Tölum saman um fordóma

Það skiptir máli að gera sér grein fyrir eigin fordómum og það skiptir máli að tala við aðra um fordóma. Það er magnað að sjá hvers konar hugarfarsbreyting getur átt sér stað einfaldlega með því að tala við ungt fólk í hreinskilni um fordóma og það að taka afstöðu á móti þeim. Heimsþorp, samtök gegn kynþáttafordómum á Íslandi, voru stofnuð í maí 2001 í kjölfarið á mikilli umræðu um aukningu fordóma á Íslandi. Um þetta leyti komu fram kannanir sem sýndu að ungt fólk hefði mikla fordóma gagnvart fólki af erlendu bergi brotnu. Þá var birt opnuviðtal í DV við formann íslenskra þjóðernissinna sem kom vægast sagt illa við marga. Í kröfugöngunni 1. maí fylktu síðan liði undir merkjum fordómaleysis tveir hópar ungs fólks sem áttu það sameiginlegt að vilja ekki sitja lengur aðgerðalaust og kvarta yfir ástandinu. Ákveðið var að stofna samtök sem myndu með ýmsum hætti berjast gegn þessari þróun sem virtist hafin.

Heimsþorpið
Við sem stofnuðum samtökin vorum sammála um að íslenskt samfélag hefði ekkert nema gott af aukinni fjölbreytni. Við litum björtum augum til fjölmenningarlegrar framtíðar. Við höfðum flest ferðast eitthvað eða sáum fyrir okkur að það myndi gerast þegar við færum í frekara nám. Við nú á tímum þegar mikið flæði er á milli menningarsvæða og því ekki við því öðru að búast. Það er tiltölulega auðvelt og eftirsóknarvert að kynnast heiminum í dag og okkur þótti engin ástæða til annars en að líta á Ísland sem hluta af þessu heimsþorpi sem hefur myndast. Von okkar var að á Íslandi væri opið og umburðarlynt samfélag sem tæki fagnandi öllu því fólki sem hefði áhuga á að staldra þar við eða setjast að. Við vildum fyrst og fremst einbeita okkur að yngri kynslóðum, bæði vegna fyrrnefndra kannana og eins vegna hinnar augljósu staðreyndar að það er hugarfar þessa fólks sem skiptir sköpum fyrir framtíðarsamfélagið.

Fræðsla og fjölbreytni
Í þessi tæpu tvö ár höfum við verið að reyna að ná til þessa fólks og vekja athygli á mikilvægi þess að fólk geri sér grein fyrir eðli fordóma og taki afstöðu með fjölmenningarlegu samfélagi. Við höfum heimsótt grunnskóla og menntaskóla, farið í félagsmiðstöðvar, haldið tónleika og málfundi, dreift bæklingum og þannig komið málstað okkar á framfæri. Við fengum styrk frá Ungu fólki í Evrópu á seinasta ári til að kynna samtökin og í ár höldum við áfram að gera það sem við getum til að berjast gegn kynþáttafordómum. Við teljum að besta leiðin til að uppræta fordóma sé með mikilli og kröftugri fræðslu. Best væri ef krakkar fengju kennslu um fordóma í siðfræði, heimspeki og samfélagsfræði í grunnskólum. Það sem er svo hættulegt er þetta viðhorf sem virðist vera allt of útbreitt meðal yngra fólks, að íslenskri menningu og þjóðlífi stafi á einhvern hátt hætta af aukinni fjölbreytni. Því viðhorfi þarf að breyta.

Tölum saman
Að sjálfsögðu eru margir hlutir sem þurfa að breytast í stjórnkerfinu til að fólk af erlendu bergi brotið, og þá sérstaklega fólk frá löndum utan EES, geti búið á Íslandi við jafnrétti. Almennt viðhorf fólksins úti á götu hlýtur að skipta gífurlega miklu máli. Það skiptir máli að gera sér grein fyrir eigin fordómum og það skiptir máli að tala við aðra um fordóma. Það er magnað að sjá hvers konar hugarfarsbreyting getur átt sér stað einfaldlega með því að tala við ungt fólk í hreinskilni um fordóma og það að taka afstöðu á móti þeim. Það er þetta sem við í Heimsþorpi höfum verið að gera og við munum halda því áfram.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand