PISTILL Ég hvet ykkur öll til að leggja ykkar að mörkum, starf Ungra jafnaðarmanna er nú öflugara en nokkru sinni … og nú á laugardaginn verður málþingið “Ég er jafnaðarmaður” þar sem verða þrusufyrirlestrar og málefnavinna að þeim loknum. PISTILL Allt frá stofnun Samfylkingarinnar hefur lýðræði og lýðræði sem menning verið eins og rauður þráður í allri uppbyggingu, stefnu og starfi hennar. Flokkurinn hefur verið brautryðjandi í lýðræðislegum stjórnarháttum á Íslandi bæði við stefnumótun og málefnavinnu í flokknum og í stjórnarháttum þar sem Samfylkingin hefur verið við völd. Vinna framtíðarhópa Samfylkingarinnar við stefnumótun er gott dæmi um hvernig breiður hópur fólks hefur haft áhrif á stefnu flokksins og gegnsæi og lýðræðisleg vinnubrögð ráða för.
Samfylkingin vill stjórna með fólkinu í landinu og lítur á sig í þjónustu við kjósendur en ekki sem drottnandi valdhafa sem láta við sitja að fá lýðræðislegt umboð kjósenda á 4 ára fresti. Þetta hefur hún sýnt í verki til að mynda með beinu íbúðalýðræði um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar, stækkun álvers í Hafnarfirðinum og því sem ekki má gleyma, boðið öllum flokksmönnum uppá að kjósa formann í póstkostningu, það tryggði það sem lagt var upp með við stofnun flokksins að þar væri ekki eitthvert flokksfélag sem réði ráðum í flokknum heldur ætti valdið ætíð að vera í höndum almennra flokksfélaga – svo við erum flokkurinn.
Lýðræðið sigraði
Þó hallað hafi undan fæti í lýðræðislegum stjórnarháttum Samfylkingarinnar í ríkisstjórn sinni með Sjálfstæðisflokknum, þar sem mikið vantaði uppá gegnsæi og samræðu við almenning í þeim hvirfilbyl sem íslenska þjóðin lenti í miðjum, þá má forystan eiga það að hún vaknaði loks, eftir neyðaróp grasrótarinnar og sleit ríkisstjórninni. Lýðræðið sigraði að lokum, valdaröðin rétti úr kútnum, stefnan kom frá okkur, grasrótinni, því við erum flokkurinn en ekki þröng forystan.
Samfylkingin vaknaði
Samfylkingin hefur ratað aftur inná beinu brautina og sýnir nú sitt rétta andlit í ríkisstjórn sinni með Vinstri grænum. Nú er samt ekki tími til að slaka á, við verðum að nýta það eina góða sem kom út úr þessu hruni, sem er að þjóðin hefur vaknað af Þyrnirósarblundi sínum, betur upplýst og betri lýðræðisþegnar en nokkru sinni fyrr. Nú er tíminn til að hreinsa til í stjórnkerfinu og endurreisa þetta samfélag, endurvekja lýðræðið og gera út um spillingu.
Veitum valdhöfum aðhald
En til að reisa hér réttlátt og lýðræðislegt samfélag þurfa einstaklingar þessa samfélags að taka þátt í uppbyggingunni, vera aðhaldið sem lýðræðið þarf til að virka. Til þess þurfum við líka stjórnkerfi sem fólk getur sett traust sitt og trú á, en það er að mínu mati forsenda þess að fólk finni hjá sér vilja til að spýta í lófana og leggjast á árarnar með stjórvöldum í samhentum björgunar- og endurreisnarleiðangri, en slík samstaða hefur aldrei verið mikilvægari en nú.
Leggjumst öll á árarnar
Ég hvet ykkur öll til að leggja ykkar að mörkum, starf Ungra jafnaðarmanna er nú öflugara en nokkru sinni. Hallveig hefur sett á stofn vinnuhóp um lýðræði og stjórnarskrá sem skilar af sér tillögum á landsfund Samfylkingarinnar nú í lok mánaðar og nú á laugardaginn verður málþingið “Ég er jafnaðarmaður” þar sem verða þrusufyrirlestrar og málefnavinna að þeim loknum.
Þið getið lesið ykkur nánar til um þessa viðburði hér á síðunni, ég hvet ykkur til að kynna ykkur starfið og taka þátt í að skapa hér réttlátt samfélag.