LEIÐARI Glataðir atburðir haustsins hafa auðvitað skilið okkur eftir í djúpum skít. Blankheit og dýrtíð um óákveðinn tíma – jafnvel ofan á atvinnumissi og óyfirstíganlegar afborganir af lánum – valda því skiljanlega að fjöldi fólks íhugar að flytja til útlanda. Sérstaklega ungt fólk.
LEIÐARI Glataðir atburðir haustsins hafa auðvitað skilið okkur eftir í djúpum skít. Blankheit og dýrtíð um óákveðinn tíma – jafnvel ofan á atvinnumissi og óyfirstíganlegar afborganir af lánum – valda því skiljanlega að fjöldi fólks íhugar að flytja til útlanda. Sérstaklega ungt fólk.
Þó að það sé auðvitað besta mál að ungt fólk fái tækifæri til þess að kynnast heiminum og læra af því sem þar er að finna þurfa þeir sem fara að geta snúið aftur heim. Sá valmöguleiki að búa áfram á Íslandi þarf einnig að vera til staðar. En hvernig í fjandanum á það að vera hægt?
Fólk verður að hafa hvata til þess að þreyja þorrann og láta sig hafa erfiðleikana – að eygja að þeim loknum vonarglætu um betra líf á þessu skeri. Nú þegar kerfið sem byggðist á græðgi og sífellt meiri ójöfnuði er fallið til grunna gefst einmitt tækifæri til þess að byggja upp á nýtt og búa til samfélag þar sem fókusinn er á jöfn tækifæri fyrir alla og réttlátari skiptingu lífsgæða.
Flokkarnir sem stóðu fyrir aukinni misskiptingu og ótrúlega ósanngjarnri útdeilingu sameiginlegra gæða Íslendinga allra munu ekki standa fyrir því að endurreisnin verði réttlát og leiði til þess að Ísland verði aftur ákjósanlegt fyrir ungt fólk.
Þetta hefur Sjálfstæðisflokkurinn sannað með heilli skýrslu sem fjallar um að stefna flokksins hafi ekki brugðist heldur fólk. Það á með öðrum orðum að firra flokkinn ábyrgð á bankahruninu með því að skipta út fólki í brúnni en leyfa sér áfram að byggja á sömu lögmálum og til hrunsins leiddu.
Þetta þarf ungt fólk að hafa í huga sem stendur frammi fyrir vali um framtíð á Íslandi eða annars staðar í heiminum. Það er hægt að sætta sig við tímabundna erfiðleika ef þeir leiða að lokum til sanngjarnara og jafnara samfélags. Til þess verðum við að velja Samfylkinguna til forystu í kosningunum í vor.