Á tíma góðæris og jóla sitja ekki allir við sama borð

Íslendingar hafa á liðnum áratug notið meiri farsældar en dæmi eru til um, þjóðartekjur hafa vaxið jafnt og þétt og meira en áður hefur þekkst. Aldrei fyrr hafa Íslendingar haft jafnmikla fjármuni milli handa. Það er því óneitanlega gríðarleg þversögn að nú á jólum, tíma manngæsku og vináttu, sést svo ekki verður um villst að fátækt hefur ekkert minnkað og enn lifir fólk á sultarlaunum og örbirgð við góðan orðstír ríkisstjórnarinnar. Nýlegt dæmi frá Alþingi um efndir samninga við öryrkja sýnir velvilja og hjartagæsku þessara verndara sauðsvarts almúgans. Íslendingar hafa á liðnum áratug notið meiri farsældar en dæmi eru til um, þjóðartekjur hafa vaxið jafnt og þétt og meira en áður hefur þekkst. Aldrei fyrr hafa Íslendingar haft jafnmikla fjármuni milli handa. Það er því óneitanlega gríðarleg þversögn að nú á jólum, tíma manngæsku og vináttu, sést svo ekki verður um villst að fátækt hefur ekkert minnkað og enn lifir fólk á sultarlaunum og örbirgð við góðan orðstír ríkisstjórnarinnar. Nýlegt dæmi frá Alþingi um efndir samninga við öryrkja sýnir velvilja og hjartagæsku þessara verndara sauðsvarts almúgans.

Fátækt eykst
Þúsundir einstaklinga hafa á liðnum árum þurft að leita sér aðstoðar hjá hinum ýmsu hjálparstofnunum, sem vinna mjög óeigingjarnt starf með það eitt að leiðarljósi að reyna að binda endi á eymdina hjá fjölda fólks. Stofnanir eins og Hjálparstofnun kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd, Félagsþjónustan og Rauði krossinn hafa allar sömu söguna að segja – það er að fátækt fari síst minnkandi hér á landi og fólk stígur æ oftar hin erfiðu spor til góðgerðarstofnana í von um aðstoð. Miðað við framgang yfirvalda landsins í garð hinna ógæfusömu má telja nokkuð víst að ásókn muni aukast frekar en minnka nú um þessi jól, sem virðist vera sama sagan ár eftir ár. Sem dæmi má nefna að Félagsþjónustan í Reykjavík sagði eftir síðustu jól að útgjöld sín í formi fjárhagsaðstoðar til fólks hafi aukist um 41% milli áranna 2001 og 2002 en til skýringar þá getur fólk sem hefur tekjur yfir 67 þúsund krónum ekki sótt um aðstoð hjá Félagsþjónustunni. Þetta sýnir þau vandræði sem fjölskyldur eru að glíma við, aukin skuldavandi og engar aðrar tekjur en félagslegar bætur svo dæmi séu tekin. Auk þess hefur Hjálparstofnun kirkjunnar sagt að fólk sé farið að leita til hennar í auknum mæli, fjölgunin milli áranna 2001 og 2002 var til að mynda 30%, þetta er fólk sem er að sækjast eftir mataraðstoð, ráðgjöf og jafnvel fé til að geta greitt lyf sín og reikninga. Það er fjölbreyttur hópur sem sækir þessa aðstoð en stærsti hópurinn er öryrkjar, auk þess koma einstæðar mæður, láglaunað fjölskyldufólk, atvinnulausir og ellilífeyrisþegar. Þetta eru lýsandi dæmi um hvernig þjóðfélagið hefur brugðist skyldum sínum gagnvart fólki sem minna má sín í þjóðfélaginu og hvernig öryggiskerfið í velferðarmálum Íslendinga er brostið, en þessu trausta öryggisneti höfum við löngum verið stolt af. Ekki síst sýnir þetta þó hvernig ráðamenn hafa skellt skollaeyrum við stjórnarskrárbundnum rétti þess fólks sem hefur staðið höllum fæti í þjóðfélaginu og er í brýnni þörf á aðstoð að halda.

Troðið á öryrkjum
Ráðamennirnir ákváðu þó rétt fyrir síðustu kosningar, af gjafmildi sinni, að gera samning við Öryrkjabandalag Íslands og leiðrétta þannig kjör þeirra, sérstaklega þó þeirra yngstu. Þetta var afleiðing þrotlausrar vinnu manna eins og Garðars Sverrissonar sem hafa barist hart fyrir kjörum sinna umbjóðenda. Ríkisstjórnin sá þó ekki ástæðu til að efna samning sinn til fulls heldur segja að einn milljarður væri nægjanlegt í fyrsta atrennu, enda mestu kjarabætur öryrkja í áratugi, þó skilningur þorra fólks hafi verið í þá átt að talað hefði verið um einn og hálfan milljarð.

Öryggisnetið er götótt – þúsundir falla á milli
Æ stærri hópur fólks lendir í þeirri skelfilegu lífsreynslu að festast í gildru fátæktar, hreinræktuðum vítahring sem fólki reynist oft ókleifur múr þrátt fyrir að það sé allt af vilja gert til að bjarga sér upp á eigin spýtur án aðstoðar annarra. Það er óskemmtileg upplifun að neyðast til að viðurkenna neyð sína á þennan hátt, að kyngja stolti sínu og þurfa að leggja á sig þá þrautargöngu að leita ásjár hjá öðrum. Þessi mál hafa ekki farið mjög hátt í samfélaginu og er kominn tími til að rödd þessa fólk heyrist og það fái þá aðstoð sem það á skilið. Okkar sterka öryggisnet sem á að vera einn höfuðkostur í íslensku velferðarkerfi er í dag svo götótt að hundruðir ef ekki þúsundir einstaklinga hafa ekki bolmagn til að framfleyta sér og sínum.

Meirihlutinn vil ekki hafa hlutina svona
Ég tel ekki hinn minnsta vafa leika á því að mikill meirihluti þjóðarinnar vilji að hér verði stjórnað af meiri réttsýni og samhyggju en hefur verið gert á liðnum árum. Því miður hafa ráðamenn þessarar þjóðar stjórnað landinu á undanförnum árum á þann hátt að það hefur einkennst af því að samhjálp, jöfnuður og félagshyggja er á undanhaldi – en það er mín trú að það hljóti að vera þvert á vilja þjóðarinnar. Það er brýnt verkefni fyrir þjóðfélagið að treysta á nýjan leik öryggisnet velferðarkerfisins og bæta kjör þeirra einstaklinga sem minna mega sín, þannig að hægt sé að losa fólk úr fjötrum fátæktar sem verður sífellt sýnilegri og áþreifanlegri í þjóðfélaginu. Mikilvægt skref væri að taka almannatryggingakerfið til gagngerrar endurskoðunar, þetta kerfi var sett á fyrir 10 árum og hefur síðan verið breytt iðulega, en aðeins með smá lagfæringum í senn. Mál er að linni, tími er kominn til að taka málefni þessara þjóðfélagshópa í gegn og skapa þeim viðunandi lífsviðurværi. Þessi endurskoðun á lögunum væri stórt skref í þá átt.

Vilji ríkisstjórnarinnar – ekki Samfylkingarinnar
Samfylkingin er flokkur sem mun gera allt sem í hans valdi stendur til að jafna þetta misvægi sem verið hefur ríkjandi í þjóðfélaginu á undarförnum árum. Samfylkingin vill koma í veg fyrir, ólíkt sumum flokkum hér í landi, að tvær stéttir verði allsráðandi. Hinir fáu útvöldu sem lifa eins og kóngar vegna þess að það er vilji ríkisstjórnarinnar og hinir almennu borgarar sem halda þessu þjóðfélagi gangandi en eru troðnir niður í svaðið því það er vilji ríkisstjórnarinnar.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand