Velsældin skapar vansæld

EGILL Helgason fer mikinn í skrifum sínum um nútímann. Veruleikann á Íslandi árið 2005. Þegar velsældin skapar sífellt meiri vansæld. Við höfum öll þau efnislegu gæði sem okkur dreymir um, plasmasjónvörp, Porschejeppa og palisanderklósett. Við höfum íslenska fréttastöð sem sendir út allan sólarhringinn og óteljandi sjónvarpsstöðvar utan úr heimi sem senda okkur sömu síbyljuna. Samt erum við síleitandi, eirðarlaus og aldrei fullkomlega ánægð með fenginn hlut.

Framtíðin
Það er hægt að taka undir margt í skrifum Egils. Þegar maður horfist í augu við samfélagið og eigin stöðu í velmegunar-alsnægtakapphlaupinu er auðvelt að fyllast bölmóð og svartsýni. Er hér allt að fara fjandans til? Og er allt þetta frjálsræði í raun helsi? Var allt miklu betra þegar við höfðum bara eina sjónvarpsrás sem fór í frí á fimmtudögum og í júlí?

Svarið er: skiptir ekki máli. Þetta er sá veruleiki sem við búum við í dag. Við ferðumst fram en ekki til baka. Þó 365 ljósvakamiðlar flytji sig úr meðalstóru myndveri uppi á Krókhálsi í skúringakompu í Skaftahlíðinni, þýðir það ekki að þjóðin þurfi að elta.

Það þjónar engum og engu að dvelja í fortíðarhyggju. Heyrðu það, Kolbrún Bergþórsdóttir! Alþýðuflokkurinn er liðin tíð. Prentmiðlar flokkanna eru liðin tíð. Landslagið er breytt. Þjóðin hefur breyst. Heimurinn hefur breyst. Hvert ferðumst við svo?

Gæfusmíð og gjafmildi
Við virðumst vera nokkuð ánægð með ferðalag okkar í vestur, sífellt nær og nær Bandaríkjunum: bandarísku gildismati, bandarískum viðskiptaháttum og bandarískri samfélagsgerð.

Vandamálið er að við virðumst samt bara erfa það versta úr fari bandarísks þjóðlífs, þ.e. græðgina.

Bandaríkin og Bandaríkjamenn eru flókin fyrirbrigði. Það er margt í þeirra þjóðlífi og samfélagsgerð sem er til eftirbreytni. Það er í tísku að vera í fullkominni andstöðu við þessa samfélagsgerð, þrátt fyrir að sífellt fleiri þjóðir reyni að líkjast þeim. Við hefðum með réttu getað verið stolt af því að taka okkur Bandaríkjamenn til fyrirmyndar í framlögum þeirra til góðgerðarmála og sjálfboðavinnu. Grasrótarlýðræði er enn mjög virkt og góðgerðarstofnanir lifa góðu lífi. Þetta er fólk sem setur flokkspólitísk skilti í innkeyrsluna hjá sér. Á kjördag gengur það hús úr húsi að vinna kjósendur á sitt band og eyðir miklu af sínum frítíma og fjármunum í góðgerðarmálefni.

Höfum við eitthvað af þessu?

Er þátttaka í starfi stjórnmálaflokka ekki sífellt að minnka hér á landi? Gefum við ekki alveg skuggalega lítið til baka? Hvað þekkið þið marga sem vinna sjálfboðavinnu, taka virkan þátt í grasrótarlýðræði eða gefa ríflega til baka til samfélagsins? Hvað með sjálfan þig, gefur þú 1% af tekjunum þínum til góðgerðarmála? Við ætlumst til þess af þjóðinni. Ætli Íslendingur með 3 milljónir í árstekjur gefi 30.000 til hjálparstarfs eða góðgerðarmála?

Við, Íslendingar, verðum ríkari og ríkari, á meðan líf okkar verður holara, stefnulausara og sálarlausara. Nú er nóg komið. Snúum blaðinu við.

Ég fagna nýfengnu frelsi og fjölbreyttara og fjölþjóðlegra samfélagi. Hefjumst handa við að gefa þessu nýja samfélagsmynstri merkingu og tilgang. Förum að gefa af sjálfum okkur og okkar. Byrjum nú um jólin. Það er nóg af líknarfélögum og hjálparstofnunum sem þurfa á þinni hjálp að halda. Bæði sjálfboðavinnu og fjárframlögum.

Höfundur er formaður Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi.

_______________________________________________
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu, 1. desember 2005.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand