Víðsýn og frjálslynd stjórnmálahreyfing ungs fólks

Magnús Már Guðmundsson formaður Ungra jafnaðarmanna og Valdís Anna Jónsdóttir varaformaður segja stóru málin hjá Ungum jafnaðarmönnum eftir vel heppnað landsþing hreyfingarinnar vera forgangsröðun í þágu menntunar, aukin velferð þeirra sem minna mega sín en ójöfnuður og misskiptingin í íslensku samfélagi hefur stórlega aukist undanfarin ár, lýðræðis- og jafnréttismál, aðild að Evrópusambandinu og upptaka Evrunar, raunsæ umhverfisstefna þar sem náttúran nýtur vafans og að lokum manneskjuleg utanríkisstefna.

Ungir jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, héldu nýverið sitt 7. landsþing í Mosfellsbæ og niðurstaðan er stjórnmálaafl sem stefnir að frjálslyndu og sanngjörnu samfélagi. Stóru málin hjá Ungum jafnaðarmönnum eru forgangsröðun í þágu menntunar, aukin velferð þeirra sem minna mega sín en ójöfnuður og misskiptingin í íslensku samfélagi hefur stórlega aukist undanfarin ár, lýðræðis- og jafnréttismál, aðild að Evrópusambandinu og upptaka Evrunar, raunsæ umhverfisstefna þar sem náttúran nýtur vafans og að lokum manneskjuleg utanríkisstefna.

Af öðrum minni málum ef svo má að orði komast er hægt að nefna aðskilnað ríkis og kirkju, fækkun ráðuneyta, landið eitt kjördæmi, afnám aldursákvæðis í lögum um ættleiðingar, tungumálakennsla fólks af erlendum uppruna verði efld, atvinnuleyfi erlends vinnuafls verði bundið við einstaklinga en ekki viðkomandi vinnuveitanda eða fyrirtæki, endurvinnsla sorps, sjálfbær orkubúskapur, færsla framhaldsskóla og heilsugæslu yfir á sveitastjórnarstigið og faglegar ráðningar og heilbrigðari viðhorf gagnvart embættum líkt og seðlabankastjóra, sendiherra og hæstaréttardómara.

Jafnrétti ofar öllu
Stjórnvöld eiga tryggi öllum aðgang að góðri menntun, góðri heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð. Þessa grunnþjónustu á að greiða niður með sameiginlegum sjóðum landsmanna enda er með öllu óásættanlegt að aðgangur fólks að menntun, heilbrigðisþjónustu og félagslegri þjónustu takmarkist af efnahag.

Lýðræði þarf að efla
Mikilvægt er að efla lýðræði í íslensku samfélagi. Lýðræðið á að vera í stöðugri endurskoðun svo nýta megi það tæki sem það er til fullnustu og til réttlætis í íslensku stjórnkerfi og samfélagi. Það er skilyrði lýðræðislegra stjórnarhátta að sjónarmið þeirra sem málið varðar komi fram og að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða þegar ákvarðanir eru teknar. Af þessu leiðir að ef konur koma ekki að ferli við ákvarðanatöku sem snertir íslenskt þjóðlíf er lýðræðishalli á samfélaginu. Það sama á við um fólk af erlendum uppruna, samkynhneigða, fatlaða og aðra minnihlutahópa í íslensku samfélagi.

Sjálfstæði í utanríkismálum
Íslendingar verða að móta og mynda sér sjálfstæða utanríkisstefnu og ákveða hvernig þeir vilja beita sér á alþjóðavettvangi. Bandaríkin eru ein af fjölmörgum vinaþjóðum okkar en það þýðir samt ekki það að við eigum að fylgja þeim í einu og öllu. Ungir jafnaðarmenn kalla eftir sjálfstæði í utanríkismálum og vilja að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir friði í heiminum. Íslendingar voru fyrstir þjóða til að viðurkenna tilvistarrétt nýfrjálsra Eystrasaltsríkja. Sú gjörð hafði veigamikil áhrif í sjálfstæðisbaráttu þeirra þjóða og sýndi vel þann mátt sem smáríki getur haft í alþjóðasamfélaginu. Viðurkenna ber sjálfstæði Palestínu og verða við óskum stjórnvalda í Sri Lanka um að Íslendingar beiti sér að fullum þunga við að koma á friði þar í landi. Jafnframt verða íslensk stjórnvöld að reyna hvað þau geta til að koma íbúum Darfurhéraðs í Súdan til hjálpar, en það er hræðilegt til þess að hugsa að þjóðarmorð líkt og áttu sér stað í Rúanda séu nú að endurtaka sig í héraðinu.

Velferðarmál
Allir eiga að hafa jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu óháð efnahag og öðrum félagslegum aðstæðum. Ójöfnuður og misskipting í íslensku samfélagi hefur stórlega aukist undanfarin ár. Samkvæmt viðurkenndum mælikvörðum hefur ójöfnuðurinn á Íslandi aukist hvað mest allra þróaðra ríkja. Nú er misskiptingin á Íslandi orðin svipuð og í Bretlandi og með sama áframhaldi mun hún verða orðin svipuð og misskiptingin er í Bandaríkjunum innan fárra ára.

Menntun fyrir alla
Þekking er mikilvægasta forsenda allra framfara. Nauðsynlegt er að yfirvöld tryggi aðgang allra landsmanna að menntun við sitt hæfi, enda er það grundvallaratriði í réttlátu samfélagi, þar sem allir njóti sömu tækifæra til lífshamingju og velmegunar. Ungir jafnaðarmenn vilja setja málaflokkinn í algjöran forgang og stuðla að því að þau verði eitt af stærstu baráttumálum Samfylkingarinnar á komandi kosningaári.

Náttúran njóti vafans
Nauðsynlegt er að viðhalda ímynd Íslands sem hreint, fagurt og umhverfisvænt land og leggja áherslu á hátækni- og þekkingariðnað sem getur haldist í hendur við nýsköpun í ferðaþjónustu og hefðbundnu atvinnugreinunum, sjávarútvegi og landbúnaði. Frekari stóriðjuframkvæmdum ber að fresta þangað til að fyrir liggi nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð.

Evran og ESB
Ungir jafnaðarmenn hafa frá stofnun hreyfingarinnar fyrir sex árum hafnað þeirri einangrunarhyggju sem birtist í stefnu annarra stjórnmálaflokka og vilja að Ísland hefji aðildarviðræður við ESB og beri síðan aðildarsamninginn undir þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem íslenska þjóðin mun eiga síðasta orðið. Ungir jafnaðarmenn hafna einhliða upptöku Evru og telja að hún geti ekki komið í stað ESB-aðildar. Þátttöku í myntbandalaginu verður að fylgja full þátttaka í innri markaði Evrópusambandins með öllum þeim kostum sem því fylgja.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. september 2006


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand