Á villigötum

Skert þjónusta við háskólanemendur, svikin loforð stjórnmálaflokkanna, fjárhagsvandræði framhaldsskólanna, yfirvofandi kennaraverkfall. Þetta og margt fleira er að komast í umræðuna hjá landsmönnum, nú þegar fjölmiðlafrumvarpið er hætt að fylla síður blaðanna og fólk farið að geta talað um einhver önnur málefni. Menntamál í molum
Skert þjónusta við háskólanemendur, svikin loforð stjórnmálaflokkanna, fjárhagsvandræði framhaldsskólanna, yfirvofandi kennaraverkfall. Þetta og margt fleira er að komast í umræðuna hjá landsmönnum, nú þegar fjölmiðlafrumvarpið er hætt að fylla síður blaðanna og fólk farið að geta talað um einhver önnur málefni.

Fyrir þau okkar sem látum okkur menntamál varða er útlitið svart og ljóst að hinn nýi ráðherra hefur farið ansi hikstandi af stað, svo ekki sé sterkar tekið til orða. Mikið þarf að gerast á næstu misserum ef staðan á að batna og allt útlit er fyrir að staðan fari versnandi eins og áform um skólagjöld og fjöldatakmarkanir sýna. Það sem mig langar hinsvegar að vekja athygli á er að staðan er ekki aðeins slæm á þessum þremur stigum menntakerfisins, leikskólastigið er einnig í molum.

Nú er ég viss um að einhverjir villiráfandi, vatnsgreiddir frjálshyggju drengir í alvarlegri tilvistarkreppu hafa villst hingað inn og iða nú í skinninu í mjúku leðurstólunum sínum. Af hverju? Jú, af því að sveitarfélögin sjá jú um leikskólana og því vilja þeir kenna sveitarstjórnunum um allt sem miður fer, þá sérstaklega R-listanum. En er það réttlátt? Skoðum aðeins málið.

Það hefur margt jákvætt gerst á undanförnum árum í málefnum leikskólanna. Heilsdagsplássum hefur fjölgað gríðarlega og bara frá því í fyrra hefur árs gömlum börnum sem njóta leikskólavistar fjölgað um 27%. Þessari fjölgun heilsdagsplássa og fjölgun barna að auki hefur augljóslega kallað á fleiri leikskóla, þessari þörf hafa sveitarfélög all flest mætt af sóma og hæpið að saka þau um annað.

Leikskólakennarar
En þessari fjölgun leikskóla og barna fylgir augljóslega þörf fyrir fleiri leikskólakennara. Og þar er víða pottur brotinn. Á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga má finna ýmsar upplýsingar um stöðu mála í leikskólum, grunnskólum og ýmsum málaflokkum, er þessi síða mjög opin og aðgengileg og vill ég hrósa sambandinu fyrir þessa síðu. Á þessari síðu náði ég mér í tölfræðilegar upplýsingar um leikskóla landsins. Þar kemur fram að á landinu eru alls 14.685 börn sem eru í leikskólum. Lang stærsti hópurinn, eða 9.898, í heildags plássum. Þar kemur einnig fram að það eru 900 starfandi leikskólakennarar eða einn kennari á hver 11 börn. Það eitt og sér hljómar kannski ekki svo illa en þegar litið er á hve margir leikskólar eru reknir án nokkurs faglærðs leikskólakennara þá lítur þetta mun verr út. Á landinu eru starfandi 30 leikskólar þar sem ekki einn einasti faglærður leikskólakennari starfar. Á þessum 30 leikskólum eru 865 börn. 865 börn sem ekki hafa einn einasta faglærðan leikskólakennara. Og þessir leikskólar eru ekki aðeins út á landi heldur eru dæmi um þetta í flestum sveitarfélögum landsins. Sem dæmi má nefna að í leikskólanum Lyngheimar, í Reykjavík, eru 96 börn sem ekki hafa neinn faglærðan leikskólakennara. Í leikskólanum Kópahvoll, í Kópavogi, eru 99 börn sem ekki hafa neinn faglærðan leikskólakennara. Í leikskólanum Álfasteinn, í Hafnarfirði, eru 95 börn sem ekki hafa faglærðan leikskólakennara. Þetta eru aðeins þrjú dæmi af 30 þar sem engan lærðan leikskólakennara er að finna.

En hvert er vandamálið? Er ekki bara í góðu lagi að á leikskólunum starfi aðallega ófaglærðir leikskólakennarar? Þurfa þessir starfsmenn nokkuð annað að gera en að klæða börn í útigalla og gefa þeim að borða?

Nei, nei og nei. Á leikskóla sendir meirihluti foreldra börn sín á aldrinum 1-6 ára. Á leikskólanum eru þau mestan part dagsins 5 daga vikunnar, í fimm ár. Þessi fimm ár eru gífurlega mikilvæg í lífi barna. Sjálfsmynd byrjar að mótast, börnin læra um reglur samfélagsins, um samskipti á milli manna og í raun um allt sem þau skynja. Þessi ár eru jú þau ár sem börn taka við hvað mestum upplýsingum og reyna að vinna úr þeim. Þessi úrvinnsla er gríðarlega mikilvæg fyrir barnið og það hvernig það og persóna þess mun þróast í gegnum lífið. Því er fáránlegt að segja að starf leikskólakennara sé ómikilvægt enda er það kennt á háskólastigi í Kennaraháskóla Íslands.

Fjársvelti
Þess vegna hlýtur það að liggja í augum uppi að það verða að vera nægilega margir leikskólakennarar í leikskólum landsins til að börn okkar, framtíð Íslands, geti þroskast og mótast sem mest og sem best á þessum árum. Enn og aftur hoppa vatnsgreiddu já-mennirnir í sætum sínum og halda því fram að enginn vilji vera leikskólakennari vegna þess hve sveitarfélögin borgi léleg laun eða standi þannig að rekstrinum að ekki sé spennandi fyrir ungt fólk að gerast leikskólakennarar. Eins og oft áður skjátlast þeim þar. Því umsóknir í Kennaraháskóla Íslands í ár voru 1.834 en eins og stendur orðrétt á vef Kennaraháskólans ,,Því miður leyfir fjárhagsrammi hans ekki að nema tæplega helmingi þessa hóps verði boðin skólavist.”

Aðeins var hægt að bjóða 903 nemendum inngöngu að þessu sinni. Á leikskólabraut sóttu 269 um en aðeins var unnt að bjóða 115 inngöngu. Það er því nokkuð ljóst Þorgerði Katrínu þykir það ekki vera forgangsverkefni að fjölga leikskólakennurum í takt við fjölgun leikskóla og barna sem sveitarfélögin hafa svo ötullega unnið að. Það er því jafnframt ljóst að Þorgerður Katrín er á villigötum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið