Það verður seint ofsagt að Íslendingar verja allt of litlu fé til þróunarmála. Einungis 0,21% af vergri þjóðarframleiðslu árið 2005 er varið í þróunaraðstoð og er það svipað hlutfall og Bandaríkjamenn og Japanar verja og er það samanburður sem greinarhöfundur er ekki stoltur af. Íslendingar eiga mjög langt í land með að ná viðmiði Sameinuðu þjóðanna um að framlög til þróunarmála verði 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu. Í nóvember 2004 lýsti þáverandi utanríkisráðherra því yfir að ríkisstjórnin hefði sett sér það markmið að stighækka framlögin til þróunarsamvinnu þannig að árið 2009 næðu þau 0,35% af vergri þjóðarframleiðslu, eða helmingur viðmiðs Sameinuðu þjóðanna.
Það er til skammar að velmegunarríkið skuli ekki tíma að verja meira fé en þessu til hjálpar fátækum og vanþróuðum ríkjum. Fátækt þeirra er ekki þeirra einkamál, heldur er það siðferðisleg skylda allra þjóða heimsins að vinna saman að því að útrýma henni og rétta bágstöddum þjóðum hjálparhönd. Mikilvægt er að leggja áherslu á að efla heilsugæslu, auka aðgengi fólks að menntun og hreinu vatni, efla lýðræði og þar fram eftir götunum. Allt þetta skal gert með það að markmiði að þessar þjóðir séu betur í stakk búnar til þess að komast í bjargálnir og hjálpa sér sjálfar. Maður getur rétt ímyndað sér hversu mikill mannauður fer til spillis í ríkjum þar sem aðgengi að menntun og heilsugæslu –sem flest okkar telja til sjálfssagðra mannréttinda- er af skornum skammti og börn alast upp við hungursneyð frá fæðingu.
Vissulega skiptir máli að fátækar þjóðir hafi greiðan aðgang að heimsmarkaðnum með sínar útflutningsvörur, en ég tek ekki undir staðhæfingar ýmissa hægrimanna þess efnis að það sé það eina sem þróunarlöndin þurfi til þess að komast í bjargálnir, eða hvað þá að þróunaraðstoð frá einu ríki til annars sé í eðli sínu slæm fyrir þiggjandann. Ýmsir hafa viljað meina að slík aðstoð sé í besta falli óþörf, ef ekki slæm, en jafnan fylgir sögunni að frjáls framlög einstaklinga og fyrirtækja til þróunarmála séu hins vegar af hinu góða. Í þessu felst óneitanlega þversögn, því ef menn eru á móti þróunaraðstoð ríkja vegna skaðsemi hennar fyrir fátæk ríki, þá hljóta þeir að vera jafn mikið á móti frjálsum framlögum einstaklinga og fyrirtækja til sama málaflokks.
Það skyldi þó ekki vera að þarna séu menn meira að hugsa um eigin hag heldur en þeirra sem á aðstoð þurfa að halda?