Við getum valið um opið eða einangrað Ísland

evropaPISTILL Einhvern veginn svona líður mér með að vera ungur Íslendingur á árinu 2009 og þá staðreynd að við séum ekki ennþá búin að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þar með upptöku evrunnar. evropaPISTILL Ég sit við morgunmatarborðið með fulla skál af serjósi og mjólkurfernan er fimmtán sentimetra í burtu. En ég teygi mig ekki í hana. Ég fer að horfa í kringum mig eftir einhverju til að setja út á serjósið. Augun festast í smástund á kókflösku á eldhúsbekknum, svo píri ég þau í átt að sojasósunni. Hvað með matarolíuna? Svo horfi ég niður í serjósið aftur – ég get líka borðað það bara þurrt.

Einhvern veginn svona líður mér með að vera ungur Íslendingur á árinu 2009 og þá staðreynd að við séum ekki ennþá búin að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þar með upptöku evrunnar. AF hverju erum við ekki búin að drífa í þessu?

Til hvers ESB?

Það er alveg hægt að velja að borða serjósið þurrt eða með kóki út á. Þegar við tökum ákvarðanir um hvernig samfélag við viljum búa í, höfum við líka alltaf val. Kannski er það móðgandi ofureinföldun þegar ég segi að mitt val sé einfaldlega að teygja út höndina eftir augljósa möguleikanum. Eins og mér finnst blasa við að smella mjólk á serjósið (helst fjörmjólk, svo það komi fram) finnst mér blasa við að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fá evruna sem gjaldmiðil.

Ég sjálf var ekkert sannfærður Evrópusinni alveg strax. Það tók mig tíma að pæla í þessu máli af því mér fannst það svo stórt. En ég komst að þeirri niðurstöðu að það væri betra fyrir okkur að fara alla leið inn (við erum nú þegar að mjög miklu leyti aðilar að ESB gegnum EES-samninginn). Þegar ég komst að þessari niðurstöðu fyrir nokkrum árum höfðu Íslendingar ekki miklar áhyggjur af framtíðinni. Núna er 2009 og við sitjum uppi með risastóran skuldabagga í boði Sjálfstæðisflokksins, peninga sem virka ekki og njótum einskis trausts í heiminum.

Það mikilvægasta sem við getum gert til að koma Íslandi aftur í gang er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fá að taka upp evru. Við getum pælt í að gera eitthvað annað alveg eins og við getum alveg pælt í hvort það sé gott að ná í kók út á serjósið. Sjálf hef ég enga þolinmæði í svoleiðis pælingar: Ég vil fá að komast út í daginn og byrja að vinna að endurreisninni.

En jafnvel þótt mér og félögum mínum í Samfylkingunni, auk verkalýðsforystunnar og samtaka atvinnurekenda og fleiri, finnist augljóst að Ísland eigi að fara inn í ESB, þá er aðalmálið þetta: ÞÚ átt að fá að kjósa um hvort við förum inn. Við í Samfylkingunni viljum bara fá að klára að gera aðildarsamning svo við vitum öll hérna heima með hvaða skilyrðum við getum gengið inn í Evrópusambandið. Þá er hægt að ræða málið og klára það með þjóðaratkvæðagreiðslu.

ESB fyrir okkur sem viljum vinnu

Alþingi er nýbúið að setja lög um að herða gjaldeyrishöftin á Ísland ennþá meira. Gjaldeyrishöft þýða að það er ekki hægt að flytja peninga inn og út úr landinu og þetta gerir fyrirtækjum alveg ofboðslega erfitt fyrir, svo erfitt að mörg þeirra hugsa nú um að flytja sig úr landi. Þetta þurfti að gera af því við erum með íslensku krónuna sem gjaldmiðil. Krónan virkar ekki fyrir okkur og þetta vita allir stjórnmálaflokkar þótt Samfylkingin sé eini flokkurinn sem veit hvað hann vill fá í staðinn. Gjaldeyrishöftin virka eins og að setja sundkút um bumbuna á krónunni, armakúta líka og láta hana fá kork svo hún bjargi sér örugglega í buslulauginni. Á meðan er evran að synda Viðeyjarsund af því hún er nógu sterk til þess. Ég vil frekar vera á bakinu á henni þótt mér þyki vænt um krónuna.

Við þurfum að berjast fyrir því núna að fólk hafi vinnu á Íslandi. Atvinnuleysið sem er orðið svo mikið má ekki festast í sessi. Við sem erum í skóla (ég er sjálf að klára master í lögfræði) sjáum að fjöldi félaga okkar er ekki kominn með vinnu í sumar og við viljum ekki að þetta verði varanlegt ástand þegar fólk útskrifast. Fyrirtækin okkar þurfa evru til að efla sig og ráða fleira fólk í vinnu í framtíðinni.
Við náum reyndar ekki að taka upp evruna sjálfa fyrr en eftir nokkur ár en bara yfirlýsing um samningaviðræður Íslands og ESB sendir skilaboð um að við höfum skýra stefnu um hvernig efnahagslífinu hérna verður komið í gang aftur. Þannig aukum við traust erlendra fjármálastofnana sem neita núna íslenskum fyrirtækjum um lán og styrkjum krónuna þangað til við getum skipt henni yfir í evru. Þá verður komið á jafnvægi og fyrirtækin geta gert áætlanir um rekstur án þess að þurfa að eiga von á að krónan skoppi upp og niður og rugli öll plön. Auk þess verður Ísland orðið að betri kosti fyrir erlenda fjárfesta sem geta komið hingað, byggt upp fyrirtæki og búið til störf fyrir Íslendinga í öðru en bara mengandi áliðnaði.

Loks má ekki gleyma því að ESB-löndin eru langsterkasta viðskiptasvæði okkar. Um 75% af útflutningi héðan er til ESB og það er rökréttast að taka upp gjaldmiðil sem er notaður á því svæði.

ESB fyrir okkur sem viljum kaupa íbúð

Ég geri ráð fyrir að flestir lesendur þessarar greinar hafi ekki frekar en ég sjálf ennþá haft efni á að kaupa sér húsnæði. Mér finnst reyndar mjög fínt að leigja sem stendur en vil geta keypt mér íbúð seinna. Við hljótum öll að hafa heyrt hryllingssögur af fólki sem hefur keypt íbúðir á síðustu árum og er nú komið upp fyrir haus í skuldir vegna húsnæðislána sem hafa hækkað rosalega. Þetta gerist af því hér eru vextir miklu hærri en í ESB og verðtrygging á lánum. Í ESB er ekki verðtrygging. Ef maður tekur húsnæðislán í evrum veit maður nákvæmlega hvaða upphæð maður þarf að borga um hver mánaðamót öll þau ár þar til ár lánið hefur verið greitt upp.

Ég er ekki tilbúin að búa við húsnæðislán sem geta hækkað upp úr öllu valdi allt í einu eins og þau hafa gert að undanförnu og sett fólk á hausinn. Hættum þessu bulli – við þurfum ekki að búa við það.

ESB fyrir okkur sem viljum fleiri möguleika á að mennta okkur

Á fólk sem vill fara í framhaldsnám í útlöndum að þurfa að sætta sig við hluti eins og að gengið á bandaríkjadollar sé 120 krónur eitt árið en 60 krónur örfáum árum seinna af því krónan sveiflast svo rosalega? Eins og gengið er núna þarf sumt fólk að hætta við að fara í nám út af því það er bara svo dýrt að lifa sem námsmaður erlendis. Þegar krónan hrundi í haust var ég skiptinemi í Kaupmannahöfn. Allt í einu kostaði danska krónan mig 25 krónur svo ég þurfti til dæmis að borga sjöhundruðkall fyrir almennilegan kaffibolla. Það lá við að maður flytti bara heim.

Svo held ég að mörgum finnist mikilvægt að við inngöngu í ESB myndum við fá felld niður þessi háu skólagjöld í breskum háskólum sem nemendur frá öðrum Evrópusambandslöndum þurfa ekki að borga. Eitt í viðbót er að með aðild getum við sjálf sótt um styrki til menntaáætlunar sambandsins, án þess að þurfa að búa til samstarfsverkefni með a.m.k. tveimur ESB-löndum eins og þarf núna.

ESB fyrir okkur sem viljum ódýrari mat

Það er fáránlega dýrt að kaupa í matinn á Íslandi og ef við göngum í Evrópusambandið breytist þetta. Risastórt velferðarmál af því við þurfum öll að borða, líka þau sem hafa lægstu tekjurnar. Við aðild að ESB myndu falla niður allir tollar af landbúnaðarafurðum frá ESB-ríkjunum en þær vega þungt í háu matarverði hérna. Íslenskur landbúnaður fær meiri tækifæri á móti, aðgang að evrópskum mörkuðum og styrkjakerfi. Sjávarútveginn munum við svo semja um og það er alls ekki rétt að við munum missa yfirráð yfir auðlindum.

ESB fyrir okkur sem viljum lýðræði

Fyrir utan það risastóra lýðræðismál að treysta Íslendingum sjálfum fyrir að kjósa um aðildarsamning við Evrópusambandið, finnst mér líka stórt lýðræðismál að með inngöngu í ESB fengjum við að hafa áhrif á löggjöfina sem við þurfum núna að taka upp. Nú þegar tökum við upp 75% af löggjöf sambandsins í gegnum EES-samninginn. Við urðum aðilar að þeim samningi árið 1994 sem þýðir að við erum nokkurs konar aukaaðili að ESB.

Síðan þá hafa orðið mikil umskipti í átt til aukinna mannréttinda, frelsis í viðskiptum og daglegu lífi, viðurkennds réttar almennings sem borgara eða neytenda og til traustari náttúruverndar. Evrópusambandið leggur nefnilega mikla áherslu á jafnrétti og umhverfivernd og þannig hefur til dæmis löggjöfin okkar á Íslandi í jafnréttismálum kynjanna þróast mikið í takt við það sem hefur verið að gerast í Evrópusambandinu. Sambandið er sá aðili sem mest gefur til þróunarmála í heiminum og 48 fátækustu ríki heims geta flutt inn vörur þangað tollfrjálst. Enda snýst hugmyndafræðin sem ESB byggir á, um að búa til betri lífsskilyrði fyrir fólk gegnum samstarfið.

Opið eða einangrað Ísland – við ráðum þessu

Við getum alveg valið að hafa Ísland áfram land gjaldeyrishafta og einangrunar. Ákveðið að spjara okkur ein með því sem fylgir. Við munum bara eiga miklu erfiðara að koma efnahagnum okkar aftur á flot, verða fátækari, eiga erfiðara með að skapa störf fyrir fólkið okkar, ekki geta lækkað matarverð og síður geta farið til útlanda í nám eða annað. Fjöldi ríkja hefur gengið í Evrópusambandið í kjölfar kreppu, til dæmis Finnland og Svíþjóð. Það hjálpaði þeim og ég er viss um að sama mun eiga við um okkur Íslendinga. Framtíð ungra Íslendinga er best borgið í samstarfi við önnur Evrópuríki.

Treystum Jóhönnu Sigurðardóttur og félögum okkar í Samfylkingunni til að gera samning um aðild að ESB og leyfum síðan þjóðinni að ákveða hvað hún vill gera við þann samning. Tími aðildarviðræðna er löngu kominn.

Pistillinn birtist einnig í Skinfjötla, skólablaði MK.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand