Uppbygging í 9 ár í Reykjavík

Árið 1994 voru heilsdagspláss hjá Leikskólum Reykjavíkur liðlega 1300. Á þessu ári verða þau rúmlega 4800. Áður en Reykjavíkurlistinn tók við fengu foreldrar sem voru giftir eða í sambúð ekki heilsdagspláss fyrir börn sín, nema þeir væru námsmenn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Sverris Teitssonar um uppbyggingartímabil Ingibjargar Sólrúnar í borgarstjórastól. Eftir níu ára stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Reykjavíkurlistans í Reykjavík er vert að líta yfir sviðið og skoða árangurinn:

Fjöldi heilsdagsplássa á leikskólum úr 1300 í 4800
Árið 1994 voru heilsdagspláss hjá Leikskólum Reykjavíkur liðlega 1300. Á þessu ári verða þau rúmlega 4800. Áður en Reykjavíkurlistinn tók við fengu foreldrar sem voru giftir eða í sambúð ekki heilsdagspláss fyrir börn sín, nema þeir væru námsmenn.

Fjöldi einsetinna grunnskóla úr 4 í 34
Árið 1994 voru 4 grunnskólar í Reykjavík einsetnir. Nú eru þeir allir einsetnir, 34 að tölu. Uppbyggingin hefur verið mikil og afar kostnaðarsöm – sem dæmi má nefna að húsnæði á stærð við 10 ráðhús hefur bæst við í skólum borgarinnar.

Saurinn úr fjörunum
Árið 1994 flaut skolp í fjörunum. Nú er hreinsun strandlengjunnar að mestu lokið (Grafarvogur kemur inn í kerfið 2004) og hafgolan ber með sér frískleika en ekki saurgerla.

Raunverulegt jafnrétti
Verulega hefur dregið úr launamun kynjanna hjá Reykjavíkurborg á síðustu árum og markviss vinna er nú í gangi til að útrýma þessum mun. Stjórnendur hjá borginni eru nú álíka margir úr röðum karla og kvenna en 93% þeirra voru karlar þegar Reykjavíkurlistinn tók við.

Menningar- og heilsuborgin Reykjavík
Glæsileg íþróttamannvirki hafa risið um alla borg. Má nefna yfirbyggt knattspyrnuhús í Grafarvogi (Egilshöll), skautahöll í Laugardal og endurbættan Laugardalsvöll. 50 metra yfirbyggð sundlaug er í smíðum í Laugardalnum. Afrekin eru engu síðri á sviði menningarmála: Aðalsafn Borgarbókasafns hefur fengið veglega umgjörð, Listasafn Reykjavíkur hefur verið opnað í Hafnarhúsinu og menningarnótt er orðinn fastur liður.

Íbúum fjölgar um 11.000
Íbúum Reykjavíkur hefur fjölgað um tæplega ellefu þúsund á síðustu níu árum. Það er meira en tvöfaldur íbúafjöldi Seltjarnarness og álíka margir og búa í Árbæ.

Útsvar í Reykjavík er ekki hátt
Útsvarið í Reykjavík er 12,7%. Í stórum hluta sveitafélaga er það 13,03% og meðalútsvarið á landinu er 12,8%. Í Kópavogi, paradís þeirra sjálfstæðismanna, er útsvarið hið sama og í Reykjavík.

30% lægri fasteignagjöld en í Kópavogi
Fasteignagjöld í Reykjavík eru með þeim allra lægstu á höfuðborgarsvæðinu, ef ekki þau lægstu, samkvæmt nýlegri frétt Morgunblaðsins. Fasteignagjöldin í gósenlandi sjálfstæðismanna, Kópavogi, eru um það bil 30% hærri en í Reykjavík.

Skuldir borgarsjóðs standa í stað
Skuldir borgarsjóðs standa nánast í stað frá árinu 1994, hækka um 0,5%. Á höfuðborgarsvæðinu eru skuldir sveitarsjóða á íbúa aðeins lægri á Seltjarnarnesi.

Orkugjöldin lækka!
Skuldaaukning borgarinnar í heild, sem sjálfstæðismenn tönnlast í sífellu á, stafar fyrst og fremst af því að Orkuveita Reykjavíkur hefur tekið lán til fjárfestinga. Hún hefur meðal annars reist raforkuver á Nesjavöllum, lagt veitukerfi í ný hverfi, keypt land og stundað rannsóknir til að geta virkjað á Hellisheiði. Þessar fjárfestingar skila arði. Enda kemur í ljós að reynst hefur unnt að lækka raforkuverð í Reykjavík um hátt í 20% að raungildi á síðustu 9 árum og heitt vatn um meira en 5%.

Bylting til batnaðar
Staðreyndin er sú að bylting hefur orðið til batnaðar fyrir fjölskyldurnar í Reykjavík þann tíma sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur verið borgarstjóri. Og eitt er víst: Umbæturnar munu heldur ekki láta á sér standa í landsmálunum komist Samfylkingin í ríkisstjórn eftir kosningarnar í vor.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand