LEIÐARI Íslendingar eru Evrópubúar og eiga samleið með Evrópu. Við deilum sögu, menningu og gildum með Evrópu.
LEIÐARI Ýmislegt hefur verið rætt og ritað um Evrópusambandið og fólk hefur skiptar skoðanir á því hvort Ísland eigi að sækja um aðild að sambandinu eða ekki. Hér eru nokkrar ástæður fyrir því að ungt fólk á Íslandi ætti að berjast fyrir því að gengið yrði í Evrópusambandið.
1. Möguleiki á því að kaupa íbúð án þess að skuldsetja sig um aldur og ævi
Fyrir ungt fólk sem ekki hefur þegar fest kaup á íbúð er það aðeins fjarlægur draumur að geta gert það. Þeir sem eiga íbúð eru fastir í vef síhækkandi skulda og margir sjá vart leið til þess að komast út úr ruglinu. Sífellt virðast spretta upp nýjar töfralausnir á því hvernig eigi að skapa stöðugleika á Íslandi og koma í veg fyrir verðbólgu og síaukna greiðslubyrði. Fæstar þeirra hafa hlotið mikinn hljómgrunn enda eru þær annað hvort óraunhæfar, of dýrar fyrir ríkissjóð eða byggðar á einhverju allt öðru en réttlæti. Eina raunhæfa langtímalausnin sem hefur komið fram er aðild að Evrópusambandinu. Í Evrópu eru lágir vextir og verðbólgan er stöðug. Verðtryggingin mun því vera óþörf og íbúðalán ekki hækka um tugþúsundir eða enn meira á milli mánaða.
2. Lægra matvælaverð og alvöru gjaldmiðill
Matvælaverð á Íslandi er svívirðilega hátt og virðist hækka með hverri ferð í Bónus. Verðbólga og óstöðugt gengi krónunnar keyra upp verð á nauðsynjavörum og gera það erfiðara fyrir heimilin í landinu að ná endum saman og fyrirtækin í landinu að halda sjó. Með inngöngu í Evrópusambandið yrði matvælaverð sambærilegt við það sem gerist í Evrópu og með upptöku Evrunnar yrðum við með gjaldmiðil sem myndi raunverulega vera einhvers virði.
3. Aukin tækifæri til menntunnar og starfa
Síðustu mánuðir hafi verið Íslendingum mjög erfiðir og það er ljóst að næstu ár verða það líka. Ýmsir hafa rætt um að nú þurfi Íslendingar að standa á eigin fótum, vera sjálfbær um framleiðslu og hætta að horfa til útlanda. Það er kolrangur hugsunarháttur. Fyrir ungt fólk skiptir höfuðmáli að hafa tækifæri til þess að gera hvað sem hugurinn girnist. Með aðild að Evrópusambandinu verða Íslendingar virkir þátttakendur í alþjóðasamfélaginu og tækifæri ungs fólks til þess að mennta sig í og starfa Evrópu aukast. Sem dæmi má nefna að mun ódýrara yrði fyrir Íslendinga að sækja sér háskólamenntun í Bretlandi. Við eigum ekki að halda ungu fólki nauðugu í landinu heldur eigum við að hvetja það til þess að leita sér þekkingar og reynslu erlendis. Með því að byggja upp réttlátt evrópskt samfélag gerum við Ísland að eftirsóttum stað til þess að búa á og tryggjum að stór hluti þeirra sem fer til útlanda snýr aftur heim.
4. Við eigum samleið með Evrópu
Íslendingar eru Evrópubúar og eiga samleið með Evrópu. Við deilum sögu, menningu og gildum með Evrópu. Við viljum leggja áherslu á mannréttindi, jafnrétti kynjanna, velferð, umhverfismál og jöfnuð og þetta eru allt gildi sem Evrópusambandið byggir á. Evrópusambandið veitir miklu fé til þróunaraðstoðar og er hreyfiafl þegar kemur að umhverfismálum. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu því um meira en beinharða áþreifanlega hagsmuni, þótt þeir vegi vissulega þungt.