður í þrjú ár með því að skera af námsskránni og færa niður í grunnskólann þar sem kennarar eru ekki menntaðir til að sinna framhaldsskólakennslu. Í raun og veru þarf að fara að taka allt nám á Íslandi til gagngerrar endurskoðunar. Upp hafa komið hugmyndir um að færa skólaskylduna niður í fimm ára aldur. Slíkar hugmyndir eru góðra gjalda verðar en eiga líkast til ekki eftir að breyta miklu þar sem að lang flest íslensk börn eru byrjuð í leikskólanum þegar þau ná fimm ára aldri. Einnig hefur samvinna á milli grunnskóla og leikskóla verið að færast í aukana og mikilvægt að leyfa því framtaki að þróast á eðlilegan hátt.
Eru íslenskir unglingar heimskari en aðrir unglingar?
Þegar kemur að framhaldsskólanum hafa tvær leiðir verið í deiglunni til að stytta leið ungs fólks að stúdentsprófi. Annars vegar að stytta grunnskólann um eitt ár og hins vegar að stytta framhaldsskólann um eitt ár, en sú hugmynd hefur orðið ofan á í menntamálaráðuneytinu. Eins og komið hefur fram hafa framhaldsskólanemar og kennarar snúist mjög gegn styttingunni. En hvaða rökum er beitt gegn henni? Nefnt hefur verið að fjögur ár í framhaldsskóla séu visst þroskaferli sem að allir verði að fara í gegn um og að styttingin eigi eftir að koma niður á vali nemenda í framhaldsskóla. Það hlýtur að vera umhugsunarefni að íslenskir unglingar þurfi allt að tveimur árum lengri tíma en unglingar í nágrannalöndum okkar til að þroskast. Ég er þessu ósammála og hef fulla trú á því að ungt fólk á Íslandi geti náð að þroska getu sína og hæfni á jafn löngum tíma og ungt fólk annars staðar í heiminum. Hvað val í framhaldsskóla varðar þá þarf það alls ekki að minnka við styttingu námsins. Skólaárið er orðið mun lengra en það var áður og er hægt að nýta það mun betur en nú er gert. Framhaldsskólanemar eyða allt of miklu af tíma sínum í próf og próflestur og mætti stundum ætla að framhaldsskólarnir væru sérstök þjálfunarstöð í próftöku frekar en menntastofnanir. Að stytta framhaldsskólann um eitt ár er raunhæft markmið en það þarf líka að framkvæma skynsamlega og passa vel upp á að styttingin komi ekki niður á fjölbreytni í námi.
Skólakerfi fyrir einstaklinginn en ekki heildina
Að stytta nám í framhaldsskólunum er þó einungis eitt lítið skref í rétta átt. Ég vil sjá íslenskt skólakerfi sem er byggt upp í kring um hinn einstaka nema en ekki bekkjarheildir eða árganga. Það hlýtur að vera kappsmál að öll skólastig leitist við að þroska og styðja einstaklinginn og leyfa honum að njóta sín á eigin forsendum. Til að þetta sé hægt þarf sveigjanleikinn að aukast til muna og hreifanleiki á milli skólastiga að vera meiri. Í alþjóðlegri samkeppni menntunar, sem fer stigvaxandi, eiga íslenskir nemendur að standa jafnfætis öðrum og því hlýtur það að vera markmið okkar að útskrift nemenda úr framhaldsskóla við 18-19 ára aldur verði reglan frekar en undantekningin.