Veljum framtíðarsýn í alþjóðasamstarfi

Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur mótað framtíðarsýn um það hvert Ísland skuli stefna í alþjóðasamstarfi. Hættan er sú að eftir kosningar sitji Íslendingar enn uppi með stefnuleysi í spurningunni um ESB nema Samfylkingin verði kjölfestan í ríkisstjórnarsamstarfi.

Það er sama sem engin ágreiningur um að við búum við ónýtt fjármálakerfi. Stoð okkar fjármálakerfis er íslenska krónan. Önnur burðarkerfi svo sem eftirlitsstofnanir voru eyðilagðar af vanrækslu fyrri valdhafa. Það eru til margar betri leiðir til að hafa létt og aðgengilegt eftirlitskerfi en að láta það afskipt. Gagnsæi, heiðarleiki og skilvirkni eru t.d. mun betri aðferðir til að gera FME að stofnun sem hefur áhrif án þess að þvælast fyrir þar sem hennar er ekki þörf.
Samfylkingunni er vel treystandi til að lappa upp á eftirlitskerfið. Reynslan sýnir líka að gagnsæ og skilvirk stjórnsýsla er það sem flokkurinn gerir einna best. Sú vinna mun þó vart taka á sig nokkra mynd fyrr en stjórnarumboð fæst endurnýjað enda mörg verkefni meira áríðandi.
Allir sem vilja taka alvarlega þá áskorun að koma stoðum undir hrunið efnahagskerfi skilja að krónan er vandinn. Flestir ef ekki allir stjórnmálamenn sem teknir eru alvarlega skilja þetta. Þeim ætti líka að vera ljóst að eftir umræður undanfarinna missera þá er bara ein lausn sem hægt er að bera á borð íslensks almennings. Það er aðild að myntbandalagi Evrópu. Öll umræða um aðrar lausnir er annað hvort óskhyggja eða tímaþjófnaður. Lítum ekki svo á að vandamál með gáfur sé þriðji möguleikinn þótt það hvarfli að manni stundum.
Það var grátbroslegt að heyra Álfheiði Ingadóttur, þingmann VG ræða hugmynd sína í Speglinum í liðinni viku um alþjóðlegt samstarf um íslenskan gjaldeyri, t.d. með Noregi. Óskhyggjan eða það sem maður vill ekki nefna draup af þeirri umræðu.
Í fyrsta lagi hafa komið fullkomlega hreinskilin og skýr skilaboð frá Noregi að norsk króna verði ekki notuð hér á landi. Væntanleg gildir það líka um hlut norskrar krónu í einhvers konar myntkörfu og öll önnur form af notkun gjaldeyris þeirra.
Í öðru lagi er til gjaldeyrir sem byggir á alþjóðlegu samstarfi. Það er evran. Mörg ár tók það fyrir ESB að koma myntsamstarfi á með skilvirkum hætti. VG ætlar svo að koma og rissa upp alþjóðlegt myntsamstarf aftan á umslag og koma í framkvæmd hér á landi á næstu misserum. Ótrúverðugt og hlægilegt.
Talandi um ótrúverðugt og hlægilegt: Stefna Sjálfstæðisflokksins um málefni ESB er komin fram og þó. Sjálfstæðisflokkurinn telur að skipta þurfi um gjaldmiðil og stór hópur þar heldur ennþá að við getum tekið upp evruna upp á eigin spýtu. Eins og að skilaboðin frá Brussel hafi ekki verið nógu skýr. Já það er tæknilega hægt en nei við ráðum ykkur frá því og munum beita okkur fyrir því að það verði ekki gert var svarið frá Brussel. Persónulega hef ég ekki mikinn áhuga á að kynna mér þær beitingaraðferðir með prófunum á eigin skinni.
Eftir stendur að einn og bara einn flokkur hefur raunhæfa og mótaða framtíðarsýn um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Það er Samfylkingin. Ísland á að sækja um aðild að ESB og hafa í farteskinu vel skilgreind samningsmarkmið. Reyna á að fá bestu samninga sem völ er á og bera þá svo undir íslensku þjóðina. Þjóðin á svo að taka ákvörðun um aðildina. Látum ekki atkvæði falla í svarthol ágreinings og óskhyggju stjórnmálaflokka sem eru ófærir um að taka ákvörðun, kjósum Samfylkinguna.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand