,,Ungt fólk sem vill hafa áhrif á samfélagið sitt í gegnum stjórnmálastarf á hins vegar auðvitað fyrst og fremst að vera með hugsjónirnar á hreinu. Vita hvernig samfélagi við viljum búa í. Annars getum við bara gleymt þessu“. Segir Anna Pála Sverrisdóttir formaður UJ.
Jæja. 2007 komið og farið. Og nú eru jólin líka að kveðja, alltof snemma finnst manni auðvitað. Partýið búið í bili og skammdegisþunglyndið tekur við.
Og þó, kannski ekki. Skammdegið verður ennþá til staðar en við unga og hressa fólkið kunnum leiðir til að drekkja því. Eftir stórt stuðpartý hjá Ungum jafnaðarmönnum milli jóla og nýárs, er pressan auðvitað á að partýið haldi áfram. Og þetta gaf ég út þegar ég var kosin formaður í þessari hreyfingu núna í haust: Hlutverk ungliðahreyfinga er í grófum dráttum að vera með kjaft og halda partý.
Þetta með partýið er ekki alveg jafn einfalt og það hljómar. Pælingin er að við eigum að gera stjórnmálastarfið eins skemmtilegt og það getur orðið. Það er bara engin ástæða til annars. Samt er ekkert erfitt að detta niður í leiðinlegt og húmorslaust pex þegar stjórnmálin eru annars vegar. Fara í keppni um hver þekkir flest flókin hugtök eða –isma. Ungt fólk sem vill hafa áhrif á samfélagið sitt í gegnum stjórnmálastarf á hins vegar auðvitað fyrst og fremst að vera með hugsjónirnar á hreinu. Vita hvernig samfélagi við viljum búa í. Annars getum við bara gleymt þessu. Saman hjálpumst við síðan að við að byggja upp þekkingu á því hvernig við ætlum að búa til samfélagið sem okkur langar mest að búa í. Hjá UJ viljum við samfélag sem byggir á félagshyggjuhugsjóninni: Samfélag þar sem við gefum öllum í alvöru jöfn tækifæri.
Að styrkja okkur málefnalega er eitt af áramótaheitum Ungra jafnaðarmanna. Og vafalaust eigum við eftir að halda mörg sérlega málefnaleg partý á árinu 2008. Ég vona að sem flest ný andlit sýni sig. Við í UJ erum að minnsta kosti með mikil plön fyrir árið, sem ég ætla eðlilega þó ekki að upplýsa um á þessum vettvangi.
En nóg um partýið hjá UJ. Hvernig verður partýið á Íslandið árið 2008? Flestir hafa líklega gert sér grein fyrir að það verður ekkert góðærisfyllerí. Líklega verður bara samt fyllerí ef ég þekki mannskapinn rétt. Við verðum undantekningin sem sannar regluna um að þegar kreppir að í efnahagsmálunum, þá dregur venjulegt fólk úr eyðslu. En Íslendingar djamma sem aldrei fyrr.
Ríkisstjórnin má samt ekki hafa of mikið partý. Það væri augljóslega óábyrgt. Ríkisstjórnin verður líklega að djamma í sumarbústað í einkaeigu eins og Hæstiréttur gerir. Og ekki of oft til að hafa orku í að takast á við verkefnin framundan, erfið verkefni á borð við kjarasamninga, endursköpun almannatryggingakerfisins og brandarann sem húsnæðisverð er orðið.
Að lokum má ríkisstjórnin ekki, frekar en við í UJ, gleyma því að það komast ekki alltaf allir í partýið. Það er mismunandi ástæður fyrir að ekki eru allir í partýinu en sumar þeirra eru á okkar færi að laga. Samfylkingin á núna fólk í stjórn bæði landsins og flestra stærstu bæjarfélaganna og hefur því bein færi á að lagfæra. Það sem við í UJ getum gert er að beita okkur fyrir að þau tækifæri verði rétt notuð, þannig að fleiri getið notið lífsins á árinu en hefði annars orðið.
Jæja. Það getur ekki alltaf verið partý frekar en það eru alltaf jólin. Engu að síður held ég að við ættum að leggja okkur fram um að gera árið 2008 skemmtilegt. Ég hlakka til.
Gleðilegan þrettánda og gleðilegt ár 2008! Sjáumst í næsta UJ partýi