Ungir frambjóðendur í Reykjavíkurkjördæmi norður

Ragna Sigurðardóttir, 5.sæti

Hver yrðu þín áherslumál á Alþingi?

Kjaramál ungs fólks og stúdenta. Húsnæðisöryggi. Geðheilbrigðismál og heilbrigðismál í heild sinni ásamt öflugu velferðarkerfi. Loftslagsmál og feminismi.

Hvers vegna gekkst þú til liðs við Samfylkinguna?

Ég heillaðist af því hvernig Samfylkingin var að vinna í borginni. Samgöngur og húsnæðismál og þeim jákvæðu breytingum sem orðið hafa á borginni, velferð og loftslagsmál. Út frá því hef ég kynnst áherlsum Samfylkingarinnar á landsvísu og átta mig á mikilvægi norræns velferðarkerfis sem þarf að styrkja frekar en skera niður í eins og núverandi ríkisstjórn hefur boðað. 

Hvað fer mest í taugarnar á þér?

Óheiðarleiki. 

Ásta Guðrún Helgadóttir, 7.sæti

Hver yrðu þín áherslumál á Alþingi?

Stafræn framtíð Íslands, utanríkismál og menntamál.

Hvers vegna gekkst þú til liðs við Samfylkinguna?

Röð tilviljana eiginlega. Ég fann mig ekki lengur hjá Pírötum, þar sem ég sat á þingi fyrir árin 2015-2017, meðal annars vegna þess að ég sá ekki hvernig þau sem flokkur vildu fara þegar kom að heildstæðri skattastefnu eða hvort þau væru yfirhöfuð til í að vera í ríkisstjórn. Ég vil taka þátt í stjórnmálaafli sem hefur raunverulegan metnað og raunsæja sýn á það að komast í ríkisstjórn og ég sé það í Samfylkingunni. Sjálf hef ég alltaf skilgreint mig sem skandinavískan sósíaldemókrata, sem er líka grunnurinn að Pírötum, enda flokkarnir nálægt hvor öðrum á hinum pólitíska ás. En fyrir mig snúast stjórnmál ekki einungis um að hafa fallega sýn á samfélagið, heldur líka að geta komið hlutunum í verk. Þar treysti ég Samfylkingunni.
En stutta sagan er sú að það var sem sagt skorað á mig að gefa kost á mér í þessa uppstillingu í Reykjavík og eftir smá umhugsun þá bara já, hví ekki? Sé ekki eftir því – frábær félagsskapur og hlakka til að vinna með Samfylkingunni um ókomna tíð!

Hvað er besta lykt í heimi?

Ætli það hafi ekki verið lyktin af Lubba heitnum, samfylkingarvoffa með meiru sem ég fékk stundum að pass. Góð voffalykt er yndisleg.

Sonja Björg Írisar Jóhannsdóttir, 11.sæti

Hver yrðu þín áherslumál á Alþingi?

Ég brenn fyrir barnamálum og réttindum barna. Ég vil að farið sé eftir Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og að ekkert barn þurfi að upplifa fátækt. Einnig vil ég að það sé ólöglegt að senda börn úr landi. Ég vil að öll geti fengið viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu og að við tökum á móti fleira fólki á flótta á mannúðlegan hátt. Einnig eiga feminismi og umhverfismál allan minn hug.

Hvers vegna gekkst þú til liðs við Samfylkinguna?

Ég brenn fyrir jafnaðarstefnu og vil að öll séu jöfn. Samfylkingin var sá flokkur sem mér fannst skoðanir mínar eiga samleið með.

Ef þú fengir að velja þér ofurkraft, hver væri hann?

Að geta stöðvað tímann

Alexandra Ýr van Erven, 13.sæti

Hver yrðu þín áherslumál á Alþingi?

Mér er sérstaklega umhugað um innflytjendamál. Íbúum af erlendum uppruna fer ört vaxandi á Íslandi og mér finnst stjórnmálin ekki hafa sinnt þeim málum nægilega vel. En auk þeirra eiga feminísk mál hug  minn allan.

Hvers vegna gekkst þú til liðs við Samfylkinguna?

Ég gekk einmitt upphaflega í Samfylkinguna vegna áherslu flokksins í kvenréttindamálum. Ég er ótrúlega stolt af þeirri arfleifð sem flokkurinn fékk í vöggugjöf frá Kvennalistanum og á meðan sá feminíski hugsunarháttur er enn kjarninn í hugmyndafræði flokksins verður þetta flokkurinn minn.

Í hvaða kjördæmi ætlar þú að eyða ellinni í?

Vá erfið spurning… ég held að ég verði að segja Norðvestur. Langar lúmskt að setjast að á eyðibýli á Ströndum.

Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir, 17.sæti

Hver yrðu þín áherslumál á Alþingi?

Ég myndi fyrst og fremst leggja áherslu á að auka öryggi og réttarstöðu brotaþola í kynferðis- og heimilisofbeldismálum, að bæta réttarstöðu flóttafólks og taka á móti fleirum, knýja fram alvöru aðgerðir í loftslagsmálum og tryggja aðgengilega og gjaldfrjálsa gerðheilbrigðisþjónustu fyrir alla. Ég vil lögfesta sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks og afglæpavæða neysluskammta.

Hvers vegna gekkst þú til liðs við Samfylkinguna?

Stefna Samfylkingarinnar samrýmist mínum gildum hvað mest og ég hef fulla trú á fólkinu sem er þar fremst í flokki að breyta samfélaginu til hins betra.

Hvað færðu þér á pizzu?

Nóg af sveppum og rjómaosti eða piparosti, þá er ég sátt

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand