Útkastarar ríkisins

Á liðnum vetri var lagt fyrir Alþingi frumvarp fjármálaráðherra til breytinga á lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna (nr. 70/1996) og bíður það nú afgreiðslu. Samkvæmt því geta forstöðumenn ríkisstofnana sagt upp undirmönnum sínum án þess að þeim sé áður veitt formleg áminning, án þess að þeir eigi andmælarétt og án þess að þeir geti skotið málinu til ráðherra. En því miður hangir fleira á spýtunni því að frumvarpið gerir ráð fyrir eftirfarandi breytingu: 44. gr. laganna orðast svo: Ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 taka ekki til ákvarðana samkvæmt kafla þessum. Nú eru það ríkisstarfsmenn …
Á liðnum vetri var lagt fyrir Alþingi frumvarp fjármálaráðherra til breytinga á lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna (nr. 70/1996) og bíður það nú afgreiðslu. Samkvæmt því geta forstöðumenn ríkisstofnana sagt upp undirmönnum sínum án þess að þeim sé áður veitt formleg áminning, án þess að þeir eigi andmælarétt og án þess að þeir geti skotið málinu til ráðherra. En því miður hangir fleira á spýtunni því að frumvarpið gerir ráð fyrir eftirfarandi breytingu:

44. gr. laganna orðast svo:
Ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 taka ekki til ákvarðana samkvæmt kafla þessum.

Við þetta brystu ekki aðeins varnir stjórnsýslulaga heldur skryppi 44. lagagrein um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna saman og niður félli eftirfarandi ákvæði: „Ef starfsmaður óskar skal rökstyðja uppsögn skriflega.“ Með öðrum orðum: Forstöðumaður ríkisstofnunar þyrfti ekki einu sinni að rökstyðja uppsögn. Vægast sagt afdrifarík breyting en í greinargerð með frumvarpinu virðist hvergi frá henni sagt – nema hugsanlega undir rós og væri sú þá ekki án þyrna. Stundum segir þögnin meira en þúsund orð.

Það gildir um forstöðumenn ríkisstofnana, eins og aðra, að oft er misjafn sauður í mörgu fé. Ef frumvarp fjármálaráðherra verður að lögum er boðið heim spillingu – spillingu með rætur í geðþótta, hleypidómum og annarlegum hagsmunum – með takmörk í hugmyndafluginu einu. Siðblindur forstöðumaður gæti þá til dæmis sagt upp samkynhneigðum eða útlendum starfsmanni vegna eigin fordóma og einskis annars. Eins gæti farið svo að afburðahæfum og eljusömum starfsmönnum yrði sagt upp í þeirri von að koma mætti að vildarvinum yfirmannsins, mishæfum og misdugandi, eða þá tilkippilegum og snoppufríðari starfsmönnum, allt eftir smekk yfirmannsins. Eins gæti forstöðumaður með smákóngahneigð freistast til að reka framúrskarandi starfsmenn ef hann færi að telja þá ógn við eigin vegsemd og virðingu (smákóngahneigð er jú með algengari kvillum á Íslandi). Þá er ekki útilokað að ríkisstarfsmaður yrði borinn röngum sökum án hans vitundar og yfirmanninum orðið það á að reka hann fyrir fullt og allt – án þess að minnast aukateknu orði á hinar tilhæfulausu ásakanir. Síðast en ekki síst mætti hugsa sér að opinberum starfsmanni yrði vikið úr starfi fyrir að láta í ljós aðrar skoðanir en þóknanlegar væru forstöðumanninum eða hans flokki eða fyrir að veita ekki flokkssystkinum yfirmannsins eða vildarvinum „tilhlýðilega“ fyrirgreiðslu.

Kannski mætti tala um útkastarafrumvarp því að vinnubrögð forstöðumanna gætu farið að minna ískyggilega á aðferðir útkastara á sumum skemmtistöðum erlendis: Engar spurningar, engar skýringar, engar afsakanir, engin miskunn og síst af öllu tilefni!

Hver er ávinningurinn?
Í greinargerð með útkastarafrumvarpinu segir að með því eigi að færa starfsumhverfi á opinberum vinnumarkaði nær því sem gengur og gerist á hinum almenna. En hér er ólíku saman að jafna því að einkafyrirtæki þjóna iðulega sérhagsmunum eigenda sinna en ríkisstofnanir eiga að lúta almannahagsmunum. Þær geta því þurft á vernd að halda fyrir hentistefnu pólitískra valdhafa. Þar að auki á forstöðumaður ríkisstofnunar ekkert í henni sjálfur og getur því látið stjórnast af allt öðrum hvötum en forstjóri einkarekins fyrirtækis sem á sjálfur í því.

En fleira kemur til. Oft er til þess ætlast að opinberir starfsmenn séu reiðubúnir að gagnrýna yfirmenn sína og stjórnvöld. Sú skylda er bundin í siðareglur þroskaþjálfa ef þeir telja skjólstæðinga sína hlunnfarna svo dæmi sé tekið. Ríkisstarfsmenn sinna raunar margir hverjir slíkum verkum, svo sem styrkveitingum úr sjóðum, rannsóknum, álitsgjöf og fréttaflutningi, að þeir þurfa að vera sem óháðastir öðrum, líka kenjóttum yfirmanni. Nú er vitað að bláeygur útvarpsstjóri sér rautt þegar Spegillinn verður fyrir honum. Ætli umsjónarmenn Spegilsins fái að fjúka ef útkastarafrumvarpið verður að lögum? Og hvernig yrði starfsandinn á ríkisstofnunum? Yrði ekki meira um baknag og meinbægni en nokkru sinni fyrr, ekki síst af hálfu þeirra sem sjá ofsjónum yfir gengi vinnufélaga sinna og ásælast jafnvel stól þeirra?

Í greinargerð með útkastarafrumvarpinu segir að það eigi að auka hagkvæmni og sveigjanleika. En nú þegar er skýrt ákvæði í starfsmannalögum um að grípa megi til uppsagna í hagræðingarskyni og hefur Landspítali-háskólasjúkrahús ekki farið varhluta af því. Hversu mikil hagkvæmni er eiginlega í því fólgin að forstöðumenn geti rekið undirmenn sína fyrirvaralaust og ráðið aðra í staðinn? Hefur ríkið ekki fylgt þeirri stefnu að auglýsa laus störf til umsóknar, ráða hæfasta einstaklinginn og fylgjast grannt með honum á reynslutímanum? Eða hvað …?

Stendur annars nokkuð til að hengja bakara fyrir smið? Eru það ekki forstöðumennirnir sem bera öðrum fremur ábyrgð á því ef fjárútlát ríkisstofnana verða meiri en Alþingi hefur þóknast að heimila? Og hvað um stjórnarþingmenn? Ættu þeir ekki að líta í eigin barm? Mennirnir sem hafa hækkað eigin eftirlaun af fádæma rausn, hleypt ferða- og risnukostnaði upp úr öllu valdi og ausið almannafé í undirfurðuleg sérhagsmunamál.

Þegar á heildina er litið er vandséð hverju íslenskt samfélag væri bættara með geðþóttauppsögnum á ríkisstofnunum.

Tjáningarfrelsið heft?
En skyldi útkastarafrumvarpið vera í takt við annað í stjórnarstefnunni? Skemmst er að minnast hringekjunnar um eignarhald á fjölmiðlum og má helst af þeirri hringavitleysu ætla að sumir fjölmiðlar skuli deyja drottni sínum – og það frekar fyrr en síðar. Er útkastarafrumvarpið ekki til þess fallið að þrengja að tjáningarfrelsinu? Að múlbinda ríkisstarfsmenn svo þeir láti síður í ljós „óæskilegar“ skoðanir á opinberum vettvangi? Þá fellur allt eins og flís við rass. Fyrst er flokksgæðingum raðað í æðstu stöður ríkisstofnana, síðan sett lög um að reka megi opinbera starfsmenn án áminningar og rökstuðnings og lokahnykkurinn þá að hinir háttsettu taglhnýtingar boli burt undirmönnum sem voga sér að glettast við FLOKKINN eða ganga í nokkru mót vilja hans. Bláa höndin (alræmdasta leyniklíka landsins) er kannski lúin en varla lömuð. Hver veit nema hún hafi fengið blóðgjöf, smávegis dreitil úr haltri en leiðitamri framsóknarmaddömu?!

Forstöðumenn ríkisstofnana búa ekki í tómarúmi og geta varla ætlað sér þá dul að storka forystusauðum stjórnarflokkanna því þar fara margir í humátt á eftir, jarma í einum kór og reyna óspart að stanga óþægðargemlinga og undanvillinga. Hér má kannski rifja upp að á árunum 2002 og 2003 var þyrlað upp miklu moldviðri um framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs Íslands og fékk hann þó uppreisn æru. Skömmu fyrr, í janúar 2002, hafði framkvæmdastjórinn, ásamt öðrum, neitað að veita styrk til að kvikmynda Opinberun Hannesar, handrit eftir smásögu Davíðs Oddssonar, Glæpur skekur Húsnæðisstofnun. Hvorki hefur verið sannað né hrakið að þar séu nokkur tengsl á milli en á meðan lifa forsvarsmenn annarra ríkisstofnana í óvissunni – til þess eru vítin að varast þau.

Ríkisstjórnin gæti eflaust gert margt ósanngjarnara og óskynsamlegra en að hverfa frá þeim ófögnuði sem útkastarafrumvarpið er. Svo má kannski spyrja: Er þjóðkjörinn forseti landsins nauðbeygður til að staðfesta (ó)lög um aðför að réttindum jafnstórs þjóðfélagshóps og ríkisstarfsmanna?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið