Á að efla íbúalýðræði?

,,Nútíminn hefur kallað á aukna þátttöku almennings í ákvörðunartöku og því ættum við að setjast öll saman niður og ræða þessi mál af alvöru.“. Segir Sölmundur Karl Pálsson ritstjóri politik.is í grein dagsins.

Fyrr á öldum börðumst forfeður okkar með blóði, svita og tárum fyrir réttindum sem nútímafólk kallar lágmarksréttindi. Öll teljum við að kosningaréttur einstaklinga sé mikilvægur, það að einstaklingur geti kosið sér fulltrúa til að sinna ýmsum málum fyrir sig er merkilegur réttur. Það að geta refsað fulltrúa sínum fyrir að standa sig ekki í stykkinu og kjósa hann þar með ekki. Sú hugmynd að valdið komi frá fólkinu, og fólkið stjórni í raun er falleg hugsjón, hins vegar má ávallt rökræða um hvort almenningur með kosningaréttinum sé eins valdamikill og menn vilja vera láta.

Lengi vel barðist almenningur fyrir kosningarétti, að fá að segja eitthvað um málefni sem kemur honum beinlínis við. Svipuð staða blasir við í dag, en þó með ólíkum formerkjum. Rétt eins og áður berjumst við í dag fyrir því að fá að hafa meira að segja um málefni sem varða okkar nánasta umhverfi.

Krafa nútímans sú að almenningur taki virkari þátt í ákvarðanatöku sem varðar nærumhverfi sitt. Því hafa miklar umræður sprottið um íbúalýðræði og margar álitlegar spurningar hafa komið upp í sambandi við það. Hvaða málefni á að kjósa um? Hvernig og hver á að ákveða hvenær kosið er um málefni? Og hvaða reglur eiga að gilda um íbúakosningar? Allt eru þetta spurningar sem stjórnmálamenn og almenningur þurfa að svara. Mikilvægasta spurningin, sem við öll þurfum að svara, er hvort íbúalýðræði geti virkað við hliðina á fulltrúalýðræðinu?

Hvernig og hvaða mál á að taka?

Fyrir ári síðan ákvað Hafnarfjarðarbær að gefa íbúum tækifæri á að kjósa um skipulagsmál, en margir hafa hrósað Hafnfirðingum fyrir þá ákvörðun. Hins vegar hafa margar spurningar vaknað, til dæmis hvort bæjarfulltrúarnir sjálfir eigi að ákveða hvaða mál eigi að kjósa um? Eða eiga íbúarnir að fá að velja hvaða málefni eigi að kjósa um? Á Akureyri hefur umræðan um íbúalýðræði sprottið upp, þá sérstaklega í kringum skipulagsmál. Ekki síst er rætt um hvort bærinn eigi að halda hátíð um verslunarmannahelgina.

Á Akureyri, eins og víðast hvar í öðrum sveitarfélögum, hafa undirskriftarlistar gengið á milli bæjarbúa um ýmis málefni, en margir einstaklingar kvarta yfir því að ekki sé tekið mark á listunum. Spurning hvort hægt væri að nota undirskrifalista sem leið til að ákveða hvaða mál eigi að kjósa um? Ef til vill gæti Akureyrarbær kallað til íbúakosningar ef íbúar ná að safna 3.000 undirskriftum? Gallinn við undirskriftalista er sá að það er lítið mál að safna 3.000 undirskriftum. Undirskriftarlistar sýna þess vegna ekki endilega vilja meirihluta íbúa heldur oftast vilja einstaka hagsmunahópa.

Einnig þarf að svara því hvers konar mál íbúar eiga að fá að kjósa um. Geta íbúar safnað undirskriftum og knúið þannig fram kosningu um hvaða sem þeir vilja? Eða geta íbúar aðeins krafist kosninga um skipulagsmálum? Ef til vill er besta fyrirkomulagið að bæjar- eða borgarfulltrúar ákveði fyrirfram hvaða mál er hægt að setja í íbúakosningu? Ef stjórnmálamenn eru hlynntir aukinni þátttöku íbúa verða þeir að svara þessum grundvallarspurningum.

Semja þarf reglur

Um leið og almenningur og stjórnmálamenn hafa þróað kerfi sem ákveður hvaða mál eigi að vera hægt að kjósa um þarf að ákveða grunnreglur um kosningar. Á að setja reglur um lágmarksþátttöku? Eða nægir einfaldur meirihluti til að fella eða samþykkja tiltekið mál? Eins og sást í Hafnarfirði í fyrra þá varð kosningaslagur milli tveggja hópa sem reyndu að hafa áhrif á íbúanna, en fjárhagsstaða hópanna var mjög ólík. Þetta vandamál þarf að tækla til að íbúalýðræði virki sem skyldi. Setja þarf reglur um kosningabaráttu.

Gæta þarf að því að hagsmunasamtök geti ekki dælt endalausu fjármagni í kosningabaráttu sem hefur gríðarleg áhrif á ákvörðun kjósenda. Því þyrfti að ganga úr skugga um að bæjarfélögin bæru ábyrgð á að bæjarbúar fengju kynningu á báðum hliðum málsins.

Aukast gæði ákvarðanna ef íbúar taka meiri þátt í ákvarðanatökunni? Það er því miður ekki víst. Eins og margir hafa bent á kynna fulltrúar sér ávallt allar hliðar á málum áður en þeir taka ákvörðun, en margir íbúar hafa ekki tíma til að kynna sér allar staðreyndir og oftar en ekki byggja þeir ákvarðanir sínar á tilfinningum. Þó má aldrei gera lítið úr tilfinningarökum.
Aukning á íbúalýðræði er vandmeðfarið og ræða þarf marga þætti ítarlega áður en stjórnmálamenn og almenningur taka skref í átta að auknu íbúalýðræði. Stjórnmálamenn verða þó að svara því hvort þeir eru tilbúnir til að framselja völd til almennings og hvort þeir eru jafnframt tilbúnir að fórna miklum tíma og fjármunum sem fer í að auka áhrif almennings.

Íbúalýðræði hin rétta lausn?

Það er ekkert því til fyrirstöðu að íbúar sveitarfélaga fái að taka aukinn þátt í ákvörðunarferlinu, sérstaklega af því að ákvarðanir bæjarins hafa mikið að segja um nánasta umhverfi íbúanna. Með nýjustu tækni ætti kostnaður við íbúakosningar að minnka töluvert, og því ætti kostnaður við kosningar ekki að hindra aukna þátttöku íbúanna. Bæjaryfirvöld verða þó að koma í veg fyrir að kosningabarátta milli hagsmunahópa eigi sér stað rétt eins og gerðist í Hafnarfirði.

Sveitastjórnir verða að koma í veg fyrir að hagsmunasamtök í krafti fjármagns síns geti komið sínum upplýsingum og kosningaáróðri áfram sem aðrir íbúar sveitarfélagsins eiga ekki kost á að gera. Það geta þau gert til dæmis með því að tryggja að haldnir verði opnir borgarafundir þar sem allar hliðar málsins eru skoðaðar áður en gengið er til kosninga.

Erfiðasta málið í sambandi við aukið íbúalýðræði er hvernig eigi að ákveða hvaða mál eigi að kjósa um. Í dag gera lög ráð fyrir aukna þátttöku íbúa í skipulagsmálum, og í raun ganga skipulagsmál lengst í íbúalýðræði. Ef notast á við undirskriftarlista til að knýja fram á íbúakosningar, þarf að svara hvort á að styðjast eigi við lágmark eða hámark. Ætti t.d. Akureyrarbær að leyfa íbúakosningar ef 3.000 undirskriftir berast? Þetta þyrftu allir að koma sér saman um.

Það er þó ljóst að sveitarfélög eiga að bera stór mál undir atkvæði íbúanna, rétt eins og Hafnarfjörður gerði í fyrra. Undirritaður hvetur þó alla að skoða þessi mál, hvort sem þeir vinna í sveitarstjórnum eða eru bara íbúar sveitarfélagsins. Nútíminn hefur kallað á aukna þátttöku almennings í ákvörðunartöku og því ættum við að setjast öll saman niður og ræða þessi mál af alvöru.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið