Sigurvin Guðmundsson býður sig fram til formanns UJ á Landsþingi UJ 2009.
Helgina þriðja og fjórða október fer fram landsþing Ungra jafnaðarmanna. Þar verður kosin ný stjórn félagsins og mun ég sækjast eftir formannsembættinu.
Ég hef ætíð haft dálæti á pólitík og á mínum unglingsárum fann ég að ég ætti mikla samleið með jafnaðarmönnum á Íslandi. Þegar ég er spurður hversvegna ég sé jafnaðarmaður, þá svara ég ávallt að ég vilji jöfnuð í landinu, því að ég tel að við getum staðið betur að málum hvað snertir öryrkja, eldri borgara, fatlaða og sjúka.
Mér finnst svo merkilegt að íslendingar sjái ekki lengra en nef þeirra nær. Þeir sem hafa það gott og jafnvel betra, vilja alltaf meira kjöt í pottinn, í stað þess að hugsa um þá sem minna mega sín. Það fýkur í mig þegar ég heyri það þegar verið er að skerða kjör þeirra sem minnst hafa, láta eldri borgara deila saman herbergjum eins og í brasilísku fangelsi og að sjúkir fái ekki þá faglegu meðhöndlun sem þeir þurfa. Við eigum að koma vel fram við eldri borgara, því það voru þeir sem báru þetta land á herðum sér og komu Íslandi í gegnum einn stórbrotnasta tíma Íslandssögunnar. Þjóðin skuldar þessu fólki að það sé komið vel fram við það og við eigum að hlúa vel að þeim.
Mörgum finnst að öryrkjar á Íslandi sé hópur af fólki sem eru aumingjar og séu að krúnka út bætur úr kerfinu, það finnst mér miður. Fólk gerir sér oft ekki grein fyrir því hvað felst í því að vera öryrki og afhverju þeir þurfa að lifa á bótum, sumir eru veikir af sjúdómum og aðrir hafa lent í slysum, svo dæmi séu tekin. Það fólk lifir við skerta starfsorku og nær því ekki vinna sér inn það miklar tekjur til að framfleyta sér. Það er svo mikilvægt að við setjum okkur í spor þeirra sem eru sjúkir á einhvern hátt, líkamlega eða andlega, því við vitum aldrei hvað getur hent okkur eða aðra í kringum okkur.
Mín pólitík er sú að við erum öll að vinna að sameiginlegu markmiði, að gera Ísland að landi sem gott er að búa í, fyrir karla og konur, börn, gamalmenni og sjúka sem hrausta. Ísland er ekki þjóðin, þjóðin er Ísland, hvað er landið okkar án fólksins í landinu?
Það blés ekki blíðlega á ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks vikurnar eftir efnahagshrunið mikla síðastliðið haust. Þingmenn flokkanna kepptust um að kenna hverjum öðrum um sinnuleysið sem virtist hafa verið í fjármálalífinu undanfarin ár og því fór sem fór. Fjármálaeftirlitið var í dvala og bankarnir fengu að sigla um á fullu stími án nokkura hindranna.
Það hryggði mig mjög að þurfa að horfa upp á Samfylkinguna svara fyrir syndir fyrri ríkisstjórna, það er, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ætíð var sagt að Sjálfstæðisflokkurinn bæri mesta ábyrgð á þessu og að Samfylkingin ætti líka drjúgan þátt í þessu. Ég varði Samfylkinguna með kjafti og klóm og reyndi að fullvissa fólk um það að Samfylkingin væri á sínu fyrsta kjörtímabili í ríkisstjórn og því væri það full hart í árinna tekið að kenna flokknum um þetta glapræði.
En það þarf tvo til að dansa tangó og sannarlega áttu þingmenn og þá helst ráðherrarnir úr röðum Samfylkingarinnar að vera full meðvitaðir um ástandið fyrir hrun, ekki nema að þeim hafi hreinlega ekki langað til að aðhafast neitt í málinu, þó ég telji það hæpið. Það kom þó í hlut fyrrverandi viðskiptaráðherra, Björgvins G. Sigurðssonar, að taka á sig skellinn, hann gerði það og sagði af sér. Ég leit svo á að Samfylkingin hafi fórnað einum liðsmanni til þess að missa ekki traust kjósenda og einning til þess að sýna gott fordæmi, enda þekkist það ekki að menn segi af sér, svo þverir eru menn að geta ekki viðurkennt vanmátt sinn. Ég var ekki hrifinn af afsögn Björgvins en mér þótti hann sýna drengskap og ég met það mikils.
Samfylkingin er ungur flokkur, stofnaður á vormánuðum árið tvöþúsund. Stefna flokksins varð fljótlega skýr, að verða stór jafnaðarmannaflokkur og að vera höfuð andstæðingur Sjálfstæðisflokksins, sem var fínt, enda hefur mér aldrei þótt Sjálfstæðisflokkurinn vera merkilegur pappír.
Í gegnum árin hefur mér þótt Samfylkingin reynt að herja full mikið á Sjálfstæðisflokkinn og í þeim slag hefur mér fundist Samfylkingin hafa tapað þeim þeim einkennum sem hún lagði upp með allt frá byrjun. Við erum jafnaðarmenn af hugsjón en ekki til þess að láta Sjálfstæðismenn finna til tevatnsins. Ég vill að hættum þessum eilífa nuddi út í Sjálfstæðisflokkinn, förum á fullu skriði út í það að kynna fyrir fólkinu í landinu jafnaðarstefnuna og málefni byggða á henni. Við ætlum ekki að vera þekkt fyrir það að vera ómálefnaleg og vera sá flokkur sem verður aldrei þekktur fyrir neitt annað en að agnúast út í Sjálfstæðisflokkinn, við erum svo miklu betri en það.
Samfylkingin fékk góða kosningu í síðustu kosningum, tuttugu þingmenn og megum við vel við una, þrátt fyrir að flokkurinn hafi skaðast eftir samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Það er gríðarlega mikilvægt að halda þessum þingsætum og gera ennþá betur í næstu kosningum. Þessvegna er mikilvægt að halda áfram að vera sýnileg og taka þátt í umræðunni.
Ég tel það gríðarlega mikilvægt fyrir næstu alþingiskosningar að yngt verði upp í hópi frambjóðenda Samfylkingarinnar og að við fáum ungt og hresst fólk inn sem nær til ungs fólks í landinu. Ég er ekki að gera lítið úr því frábæra fólki sem starfar fyrir hönd Samfylkingarinnar á þingi í dag, þvert á móti. Við þurfum að virkja ungt fólk, vera sýnileg og ná til fólks. Það kemur sá dagur að endurnýjunar er þörf og sá tími er næsta kjörtímabil.
Núna er komið að okkur, Ungum jafnaðarmönnum, að móta jafnaðarstefnuna á Íslandi, hvernig sjáum við framtíð landsins og hvað getum við gert til þess að gera Ísland enn betra?
Núna er tíminn til þess að ná til ungs fólks, fólk sem er að upplifa mestu hamfarir af mannavöldum á Íslandi fyrr og síðar. Það sér það hver maður að góðæri frjálshyggjunar var ekkert nema úlfur í sauðargæru, fyllerí sem endaði með þeim alverstu timburmönnum sem ein þjóð hefur fengið. Í dag er ég búinn að jafna mig á þynkunni og nálgast ég hlutina af æðruleysi, því meðvirkni hjálpar ekki neitt. Ég hef fyrirgefið þeim mönnum sem settu landið á hausinn, því skömmin er hjá þeim. Ég veit að það er erfitt að líta á björtu hliðarnar þegar svartnættið svífur ennþá yfir vötnum, því skora ég á hvern og einn að brosa og búa til, þó það væri ekki nema dass af jákvæðni í brjósti sér.
Jafnaðarstefnan er komin til að vera á Íslandi, frjálshyggjan er komin í frí og núna er tíminn til að láta ljós okkar skína. Verum góð við allt og alla, því þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.
Höfundur býður sig fram í embætti formanns Ungra jafnaðarmanna á landsþingi hreyfingarinnar sem haldið verður í Iðnó í Reykajvík daganna þriðja og fjórða október næstkomandi.
Sigurvin Guðmundsson