Ungir jafnaðarmenn á villigötum

Sveinn Arnarsson fjallar um stefnu Ungra jafnaðarmanna í heilbrigðismálum.

Á landsþingi Ungra Jafnaðarmann í Mosfellsbæ um síðastliðna helgi, samþykktu ungliðar Samfylkingarinnar enn og aftur að leita til einkaaðila með rekstur heilbrigðiskerfisins. Ungir Jafnaðarmenn hafa nú samþykkt þetta umbúðalaust síðustu ár á landsþingum sínum. Til snarpra orðaskipta kom um þetta mál.

Ég hélt greinilega í fávisku minni að ungliðar í Samfylkingunni væru jafnaðarmenn og fylgdu félagshyggjuhugsjónum sínum. Nú er ég virkilega farinn að efast um að félagshyggjan sé ofan á í starfi UJ. Það vita allir að taka þarf virkilega til í heilbrigðiskerfinu okkar. Meðan skrúfað hefur verið fyrir útgjöld til sjúkrahúsanna okkar hefur verið skrúfað frá með offorsi til einkastofa úti í bæ. Er þetta það heilbrigðiskerfi sem UJ vill halda uppi. Nú veit ég ekki.

Í samþykktinni er samt sem áður sagt að Ungir jafnaðarmenn hafni þessu tvöfalda heilbrigðiskerfi sem er í gangi í dag. Áttum okkur á því að ef þeir vilja ekki þetta tvöfalda kerfi eru UJ greinilega að tala tveim tungum. Nema þeir séu virkilega að segja að þeir vilja færa þetta alfarið til einkaaðila. Þannig skil ég samt ályktun UJ í heilbrigðismálum og þannig skilja fleiri þessa skrýtnu hægrisveiflu ungliðanna.

Það verður einnig gaman að fylgjast með því hvernig Magnús Már Guðmundsson, nýkjörinn Formaður UJ heldur utan um þetta mál. Hann skrifaði nafn sitt undir ályktun sem fólst í því að stjórnarandstöðuflokkarnir gerðu með sér kosningabandalag fyrir næstu kosningar og taldi það vera hið rétta í stöðunni. Hann sem formaður sýnir þar að hann vilji vinna með vinstri mönnum á næsta kjörtímabili. Einkarekstur í heilbrigðisgeiranum er ekki góð vinstrimennska í mínum huga.

Í samþykkt á þingi UJ segir orðrétt :

Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er önnur leið til aukinnar hagræðingar, það er þegar hið opinbera kaupir þjónustu fyrir hönd sjúklinga t.d. af einkaaðilum.

Á 37. þingi SUS, Sambands ungra Sjálfstæðismanna, var þessi setning samþykkt:

SUS leggur til að hið opinbera breyti núverandi rekstarformi í heilbrigðiskerfinu og leggi aukna áherslu á einkaframkvæmd.“

Nú verð ég að spyrja alla Unga Jafnaðarmenn hvort þetta sé ekki nokkuð líkt, allt að því að vera nánast sama setningin.

Það er í eðli mannsins að ef hann fær hundrað krónur frá ríki til að sinna einhverju verkefni, vill hann halda einhverjum hluta eftir. Þessi gróðafýsn „einkalæknis” hlýtur þá að skila sér í hagræðingu og niðurskurði. Það hlýtur þá að bitna á einhverjum hluta þjónustu til sjúklings.

Það vita allir að það þarf virkileg að taka til í heilbrigðiskerfinu eftir allt of langa stjórnartíð afturhaldsaflanna í íslenskri pólitík, en þetta er ekki rétta leiðin fyrir okkur jafnaðarmenn. Jafnaðarmannahugsjónin er nefnilega horfin í veður og vind og hefur verið kastað út í hafsauga.

Íslendingar eiga að sjá sóma sinn í því að halda uppi öflugu heilbrigðiskerfi. Það er skömm að ein af ríkustu þjóðum heims geti ekki séð sér fært að halda uppi viðunandi þjónusut við þegna sína. Einnig eru aldraðir látnir sitja á hakanum.

Það er mín von að næsta ríkisstjórn verði leidd af Vinstri mönnum sem sjá það að heilbrigðiskerfið þarfnast naflaskoðunar. Að í heilbrigðismálum verði náð tökum á vanda heilbrigðisstofnana á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að lausnin felist ekki í auknum fjárútlátum til einkastofnana né einkareksturs á heilbrigðissviði.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand