Að muna eftir uppruna sínum

,,Það er hlutverk Samfylkingarinnar, hinum eina jafnaðarmannaflokki Íslands að gæta þess að þessi réttindi verði til staðar um ókomna tíð“. Segir Sölmundur Karl Pálsson í ritstjórnarpistli dagsins.

Umræða um skólagjöld kemur ávallt upp í þjóðfélagsumræðunni ár hvert. Sumir stjórnmálamenn koma með þær tillögur að ríkisreknir háskólar eigi að fá að taka upp skólagjöld til að leysa fjárhagsvanda skólanna. Einhverjir prófessorar telja að skólagjöld séu réttlætanleg, en stúdentar eru á öðru máli. Stúdentar hafa löngum bent á hversu mikilvægt það er að hafa enginn skólagjöld. Stúdentar benda ávallt á það hagvaxtartæki sem háskólar eru, og hversu mikilvægt er að allir hafi jafnan aðgang að skólum landsins óháð efnahag. Það er skondið að heyra í þessari umræðu að allnokkrir alþingismenn eru fylgjandi skólagjöldum, en þeir eru fljótir að gleyma að þeir voru jú eitt sinn námsmenn og ekki þurftu þeir að borga skólagjöld. Einnig er það sorglegt að heyra að nokkrir jafnaðarmenn hér á landi séu fylgjandi slíkum gjöldum.


Skólagjöld sem hvati?

Aðal rök fylgismanna skólagjalda er að með skólagjöldum væri kominn ákveðinn hvati til að klára skólann á þremur árum. Og með skólagjöldum ættu nemendur að taka námið alvarlegra. En hver er ástæðan fyrir því að nemendur sæki yfirleitt háskóla? Aðalhvatinn er auðvitað sá að verða með hærri tekjur en sá sem ekki fór menntaveginn. Þetta er aðalhvatinn til að mennta sig, óháð hvort þú borgar skólagjöld eða ekki. Það að nemendur taki námið alvarlegra með skólagjöldum, heldur ekki vatni. Við borgum líka skatta, eins og allir aðrir. Með því að borga skatta tryggjum við að við getum fengið kennslu á háskólasviði. Hvort fólk klárar nám sitt á 3 árum eða fimm, skiptir ekki höfuðmáli. Aðalatriðið er að fólk klári háskólanám sitt, og hækka þar með menntunarstig þjóðarinnar. Gerir það manni að verri manni að klára nám sitt á fimm árum? Það er ekki sjálfgefið að einstaklingur finni sér strax nám við hæfi, og því ekki óeðlilegt að fólki skipti um nám, og verði aðeins lengur með að klára grunngráðu sína.


Eitt sinn voruð þið nemendur

Ég er alinn upp við að á Íslandi getur þú orðið allt. Þú getur menntað þig og orðið hvað sem þú vilt. Þetta er merki okkar Norðurlandanna, við sköpum umhverfi þar sem allir fá jöfn tækifæri, óháð efnahag. Það að allir geti menntað sig er gríðarlega mikilvægt, og er menntun ein besta jöfnunartæki sem til er. Þessi jafnaðarmanna hugsun mega alþingismenn aldrei gleyma. Þessi hugsun er rík í okkur Íslendingum, sama hvaða flokki við tilheyrum. Þessi forréttindi að allir geti menntað sig, verðum við að ríghalda í, og undir öllum kringumstæðum megum við ekki sleppa. Það að ráðamenn okkar séu að hugsa um þennan möguleika, er eitthvað sem á ekki að líðast Ég vona að allir stjórnmálamenn á Íslandi hugsi sig um, og rifji upp tímann þegar þau voru í Háskóla Íslands. Sérstaklega jafnaðarmenn á þingi. Þetta er eitt af grunngildum okkar sem við megum ekki missa sjónar af. Það eitt að þingmenn séu að hugsa um þetta sýnir að við Íslendingar erum ekki nægjanlega góðum málum. Ég tel það fullvíst að mikill meirihluti þjóðarinnar sé sammála um hversu mikilvægt það er að allir geti mentað sig óháð efnahag. Spurningin er hvort að það sé að myndast gjá á milli Alþingis og almennings. Eru alþingismenn virkilega að hugsa um að vilja sleppa grunngildum samfélagsins, út af þeirri ástæðu að þeir tími ekki að setja meira fjármagn í ríkisskólanna okkar? Eru alþingismenn okkar tilbúnir að svipta komandi kynslóðin þeim réttindum sem þeir nutu þegar þeir voru yngri? Það er hlutverk Samfylkingarinnar, hinum eina jafnaðarmannaflokki Íslands að gæta þess að þessi réttindi verði til staðar um ókomna tíð.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand