Miðstjórn Ungra jafnaðarmanna skora á ríkisstjórnina og þingflokka ríkistjórnarflokkana til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ná fram nauðsynlegum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Ef ráðherra málaflokksins vinnur ekki með þeim í þeirri vegferð, þá verða flokkarnir að finna nýjan ráðherra til að fylgja málinu eftir.
Ungir jafnaðarmenn ávíta vinnubrögð Jóns Bjarnasonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, við undirbúning breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Núverandi kerfi er óréttlátt og breytingar eru nauðsynlegar. Jón Bjarnason hefur ítrekað lagt fram frumvörp sem uppfylla alls ekki kröfur um að komið verði á réttlátu kerfi, sem heldur minni samfélögum í byggð og skilar þjóðarbúinu raunverulegum arði af auðlind sinni.
Þetta mikilvæga mál hefur lengst af kjörtímabilinu verið í gíslingu í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu án þess að nokkur hefur fengið að vita hvað þar væri rætt og hvenær búast mætti við niðurstöðum.
Ungir jafnaðarmenn óttast að niðurstaðan verði sú að ekki takist að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar áður en kjörtímabilinu lýkur. Gerist það, verður Jóni Bjarnasyni minnst sem þeim ráðherra sem kom í veg fyrir að nauðsynlegar breytingar yrðu gerðar á kvótakerfinu. Það yrði vond arfleið, en eftir því sem tíminn líður virðist sú niðurstaða verða óumflýjanlegri fyrir ráðherrann.