Vinstri-grænir á villigötum

Ástæðan fyrir því að Samfylkingin í Hafnarfirði ætlar að hafa kosningu um stækkun álversins í Straumsvík er mjög einföld – flokkurinn lítur á þetta sem stórmál sem vert sé að bæjarbúar fái að kjósa um. Það er einfaldlega stefna Samfylkingarinnar í Hafnarfirði að setja íbúalýðræði í öndvegi og Vinstri-grænir ættu að hafa vit á því að reyna ekki að slá pólitískar keilur með útúrsnúningum á þessari stefnu. Segir Þórður Sveinsson í grein dagsins. Um daginn fór ég inn á heimasíðu Ögmundar Jónassonar, einu sinni sem oftar. Ég er vinstrimaður eins og Ögmundur og þess vegna er ég iðulega sammála því sem hann skrifar. Ég vildi óska þess að hann og fleiri áttuðu sig á gildi þess að vinstrimenn starfi saman í stað þess að vera klofnir í tvo flokka, en ég held því miður að það sé borin von að hann sjái nokkurn tímann ljósið í þeim efnum.

En hvað um það. Ég er iðulega sammála Ögmundi. Þess vegna ætti varla að fjúka í mig þegar ég les síðuna hans. Það hefur líka aldrei gerst – ekki fyrr en núna um daginn. Að vísu voru það ekki skrif Ögmundur sem ollu reiði minni. Það voru skrif gestapennans Gests Svavarssonar sem komu mér úr jafnvægi.

Hvað skyldi það nú vera sem mér þótti svona agalegt við skrif Gests? Jú, það hvernig hann hikar ekki við að hagræða sannleikanum í skrifum sínum. Hann segir að Samfylkingin í Hafnarfirði berji sér á brjóst fyrir að hafa ákvæði um íbúakosningu um öll stærri mál „eftir að hafa verið dregin að þeirri ákvörðun af þeim sem taka afstöðu til mála undanbragðalaust, af okkur Vinstri grænum.“

Hvenær heldur Gestur eiginlega að ákvæði um íbúakosningar um stærri mál hafi komið inn í samþykktir Hafnarfjarðarbæjar? Heldur hann kannski að það hafi ekki verið fyrr en eftir að umræðan um álversmálið hófst fyrir alvöru? Haldi hann það, þá er það reginmisskilningur og raunar held ég að hann viti betur. Þetta ákvæði var sett inn í samþykktir bæjarins strax eftir bæjarstjórnarkosningarnar 2002. Þá var álversmálið ekki orðið að neinu hitamáli og þess vegna var Samfylkingin alls ekki dregin að því að setja þetta ákvæði inn af einum eða neinum, hvorki Vinstri-grænum né öðrum. Þar á ofan voru Vinstri-grænir varla til í Hafnarfirði þegar þetta var. Þeir buðu að vísu fram í kosningunum en fengu vart mælanlegt fylgi. Það að halda því fram að þeir hafi dregið Samfylkinguna að einhverju er því beinlínis hlægilegt.

Ástæðan fyrir því að Samfylkingin í Hafnarfirði ætlar að hafa kosningu um stækkun álversins í Straumsvík er mjög einföld – flokkurinn lítur á þetta sem stórmál sem vert sé að bæjarbúar fái að kjósa um. Það er einfaldlega stefna Samfylkingarinnar í Hafnarfirði að setja íbúalýðræði í öndvegi og Vinstri-grænir ættu að hafa vit á því að reyna ekki að slá pólitískar keilur með útúrsnúningum á þessari stefnu.

Það sem mér finnst hins vegar athyglisverðast er í hvaða átt kosningabarátta Vinstri-grænna er farin að þróast. Mér sýnist það sé farin að verða meðvituð taktík hjá þeim að beina spjótum sínum að Samfylkingunni og reyna að hala atkvæði af henni fremur en íhaldinu. Nú finnst Vinstri-grænum kannski bara allt í lagi að beita þeirri aðferð. Mér finnst það hins vegar sorglegt, fyrst og fremst vegna þess að þá hafa þeir í eitt skipti fyrir öll eyðilagt drauminn um samvinnu vinstrimanna. Í stað þess að berjast innbyrðis eiga vinstrimenn að vinna saman. Þannig ná þeir mestum árangri og þannig komast þeir helst í stjórn og hafa raunveruleg áhrif – eins og einna best má sjá af stórglæsilegum árangri Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Kjósi vinstrimenn hins vegar sundrungu í sínum röðum, þá hefur það aðeins eitt í för með sér – einokun íhalds og framsóknar á völdunum í landinu.

Greinin birtist í gær á vefriti Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði – Mír.is

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand