Ég er ekki hlynntur vændi, eða þeim hörmungum sem það getur af sér leitt. Ég er hinsvegar ekki heldur hlynntur því að breyta félagslegu vandamáli í glæpavandamál með það eitt að leiðarljósi að ala fólk sem veit ekki betur upp. Í þeirri skoðun felst engin mótsögn. Ég velti því stundum fyrir mér hverju sé mark á takandi í íslenskri löggjöf, sérstaklega með tilliti til stjórnarskrárinnar. Einhvern veginn virðist það vera sem svo að grundvallaratriði frelsis og lýðræðis séu góð og gild nema þegar lögvaldinu hentar að taka ekki tillit til þeirra, og að sjálfsögðu eru rökin alltaf sú að frelsi og lýðræði séu ekki fólkinu í landinu til góðs. Kannski var stjórnarskráin bara kosningaloforð, ritað á pappír til þess að fólk tæki mark á því. Jafnvel þó fólk taki almennt mark á því, virðast hvorki lögvaldið né dómstólar gjöra svo.
Gott dæmi er 206. gr. almennra hegningarlaga. Hún er svohljóðandi:
Hver sem stundar vændi sér til framfærslu skal sæta fangelsi allt að 2 árum.
Hver sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum.
Sömu refsingu varðar það að ginna, hvetja eða aðstoða ungmenni, yngra en 18 ára, til þess að hafa viðurværi sitt af lauslæti.
Áður en ég held áfram er mikilvægt að eitt sé á hreinu. Ég er ekki hlynntur vændi, eða þeim hörmungum sem það getur af sér leitt. Ég er hinsvegar ekki heldur hlynntur því að breyta félagslegu vandamáli í glæpavandamál með það eitt að leiðarljósi að ala fólk sem veit ekki betur upp. Í þeirri skoðun felst engin mótsögn.
75. gr. stjórnarskrárinnar er svohljóðandi:
Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.
Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.
Ég er ekki lögfræðingur, sem þýðir að ég kann ekki að taka tillit til „nema þegar ríkisvaldinu þóknast“-rakanna, en hér er fólki meinað að stunda vændi til framfærslu, þrátt fyrir mjög skýrt ákvæði í stjórnarskrá um að slíkt megi ekki gera nema almannahagsmunir krefjist þess! Það eina sem gæti fræðilega gert þetta réttlætanlegt, eru orðin „enda krefjist almannahagsmunir þess“.
Ef það á að standast að sala eins á kynferðisatlotum sínum sé almannahagsmunamál, má með sömu röksemdafærslu banna hvern annan og einasta iðnað sem hefur þekkst eða mun þekkjast á Íslandi í framtíðinni. Ég vænti þess fastlega að þessi atvinnuréttur sem okkur er tryggður í stjórnarskrá sé gerður sérstaklega með það í huga að meina ríkinu að hindra atvinnugreinar eftir geðþótta, nema aðeins og eingöngu þegar sú sala á þjónustu og/eða vöru gengur gegn almannahagsmunum, svo sem þegar um vopnakaup er að ræða, upplýsingar um innra skipulag lögreglunnar, ráðgjöf til hryðjuverka eða þvíumlíkt. Það stenst að refsivert sé að veita alla þessa þjónustu, en að setja vændi undir sama hatt mun ekki leysa nokkurn skapaðan hlut, heldur eingöngu beita vændisfólk sömu kúgun og við ætlum alvöru glæpamönnum sem gera öðrum en sjálfum sér skaða.
Þessi grein hegningarlaga, fullyrði ég, var sett til þess að gera óvinsælan hóp þjóðfélagsins, sem af einni eða annarri ástæðu kaus eða kaus ekki lifnaðarhætti sem stjórnvöldum er í nöp við, að glæpamönnum.
Ég tek fullkomlega undir það sjónarmið að þegar kynlíf er selt af óviljugum einstaklingi, þá beri sá einstaklingur skaða, og að í þeim tilfellum eigi hann að hafa tilkall til hjálpar samfélagsins. En það að refsa fólki fyrir að lenda í hinu eða þessu, hvort sem það er vegna óheppni eða dómgreindarleysis, er þvert á við lausnina; það er ekkert nema enn einn bagginn ofan á þjáninguna sem við annars þykjumst skammast okkar fyrir að umbera. Að refsa viðskiptavinum er annað form nákvæmlega sömu rökleysunnar sem leiðir af sér nákvæmlega sama réttarleysi þess sem selur vændi. Það eru engin stéttarfélög eða hagsmunasamtök í undirheimunum. Mannréttindi í stjórnarskrá, rituð með blóði í stað bleks, breyta því ekki.
Læknar deila stanslaust um það hvernig beri að lækna hina og þessa sjúkdóma, en allir eru þeir sammála um eitt. Maður læknar ekki krabbamein með því að drepa sjúklinginn.