Að gera Seðlabankann sjálfstæðari

,,Ég hvet því alþingismenn til að skoða lög nr. 36 frá árinu 2001 í tilliti til skipan seðlabankastjóra, sem og skipun bankaráðs. Við verðum að gera Seðlabankann enn sjálfstæðari, til þess að ná betri árangri í efnahagsstjórn.“ segir Sölmundur Karl Pálsson í ritstjórnarpistli dagsins Ein af lykilstofnunum í samfélagi okkar er Seðlabankinn. Hlutverk hans er einfalt, en þó erfitt. Samkvæmt lögum á hann að vinna að stöðugleika í hagkerfi okkar. Samkvæmt lögum frá árinu 2001 tók bankinn sér verðbólgumarkmið, rétt eins og margir aðrir evrópskir seðlabankar höfðu gert. Eftir að bankinn setti sér verðbólgumarkmið hefur hins vegar gengið illa að ná tilætluðum árangri. Hefur hann verið gagnrýndur fyrir svifasein viðbrögð, að byrja of seint að hækka stýrivexti og ekki gera það með meira afgerandi hætti. Og auðvitað hjálpaði fyrri ríkisstjórn ekki bankanum við að halda verðbólgunni niðri. Það má einnig ræða það hvort bankinn hafi gert mistök um að kasta frá sér bindiskyldunni til þess að berjast við verðbólguna, rétt eins og Þorvaldur Gylfason hefur bent á. En með því að hækka bindiskyldu, hefði Seðlabankinn hugsanlega geta dregið úr lánsframboði. Það má lengi deila um mistök stofnanna við hagstjórn, en við verðum einnig að gagnrýna hvernig stofnunin er uppbyggð, og þá sérstaklega hvernig þeir sem stjórna henni eru ráðnir.

Minnka þarf ítök stjórnmálamanna í Seðlabankanum

Ef alþingismenn hugsa um velferð almennings, þurfa þeir að gera þarfar breytingar á Seðlabanka Íslands. Í fyrsta lagi er ekki eðlilegt að forsætisráðherra einn og sér geti skipað mann í jafn mikilvæga stöðu sem seðlabankastjóri er. Síðast var ekki ráðinn hæfasti einstaklingurinn til að gegna starfi seðlabankastjóra. Í landi eins og Íslandi sem hefur átt í erfiðleikum með verðbólgudrauginn, höfum við ekki efni á slíkum klíkuskap. Teldi undirritaður skynsamlegra að færa þetta vald til Alþingis, þó svo að forsætisráðherra gæti eftir sem áður tilnefnt seðlabankastjóra. Einnig tel ég ekki skynsamlegt að þeir sem sitja í bankaráði séu kosnir hlutfallskosningu á Alþingi. Ég vil frekar sjá að búin sé til nefnd eða ráð sem saman sett er úr hagfræðingum úr háskólasamfélaginu sem væru bankastjórn til ráðgjafar. Með fullri virðingu fyrir fólkinu sem stjórnmálaflokkar tilnefna í bankaráði, hafa þau ekki alltaf þá þekkingu sem til þarf, en það er þó ekki alltaf þannig. Einnig er það tilhneiging stjórnmálaflokka að koma sínu fólki að. Það að gera Seðlabankann okkar óháðari framkvæmdavaldinu er gríðarlega mikilvægt fyrir efnahagsstjórn landsins. Við þurfum að hafa Seðlabankann okkar lausan við stjórnmálamenn, enda hefur reynslan við að hafa gamla stjórnmálamenn í Seðlabankanum ekki verið góð.

Með seðlabankastjórann í maganum?

Ákvarðarnir Seðlabankans geta haft gríðarleg áhrif á afkomu almennings. Og þegar Seðlabankanum mistekst að halda verðbólgu niðri, hefur það gríðarlegan kostnað fyrir almenning, sem og viðskiptalífið í heild. Seðlabankinn verður að vera trúverðugur, en það er erfitt að taka Seðlabankann trúverðugan þegar formaður stjórnar Seðlabankans fer ávallt í hringi í þjóðfélagsumræðunni. Maður sem hlær af þeim sem reyna að halda evru umræðunni uppi, er greinilega ekki að hugsa um velferð almennings.
Ég hvet því alþingismenn til að skoða lög nr. 36 frá árinu 2001 í tilliti til skipan seðlabankastjóra, sem og skipun bankaráðs. Við verðum að gera Seðlabankann enn sjálfstæðari, til þess að ná betri árangri í efnahagsstjórn. Eða eru kannski einhverjir gamlir þingmenn sem nýjir sem hafi þann draum í maganum að verða einhverntímann seðlabankastjóri?

                                  Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 24. desember 2007

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand