Verndarar alþýðunnar

sjavarutvegur2PISTILL Það er ótrúlegt að hugsa til þess að eftir allt sem á undan er gengið að menn skuli vera reiðubúnir til þess að koma fram í viðtölum og verja kvótakerfið, þetta krabbamein á íslensku samfélagi, með kjafti og klóm.sjavarutvegur2PISTILL Á landsfundi Samfylkingarinnar var samþykkt að gera skuli róttækar breytingar á kvótakerfinu til samræmis við þjóðarhag. Gamli „góði“ hræðsluáróður LÍÚ er því hafinn enn á ný. Til þess að fá verkafólkið með sér í lið láta þeir líta út fyrir að það séu þeir sem séu málsvarar launamanna. En að við Samfylkingarmenn séum andstæðingar verkafólksins og sjómannanna. Það séum við sem ætlum að gera alla atvinnulausa með því að gera árás á sjávarútveginn á Íslandi. Því ættu allir að vara sig á því að kjósa flokk eins og Samfylkinguna sem ræðst á LÍÚ, verndara litla mannsins.

Krabbamein á samfélaginu

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að eftir allt sem á undan er gengið að menn skuli vera reiðubúnir til þess að koma fram í viðtölum og verja kvótakerfið, þetta krabbamein á íslensku samfélagi, með kjafti og klóm. Þetta kerfi sem átti stóran þátt í að koma Íslandi á kaldan klaka. Kerfi sem leiddi af sér að afrakstur sjávarauðlindarinnar næstu áratugina mun ekki fara í að bæta hag launafólksins sem þeim þykir svo vænt um, heldur í að greiða niður skuldabagga sem handhafar aflaheimildanna hafa hlaðið upp með veðsetningum þeirra. Og auðvitað „hóflegar“ arðgreiðslur til margra af þeim fjármagnssugum sem læst hafa klóm sínum í þessi fyrirtæki. Þeir þurfa jú að fá sitt þrátt fyrir að þeir séu búnir að sökkva greininni í skuldir, 500 milljarða skuldir. Þessir sömu menn halda því svo fram að það séum við í Samfylkingunni sem ætlum að steypa sjávarútveginum í glötun!

Græða á daginn, grilla á kvöldin

Einn LÍÚ manna lét út úr sér á fundi fyrir ekki löngu síðan að við Samfylkingarmenn kynnum ekki annað en að tapa. Verð ég að viðurkenna að ég veit ekki með hvaða rökum sá maður ætlar að styðja þessa fullyrðingu sína, en það er augljóst að margir LÍÚ manna kunna þá list að græða. Með núverandi fyrirkomulagi í sjávarútvegi hefur verið hægðarleikur fyrir þá að maka krókinn. Það hefur verið gert með því að ná að kreista upp verðið á óveiddum fiski upp fyrir 4.000 krónur á kílóið í veðsetningu, skuldsetja fyrirtækin sem því nemur, minnka skattgreiðslur vegna skuldsetninganna, greiða sjálfum sér óhæfilegar fjárhæðir í arð og auðvitað með því að selja sig út úr greininni fyrir milljarða. Þannig þarf einhver annar að taka lán til þess að greiða hann út og eftir standa skuldirnar sem auðlindin þarf að bera. Græða á daginn, grilla á kvöldin er einkennisorð þessara manna.

LÍÚ stjórna verðmyndun aflaheimilda

LÍÚ menn hafa kerfisbundið sölsað undir sig stóran hluta aflaheimildanna og eru ráðandi á leigumarkaði með aflaheimildir. Það er augljóst að snjallir hagfræðingar hafa verið með í ráðum, enda náðu þeir með þessu að búa til skort á leigumarkaðnum. Með því hafa þeir getað stjórnað verðmynduninni og er nú svo komið að mörg þessara fyrirtækja hafa gríðarlegar tekjur af útleigu á aflaheimildum. Þorskkílóið hefur undanfarin ár verið að fara á í kringum 200 krónur á leigumarkaði á meðan menn hafa verið að fá í kringum 230 krónur á kílóið fyrir fiskinn veiddan upp úr sjó! LÍÚ menn hafa því sjálfir lagt hátt í 90% gjald á kvótann. Ef LÍÚ menn halda því fram að það verð sem þeir sjálfir leigja heimildirnar út á sé sanngjarnt, þá er erfitt að sjá hvernig þeir geta talið það ósanngjarnt að tekin séu 5% af veiðiheimildunum til baka á ári.

Leysum vandann

Nú á enn eina ferðina að blekkja fólk með því að þeir sem ætla að girða fyrir gallana í þessu kerfi, að þessir hlutir geti endurtekið sig aftur og aftur, séu óvinurinn. Ég vil veg þessara fyrirtækja sem mestan, en kerfinu þarf að breyta, ekki minnst svo fjármagnsflóttinn úr greininni stöðvist. Við í Samfylkingunni höfum sett fram mjög sanngjarna stefnu sem miðar að því að taka á rótum þessa vanda. Þessi vandi er mál allrar þjóðarinnar en ekki einkamál fámenns klúbbs kvótahafa. Látum ekki hræða okkur frá því að leysa þetta vandamál í eitt skipti fyrir öll, þjóðinni til heilla.

Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur, skipar fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi. www.thordurmar.blog.is

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand