Ungu fólki á að líða vel í eigin skinni

Eva Lín Vilhjálmsdóttir sat sinn fyrsta bæjarstjórnarfund fyrir Samfylkinguna í Hafnarfirði síðastliðið vor. Þegar hún lagði fram tillögu um eflingu hinseginfræðslu í grunnskólum bæjarins, óraði hana ekki fyrir þeim harkalegu viðbrögðum sem fylgdu í kjölfarið. Nú liggur endanleg útfærsla hinseginfræðslunnar fyrir og Eva Lín er stolt af niðurstöðunni.

– Ég er mjög ánægð. Það er nauðsynlegt að fræða börn og unglinga um að fjölbreytt fjölskyldulíf sé í lagi og að þau þurfi ekki að skammast sín fyrir kynhneigð sína eða kynvitund. Það er mikilvægt að öllu ungu fólki líði vel í eigin skinni.

Endanleg útfærsla á tillögu Evu er í fjórum liðum:

  • Samtökin ’78 veiti starfsfólki grunnskólanna fræðslu um kynhneigð, kynvitund og málefni intersex fólks.
  • Hafnfirsk ungmenni fái aðgang að ráðgjöf Samtakanna ’78 án endurgjalds.
  • Samtökin ’78 annist fræðslu fyrir alla nemendur í 8. árgangi grunnskóla Hafnarfjarðar.
  • Samtökin ’78 veiti Hafnarfjarðarbæ ráðgjöf við námskrárvinnu um kynhneigð, kynvitund og málefni intersex fólks.

Eva Lín segir að þó að upprunaleg tillaga hennar hafi gengið lengra, sé þetta mjög mikilvægt skref fyrir bæinn. Hún vill að fleiri sveitarfélög fari sömu leið og Hafnarfjarðarbær svo öll börn og ungmenni fái þessa mikilvægu fræðslu og ráðgjöf.

Tillagan vakti mikla athygli og umræðan um hana kom mörgum á óvart. Bjóst Eva Lín við svona ofsakenndum viðbrögðum?

– Viðbrögðin við upprunalegu tillögunni komu mér ekki mikið óvart, en umræðan á Útvarpi Sögu var fráleidd. Hvernig datt þeim í hug að ég ætlaði að eðla mig fyrir framan börnin í einhverskonar sýnikennslu í hinsegin fræðslu? Er fólk krossfest í kristnifræðslu?

Eva Lín tók þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Hafnarfirði og hafnaði í 7. sæti. Hún varð varabæjarfulltrúi, líklega sá yngsti í sögu bæjarins. En af hverju ákvað hún að fara í prófkjör?

– Ég var búin að vera virk í Ungum jafnaðarmönnum í Hafnarfirði og vildi kynnast stjórnmálum betur. Ég var alltaf að heyra að stjórnmálin skiptu engu máli og að allt gengi svo hægt í stjórnsýslunni og ég vildi bara kynnast því sjálf.

Eva Lín hefur mikinn áhuga á umhverfismálum og tók sæti fyrir Samfylkinguna í umhverfis- og framkvæmdaráði. Hún segir það að vissu leyti rétt að hlutirnir gangi stundum hægt í stjórnsýslunni en að það sé líka mjög auðvelt að hafa áhrif. Hún segir stemninguna í ráðinu góða, allir vinni vel saman þvert á flokka.

Eva Lín ætlar að taka pásu frá íslenskum stjórnmálum í bili og er að flytja til Kaupmannahafnar í byrjun nóvember. Þar ætlar hún að vinna fyrir sér fyrst um sinn og fara svo í háskóla næsta haust. En af hverju Köben?

– Ég bjó í Kaupmannahöfn þegar ég var yngri svo ég kann tungumálið vel og þekki aðeins til. Mig langar aðeins að breyta um umhverfi. Svo er eiginlega orðið það dýrt að búa á Íslandi að maður getur alveg eins farið út.

Eva Lín mun ekki hætta að láta sig pólitík varða þó hún flytji til Danmerkur, því örfáum dögum eftir að hún lendir ætlar hún á landsþing Ungra jafnaðarmanna í Danmörku, DSU.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand