Sjálfstæðisveldi eða lýðveldi

Sjálfstæðisveldi eða lýðveldiPISTILL Við göngum til kosninga þann 25. apríl. Það verður kosið um íhalds- og einangrunarstefnu Sjálfstæðisflokksins eða jafnaðar- og alþjóðastefnu félagshyggjuflokkanna. Það verður kosið um hagsmunamat LÍÚ og Bændasamtakanna gagnvart ESB eða um hagsmunamat almennings gagnvart ESB.Sjálfstæðisveldi eða lýðveldi

PISTILL Við göngum til kosninga þann 25. apríl. Kjósendur eiga létt verk fyrir höndum. Valkostirnir hafa sjaldan eða aldrei verið jafn skýrir. Það verður kosið um gömlu lausnirnar eða nýjar lausnir. Það verður kosið um áframhaldandi veldi hagsmunasamtakanna í Sjálfstæðisflokknum eða ný valdahlutföll með almannahagsmuni að leiðarljósi. Það verður kosið um íhalds- og einangrunarstefnu Sjálfstæðisflokksins eða jafnaðar- og alþjóðastefnu félagshyggjuflokkanna. Það verður kosið um hagsmunamat LÍÚ og Bændasamtakanna gagnvart ESB eða um hagsmunamat almennings gagnvart ESB.

Það verður kosið um hvaða flokkur skuli leiða félagshyggjustjórn til nauðsynlegra verka. Næsta ríkisstjórn verður að endurheimta fullveldi Íslands frá EES með því að ganga inn í ESB og gera okkur á ný að sjálfstæðri og fullvalda þjóð í samfélagi þjóðanna. Við getum ekki hætt á að vera lengur vinalaus og einangruð eyja. Sjálfstæðisflokkurinn braut brýr að baki þjóðinni með viðhorfi sínu þegar varnarliðið var á förum. Alþjóðastefna Samfylkingarinnar er sú eina sem getur eflt samskipti okkar við útlönd.

Við urðum velmegandi þjóð á samskiptum við útlönd. Það er erlent fjárfestingarfé sem skapar þjóðinni möguleika til auðsköpunar. Það er því mikilvægara en nokkuð annað að hér verði komið á stöðugum gjaldmiðli. Eini gjaldmiðillinn sem er nothæfur fyrir Ísland er evran m.a. vegna okkar miklu viðskipta inn á evrusvæðið. Krónunni verður að koma í skjól sem fyrst inn í ERM II, fordyri evrunnar. Fyrsta skrefið er stefnumarkandi ákvörðun um aðildarviðræður. Það að taka stefnuna í átt að evrunni mun veita okkur trúverðugleika á ný. Aðild að ESB er nauðsynleg til að verja okkur gegn frekari afglöpum íslenskra stjórnmálamanna við efnahagsstjórn.

Kjósendur geta nú sent frá sér skilaboð. Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi fyrir stjórn landsins. Sjálfstæðisflokkurinn fær ekki lengur að halda okkur frá ESB til þess að halda eigin völdum yfir íslenskri þjóð. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki lengur litið á sjálfan sig sem þjóðina og auðlindir hennar sem eigin eign. Kjósandi góður, veldu frjálst sjálfstætt Ísland í samfélagi þjóðanna og veittu Samfylkingunni atkvæði þitt þann 25. apríl.

Guðlaugur Kr. Jörundsson – varaformaður Hallveigar, ungra jafnaðarmanna í Reykjavík.
Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 9. apríl 2009

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand