Um endurskoðun stjórnarskrárinnar

Fyrir tæpum mánuði síðan óskaði forsætisráðherra eftir tilnefningum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi í nefnd til þess að endurskoða stjórnarskrána. Augljóst er hver hvatinn að skipan nefndarinnar er þó að hvergi sé minnst sérstaklega hið fræga fjölmiðlafrumvarp. Fyrir tæpum mánuði síðan óskaði forsætisráðherra eftir tilnefningum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi í nefnd til þess að endurskoða stjórnarskrána. Augljóst er hver hvatinn að skipan nefndarinnar er þó að hvergi sé minnst sérstaklega hið fræga fjölmiðlafrumvarp.

Það fylgir því mikil ábyrgð að endurskoða stjórnarskrána. Í henni kemur fram grundvöllur stjórnskipunar landsins og stjórnarskránni er jafnframt ætlað að tryggja grundvallar mannréttindi. Stjórnarskrárbreytingu má aldrei nota til þess að ná fram pólitískum stefnumálum þannig að grafið sé undan einhverjum af þremur þáttum ríkisvaldsins, vegið að sjálfstæði þeirra. Breyting á stjórnarskrá má heldur aldrei vera með þeim hætti að mannréttindum sé stefnt í hættu líkt og við sjáum gerast í Bandaríkjum Bush. Þar er stefnt að því leynt og ljóst að skerða réttindi samkynhneigðra með því að setja inn í stjórnarskrána bann við giftingum fólks af sama kyni. Stjórnarskráin á að vera hafin yfir slíkar pólitískt þras og til þess að svo megi verður að gæta varfærni við breytingar á henni.

Hér er ekki ætlunin að fara yfir þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem tengjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar er full ástæða til að minnast á ýmis önnur ákvæði sem lagfæra mætti fyrst búið er að boða að ráðast eigi í breytingar á stjórnarskránni.

Þegar stjórnarskránni var breytt árið 1995 var það gert meðal annars til þess að samræma mannréttindakafla stjórnarskrárinnar við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hafði verið lögtekinn árið 1994. Þrátt fyrir að samræma ætti stjórnarskrána við mannréttindasáttmálann er í orðalag ákvæða sem eiga að vera sambærileg oft mismunandi. Því er ekki víst að stjórnarskráin verði ávallt talin tryggja mannréttindi með jafn ríkum hætti og Mannréttindasáttmáli Evrópu gerir eða að ákvæðin verði túlkuð með sambærilegum hætti.

Sem dæmi um mismun á orðalagi má nefna að í 7. gr. mannréttindasáttmálans er kveðið á um að engan megi dæma sekan um afbrot nema að sá verknaður sem viðkomandi er dæmdur fyrir hafi talist refsiverður að landslögum eða þjóðarétti þegar hann var framinn. Í 69. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um sambærilegt en í lok 1. málsgreinar ákvæðisins er kveðið á um að jafnframt megi dæma menn seka um afbrot þótt verknaðurinn hafi ekki talist refsiverður að lögum ef það má fullkomlega jafna verknaði viðkomandi til háttsemi sem telst refsiverð að landslögum. Sambærilegt ákvæði er í 1. gr. almennra hegningarlaga. Hér á landi er því heimilað að refsa mönnum fyrir háttsemi þótt hún teljist ekki refsiverð samkvæmt lögum, eftir að búið er að beita viðurkenndum aðferðum til þess að skýra lagatextann, á grundvelli fullkominnar lögjöfnunar, þ.e.a.s. ef háttsemin telst nægilega lík háttsemi sem telst refsiverð. Fræðimenn hafa lýst efasemdum yfir því að slíkt samræmist 7. gr. mannréttindasáttmálans. Til þess að tryggja réttaröryggi hér á landi væri því eðlilegt að fella heimild til að refsa á grundvelli fullkominnar lögjöfnunar úr íslensku stjórnarskránni.

Jafnframt mætti lagfæra jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þar er kynhneigð ekki nefndir berum orðum, en í ákvæðinu er kveðið á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Ekki er þörf á að tíunda hér hversu oft samkynhneigðir hafa orðið fórnarlömb ofsókna og þess vegna full þörf á að nefna þann hóp sérstaklega í ákvæði sem er ætlað að tryggja réttindi þeirra sem á einhvern hátt eiga á hættu að vera mismunað.

Einnig er hægt er að nefna ýmis fleiri ákvæði sem æskilegt væri að endurskoða; gera mætti landið að einu kjördæmi, nota tækifærið og aðskilja ríki og kirkju, fjölga meðmælendum frambjóðenda til embættis forseta Íslands og svo mætti lengi telja. Það er óskandi þeir sem skipaðir verða í nefnd forsætisráðherra hefji sig yfir daglegt þras stjórnmálanna, taki höndum saman og tryggi að þær breytingar sem gerðar verða á stjórnarskránni verði vandaðar og til þess fallnar að standast tímans tönn.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand