Er álið málið?

,,Stóriðjuframkvæmdir hafa verið í sviðsljósinu á Íslandi og Suðurnesin eru þar ekki undanskilin. Stóriðjuáformin eru farin að teygja sig hingað á svæðið og þess vegna telja Ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum að nauðsynlegt sé fyrir íbúa svæðisins að taka þátt í umræðunni og kynna sér þau málefni sem snúa sérstaklega að Suðurnesjum. Ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum ætla að halda opinn fund í janúar þar sem rætt verður um stóriðju og fyrirhugað álver í Helguvík.” Segja Hilmar Kristinsson, Guðlaug Finnsdóttir og Kristín Magnúsdóttir í grein dagsins.

Stóriðjuframkvæmdir hafa verið í sviðsljósinu á Íslandi og Suðurnesin eru þar ekki undanskilin. Stóriðjuáformin eru farin að teygja sig hingað á svæðið og þess vegna telja Ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum að nauðsynlegt sé fyrir íbúa svæðisins að taka þátt í umræðunni og kynna sér þau málefni sem snúa sérstaklega að Suðurnesjum. Ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum ætla að halda opinn fund í janúar þar sem rætt verður um stóriðju og fyrirhugað álver í Helguvík.

Stefna Samfylkingarinnar í umhverfismálum er skýr og flokkurinn setti nýlega fram áætlun sem kallast Fagra Ísland. Þar kemur meðal annars fram að í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar er tímabært að Íslendingar skipti um gír, tryggi jafnræði atvinnugreina og byggi skipulega upp atvinnulíf framtíðarinnar þar sem náttúrugæði landsins eru nýtt með sjálfbærum hætti. Samfylkingin leggur til að við núverandi aðstæður verði frekari stóriðjuáformum slegið á frest. Nú þarf áhersla á hátækni- og þekkingariðnað að haldast í hendur við nýsköpun í ferðaþjónustu og hefðbundnu atvinnugreinunum. Engar efnahagslegar aðstæður kalla á stóriðju á næstu árum. Þvert á móti mæla óháðir sérfræðingar (sbr. nýlega skýrslu OECD) með því að dregið verði úr þensluhvetjandi framkvæmdum á næstunni til þess að stuðla að jafnvægi í íslensku efnahagslífi og tryggja stöðugleika til hagsbóta fyrir almenning. Því leggur Samfylkingin til að öllum ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir verði frestað þar til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð. Nýja kosti til orkuvinnslu þarf að skoða og Samfylkingin vill e fla rannsóknir á djúpborun til að mæta megi aukinni orkuþörf án þess að ganga á verðmæta náttúru landsins.

Um þessar mundir eru uppi hugmyndir um að fyrirtækið Norðurál reisi álver í Helguvík en svo til engin umræða hefur átt sér stað um þessa framkvæmd. Álverið hefur verið sagt mikilvægt í uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum en ýmsa þætti þarf að skoða. Hver verða áhrif álvers á nánasta umhverfi og náttúruna á Suðurnesjum og hver verða áhrif álversins á byggðina í Reykjanesbæ? Norð- og norðaustlægar áttir eru ríkjandi sem þýðir að vindurinn gæti borið með sér eiturefni frá álverinu yfir íbúabyggðina. Samkvæmt gögnum frá Veðurstofu Íslands er talið að um 130 daga á ári blási vindurinn frá Helguvík yfir Reykjanesbæ. Flúoríð, brennisteinsdíoxíð og koldíoxíð eru meðal þeirra eiturefna sem koma frá álverinu út í andrúmsloftið og því er þetta mikilvægur þáttur sem þarf að skoða.

Núna er verið að ræða um 250.000 tonna álver og búast má við því að stærð álversins muni tvöfaldast áður en langt um líður. Álver er gríðarlega orkufrekt og mun kalla á umfangsmiklar virkjanaframkvæmdir m.a. á Reykjanesinu. Það eru mörg viðkvæm svæði á Reykjanesinu sem þarf að vernda og Samfylkingin vill m.a. tryggja verndun háhitasvæðisins í Brennisteinsfjöllum.

Lítil sem engin umræða hefur verið um fyrirhugað álver í Helguvík og hvort slík framkvæmd sé almennt skynsamleg hér á Suðurnesjum. Suðurnesjamenn treystu lengi vel á fiskinn sem aðal atvinnuveg svæðisins og síðar skipaði Varnarsvæðið á Miðnesheiði stóran sess í atvinnulífi svæðisins. Suðurnesin hafa upplifað það á síðustu árum að kvótinn hefur siglt sinn veg og Varnarliðið pakkað saman þrátt fyrir loforð Sjálfstæðismanna um hið gagnstæða. Það er því vert að skoða af fullri alvöru hvort skynsamlegt sé að treysta aftur á einn stóran atvinnurekanda.


Það er ljóst að mörg tækifæri eru á Suðurnesjum til öflugrar atvinnuuppbyggingar og t.d. eru t
ækifærin óþrjótandi þegar kemur að Varnarsvæðinu. Nú liggur á að nýta þessi frostskemmdu hús áður en svæðið verður ónothæft eins og Rockville hér um árið. Seinagangur hefur einkennt nýtingu varnarsvæðisins og kæruleysi Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra og ráðuneyti hennar hefur þegar valdið miklu fjárhagslegu tjóni á svæðinu. Á varnarsvæðinu eru tækifæri til þess að byggja upp þekkingariðnað og léttan iðnað, t.d. í tengslum við flugvöllinn. Það er því ekki sjálfgefið að álver sé það sem Suðurnesin þurfa mest á að halda.

Þrátt fyrir brottför varnarliðsins nú í haust hefur atvinnuástandið á Suðurnesjum verið gott og lítið atvinnuleysi. Í grein sem birtist á vef Víkurfrétta 4. desember síðastliðinn sagði Ketill G. Jósefsson, forstöðumaður svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja: „Ég kvíði ekkert komandi ári, þrátt fyrir að verið sé að hræða mann með samdrætti hér og þar. Menn verða bara að vera fljótir að hugsa hvað þeir ætla að gera við þetta svæði og þau tækifæri sem við Suðurnesjamenn höfum. Þau eru mest í kringum flugvöllinn en einnig í ýmsu öðru“. Mest er það fólk í þjónustu- og skrifstofustörfum sem eru á atvinnuleysisskrá. Á meðal iðnaðarmanna er atvinnuleysi óþekkt um þessar mundir. „Við höfum ekki sé iðnaðarmann á atvinnuleysisskrá í tvö ár. Ef það hefur gerst hefur viðkomandi stoppað mjög stutt“.

Það þarf að kanna hug íbúa á Suðurnesjum um fyrirhugaðar framkvæmdir í Helguvík og kanna hvort almennur vilji sé til þess að reisa álver í jaðri íbúabyggðar í Reykjanesbæ. Ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum vilja að kosning fari fram meðal íbúa þar sem afstaða til fyrirhugaðs álvers verður könnuð. A-listinn í Reykjanesbæ hafði slíka kosningu á sinni stefnuskrá og Uj-Suð hvetur fulltrúa A-listans til þess að hvika ekki frá þeirri kröfu. Í áætlun Samfylkingarinnar Fagra Ísland kemur fram að umhverfismál eru málaflokkur þar sem aðferðir beins lýðræðis henta ákaflega vel í ýmiss konar samspili við fulltrúalýðræðið. Því er sjálfsagt að kanna rækilega kosti atkvæðagreiðslna og skoðanakannana í þeim efnum.

Þörfin á umræðu um álver í Helguvík er aðkallandi og Ungir jafnaðarmenn vilja leggja sitt af mörkum til að ýta undir þá umræðu. Þess vegna bjóða Ungir jafnaðarmenn íbúa á Suðurnesjum velkomna á opinn fund í janúar um fyrirhugað álver í Helguvík.

_______
Hilmar Kristinsson, formaður Ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum
Guðlaug Finnsdóttir, gjaldkeri Ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum
Kristín Magnúsdóttir, ritari Ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum

Greinin birtist nýverið í málgagni Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand