Í tilefni af umfjöllun í fjölmiðlum um ályktun Ungra jafnaðarmanna um Landsdómsmálið sem miðstjórn samtakanna sendi frá sér á sunnudagskvöld þykir okkur ástæða til að koma eftirfarandi á framfæri.
Tilefni ályktunarinnar var ekki að tillaga formanns Sjálfstæðisflokksins hafi verið sett á dagskrá Alþingis, heldur vegna atkvæða fjögurra þingmanna Samfylkingarinnar gegn frávísun. Sem æðsta fulltrúa löggjafarvaldsins bar forseta Alþingis sérstaklega að að gæta að þrískiptingu ríkisvaldsins þegar hún tók afstöðu. Niðurstaða Ungra jafnaðarmanna er ekki úr lausu lofti gripin – komist var að henni að vandlega íhuguðu máli.
Kveðið er á um ráðherraábyrgð og Landsdóm í stjórnarskránni, æðstu lögum landsins. Nánari reglur eru um þessi efni í lögum nr. 3 og 4/1963. Hvergi í þeim lögum er kveðið á um heimildir til að draga ákærur til baka. Þó er vísun í lög um meðferð sakamála, en í þeim lögum eru heimildir ákæranda til að afturkalla ákærur. Ekki hafa verið færð rök fyrir því að þær aðstæður séu uppi í þessu máli sem kalli á slíkt, enda hefur Landsdómur úrskurðað að meginhluti ákærunnar sé tækur til efnismeðferðar. Þá hefur það engin áhrif að ákæruliðir hafi verið felldir niður, enda ákæruliðir um þau brot sem eftir standa mjög alvarlegir og engin ný gögn komin fram.
Þrátt fyrir þetta telja þessir þingmenn heimilt að draga ákæruna tilbaka. Veigamestu rökin gegn slíkri niðurstöðu eru að þýðing þess að það teljist heimilt að draga mál til baka, þegar hvorki liggur frammi beiðni eða ný gögn sem vísa til sýknu að ákvæði stjórnarskrárinnar um ráðherraábyrgð og Landsdóm verði óvirk, með þeim hætti að ef kosningar yrðu á milli gæti nýr meirihluti tekið við og fellt ákæruna niður. Lagalegt ábyrgðarkerfi væri þ.a.l. óvirkt. Það stenst ekki stjórnskipan landsins, fullnægir ekki kröfum réttarríkisins um málsmeðferðarreglur og gefur refsikerfi landsins puttann. Hvað þetta varðar á það ekki að skipta máli hvort maður hafi verið sammála þeirri ákvörðun Alþingis að höfða þetta tiltekna mál á sínum tíma.
Í okkar huga getur það grafið undan trúverðugleika Landsdóms, Saksóknara Alþingis og stjórnskipunarinnar í heild að halda meðferð tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins áfram. Þá er hætta á því að niðurstaðan muni draga úr gildi reglna stjórnarskrárinnar um ráðherraábyrgð með mjög alvarlegum afleiðingum til framtíðar.
Miðstjórn Ungra jafnaðarmanna