Að kenna konum um

Cherchez la femme (leitið konunnar), segir franskt máltæki. Frá alda öðli hefur konum verið kennt um ýmislegt sem miður fer. Eitt kunnasta dæmið um það er í Gamla testamentinu þegar höggormurinn ginnir Evu til að bragða á aldinum af skilningstré góðs og ills og lífsins tré og gefa Adam með sér. Fyrir vikið eru þau skötuhjúin gerð brottræk úr Eden. Að kenna konum um
Cherchez la femme (leitið konunnar), segir franskt máltæki. Frá alda öðli hefur konum verið kennt um ýmislegt sem miður fer. Eitt kunnasta dæmið um það er í Gamla testamentinu þegar höggormurinn ginnir Evu til að bragða á aldinum af skilningstré góðs og ills og lífsins tré og gefa Adam með sér. Fyrir vikið eru þau skötuhjúin gerð brottræk úr Eden.

Að hlunnfara konur
Undanfarið hafa hrannast upp teikn um að lítið þokist í jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna. Eitt ótvíræðasta merkið má finna í nýútkominni skýrslu Hagstofunnar, Konur og karlar 2004, en samkvæmt henni námu atvinnutekjur kvenna aðeins um 62% af tekjum karla árið 2003. Nú vilja eflaust margir friða eigin samvisku og annarra og skýra launamuninn með flestu öðru en kynferði, til dæmis mismunandi vinnutíma, menntun og starfsaldri, en slíkir þættir afsaka fátt og eru að mörgu leyti eftirhreytur frá síðustu öld, þegar enn frekar hallaði á konur en nú. Tölurnar tala sínu máli.

Þegar kemur að áhrifastöðum er sama hvar borið er niður: Karlar á hverju strái en konur aðeins á stangli. Þær eru tæpur þriðjungur alþingis- og sveitarstjórnarmanna, fjórðungur ráðherra, um fimmtungur forstöðumanna ríkisstofnana, tæpur fimmtungur framkvæmdastjóra sveitarfélaga og 29% þeirra sem sitja í opinberum nefndum og ráðum. Eins eru konur sjaldséðir hvítir hrafnar í ábyrgðarstöðum í samtökum atvinnulífsins, launþegasamtökum og helstu einkareknum fyrirtækjum.

Ekki þarf að fjölyrða um hvað kynbundinn launamunur felur í sér hróplegt ranglæti. Jafnframt hlýtur samfélaginu að vera akkur í að konur og karlar hafi jöfn tækifæri til að nýta hæfileika sína og krafta í stefnumótun og stjórnun. Annars nýtist ekki mannauðurinn sem skyldi og af hlýst stöðnun eða jafnvel afturhald.

Að hætta að hlunnfara konur
Nú verða þær raddir háværari að stjórnvöld þurfi að grípa inn í og skyldi engan undra. Ein leiðin til að sporna við kynbundnum launamun gæti verið sú að aflétta launaleynd gagnvart stéttarfélögum. Svo má auðvitað deila um hver væru hæfileg viðurlög við yfirdreps- og slóðaskap í að jafna hlut kynjanna en það gætu til dæmis verið skertar fjárveitingar til stofnana og samtaka og sektir á fyrirtæki. Umbun fyrir að vinna ötullega gegn kynjamisrétti gæti aftur á móti falist í skattaívilnunum til fyrirtækja. Öll fjárframlög til að stemma stigu við kynjamisrétti hljóta svo að skila sér í bættum þjóðarhag þegar fram líða stundir.

Að hætta að kenna konum um
Það er deginum ljósara að slælega gengur að rétta hlut kvenna og stundum sagt að konur geti við sjálfar sig sakast; þær séu hvorki nógu eftirgangssamar né nógu framagjarnar. Það verður þó aldrei átylla til að líða kynbundinn launamun. Auk þess eru margir fengnir til ábyrgðarstarfa án þess að auglýst sé eftir umsækjendum, samanber hvernig skipað er í opinberar nefndir og ráð.

En hvað veldur ef eitthvað kynni að vera hæft í því að konur haldi sér til hlés? Væri ekki nærtækast að skýra það svo að þær hafa margar hverjar alist upp við misrétti kynjanna, vanist því að konur í sviðsljósinu og konur á framabraut njóti ekki sannmælis og uppskeri ekki eins og til er sáð? Árþúsunda misrétti hverfur ekki eins og dögg fyrir sólu.

Það er ekki fallega gert að kenna konum um að þær skuli enn eiga erfiðara uppdráttar í atvinnulífinu en karlar og mál að linni.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand