Í þessari grein fjallar Þórður Már Jónsson um skýrslu sem hann og Finnbogi Vikar haf a skrifað um brotalöm í fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þórður Már og Finnbogi afhjúpa í skýrslunni grófa misn0tkun á kerfinu til hagsbóta fyrir fáa og í andstöðu við markmið þess.
Í nokkurn tíma hef ég unnið að gerð skýrslu um ákveðnar brotalamir á fiskveiðistjórnunarkerfinu ásamt vini mínum Finnboga Vikar. Höfum við komist að því að það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að ákveðnir menn verja kerfið (vegna gríðarlegra eigin hagsmuna) og af hverju enn fleiri eru mótfallnir því. Hins vegar skal því ósvarað, að sinni, hvers vegna m.a. fjölmargir sveitarstjórnarmenn sem hafa skyldur gagnvart almenningi, skuli standa í því að gefa út yfirlýsingar til að verja kerfi sem þeir oftar en ekki hafa lítinn skilning á. Góð byrjun væri fyrir marga þeirra að lesa efni þessarar skýrslu og í framhaldinu þær skýrslur sem við höfum fyrirhugað að vinna um aðra þætti þess. Um skýrsluna var fjallað í Kastljósinu 29. júní sem og annað kvöld.
Aflaheimildir notaðar sem skiptimynt í braski
Hugsunin að baki aflamarkskerfinu er verndunarsjónarmið. Ef hætta þykir á því að takmarka þurfi veiðar á ákveðnum nytjastofnum getur ráðherra ákveðið ákveðið aflahámark sem veiða má úr þeim nytjastofni. Þetta kallast aflamark og skiptist á milli þeirra sem hafa aflahlutdeild í viðkomandi nytjastofni. Ef nytjastofnarnir eru aftur á móti vannýttir ætti hins vegar ekki að gefa út aflahámark í þeim stofnum, enda væru þá engin verndunarsjónarmið sem réttlættu það. Við vinnslu skýrslunnar komumst við að því að fjölmargir nytjastofnar eru stórlega vannýttir, ef tekið er mið af ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Kom þetta okkur í upphafi verulega á óvart, þ.e. að handhafar heimildanna skuli oft ekki gera minnstu tilraun til að nýta þær og sækja þessi verðmæti. Þegar betur var að gáð átti þetta sér ákaflega eðlilegar skýringar. Verið er að vernda áframhaldandi eignarhald þessara aðila yfir aflaheimildunum til þess að geta leigt þær öðrum kvótalitlum útgerðum og svo að sjálfsögðu til veðsetningar. Eða auðvitað til þess að geta notað heimildirnar til að skapa leigurétt í öðrum og mun dýrari tegundum.
Uppgötvuðum við m.a. að núverandi handhafar heimildanna geta hagnast gríðarlega á því að hafa þessar heimildir (í vannýttum tegundum eins og t.d. úthafsrækju) undir höndum til þess að geta leigt út aðrar og dýrari tegundir, t.d. í þorski og ýsu, til kvótalítilla útgerða, þ.e. svokallaðra leiguliða. Ekki er heimilt að leigja frá sér meira en sem nemur 50% aflaheimilda í þorskígildum og til þess að skapa sér aukinn útleigurétt í dýrari tegundum eru ódýrari tegundir eins og t.d. úthafsrækja notaðar sem skiptimynt og látnar detta niður dauðar og óveiddar. Það eru aftur á móti fjölmargir aðilar sem hafa áhuga á því að sækja úthafsrækjuna en hafa enga möguleika til þess þar sem veiðiheimildirnar eru notaðar sem skiptimynt í þessu leigubraski! Fyrir þetta blæðir auðvitað þjóðarbúið þar sem gríðarleg verðmæti skila sér ekki inn í þjóðarbúið. Varla er hægt að kalla þetta fyrirkomulag annað en nútíma lénsherrakerfi, þar sem „sameign þjóðarinnar“ er leiguandlag í höndum lénsherranna.
Mín spurning er þessi: Hvers vegna gefur sjávarútvegsráðherra ár eftir ár út kvóta í vannýttum tegundum sem augljóst er að óþarft er að takmarka veiðar á? Þær takmarkanir sem settar eru á veiðar á umræddum stofnum leiða beinlínis til þess að stofnarnir verði vannýttir vegna þess að aflaheimildirnar eru notaðar til að skapa leigurétt í öðrum tegundum. Því eru allar forsendur fyrir því að þeim sé áfram haldið í kvóta brostnar. Þjóðarhagsmunir krefjast þess að nytjastofnarnir séu nýttir að því marki sem þeir eru taldir þola. Hagsmunir leigusala (lénsherra) eiga ekki að vega þyngra en hagsmunir þjóðarinnar.
Stuðlað að ofveiði ákveðinna nytjastofna
Fiskveiðistjórnun grundvallast öðru fremur af tveimur atriðum. Í fyrsta lagi því að koma í veg fyrir ofveiði með friðun á fiskistofnum og í öðru lagi með því að vinna gegn því að þær veiðiaðferðir sem notaðar eru séu skaðlegar.
Eins og fram kemur í skýrslunni stuðlar núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi beinlínis að því að ákveðnir nytjastofnar geti verið veiddir umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, með öðrum orðum ofveiddir. Þetta er gert með heimildum sem menn hafa til tegundatilfærslna. Jesú gat breytt vatni í vín og nú 2000 árum síðar geta íslenskir útgerðarmenn breytt grálúðu í steinbít, svo dæmi sé tekið! Þetta leiddi m.a. af sér að undanfarin ár hefur steinbítur verið veiddur um 18% að jafnaði umfram útgefið heildaraflamark og rúmlega 14% umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar!
Fiskistofa brýtur gegn lögum og hlutverki sínu
Hlutverk Fiskistofu er að tryggja til frambúðar hámarksafrakstur Íslendinga af ábyrgri nýtingu auðlinda hafsins með stjórnun og eftirliti þeirra þátta sem snúa að veiðum og vinnslu. Þetta ber Fiskistofu að gera og vitanlega jafnframt að fara eftir þeim lögum sem sett eru af Alþingi. Það er vitanlega hlutverk stjórnvalda að framfylgja lögum og Fiskistofa er stjórnvald. Því er Fiskistofu eingöngu heimilt að gera það sem henni hefur sérstaklega verið leyft. Með þetta í huga er því ótrúlegt að veiðiheimildasvið Fiskistofu hefur tekið ákvarðanir sem virðast augljóslega ganga gegn lögum með því að hafa m.a. leyft flutning á aflamarki til fiskiskipa sem hafa bersýnilega ekki veiðigetu til að nýta heimildirnar. Slík ákvörðun hjá Fiskistofu brýtur í bága við 1. mgr. 15. gr. fiskveiðistjórnunarlaga þar sem fram kemur að ekki sé heimilt að flytja aflamark (kvóta) til fiskiskips ef flutningurinn leiðir til þess að veiðiheimildirnar verði bersýnilega umfram veiðigetu þess. virðist sem hugtakið „veiðigeta“ sé túlkað ansi rúmt og vel út fyrir öll skynsamleg mörk, enda hafa menn m.a. getað flutt kvóta í Flæmingjarækju á innan við 30 tonna bát!!! Það segir sig vitanlega sjálft að slíkur bátur gæti ekki einu sinni siglt á miðin, hvað þá kastað þar út trolli til að sækja aflann. Þá er dæmi um línubát sem hefur á „óskiljanlegan“ hátt komist yfir næstum 1/6 hluta úthafsrækjukvótans! Þó hefur hann auðvitað aldrei veitt eitt kíló af rækju, enda verður hún seint veidd á línu. Þannig er stuðlað að því að mikil verðmæti eru látin fara förgörðum og er því farið beint gegn hlutverki Fiskistofu að tryggja hámarksafrakstur Íslendinga af nýtingu auðlinda hafsins.
Markmið laganna höfð að háði og spotti
Hér er auðvitað stiklað á stóru, en við vinnslu skýrslunnar sáum við jafnframt að það eru fjölmargar aðrar og alvarlegar brotalamir á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Við hyggjumst í framhaldinu reyna að halda áfram vinnu okkar og sýna enn betur fram á hversu spillt og stórgallað kerfið er. Í núverandi kerfi er byggt öðru fremur á því að rekstrarleg hagkvæmni sé sem mest en þjóðhagslegri hagkvæmni gleymt í staðinn. Engu að síður hefur lengi verið logið að þjóðinni að 1. málsl. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða hafi einhverja þýðingu, en þar stendur að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Ákveðnir aðilar hafa allt of lengi fengið að höndla með fjöregg þjóðarinnar eins og sína einkaeign. Íslenska þjóðin hefur ekki lengur efni á því að vera látin sitja á hakanum fyrir hagsmuni fárra. Það er kominn tími á að markmið laga um stjórn fiskveiða séu virt, en þau koma fram í 2. málsl. 1. gr.: „Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu [nytjastofnanna] og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“ Skýrsla okkar sýnir svo ekki verður um villst að þessi markmið eru ekki höfð að leiðarljósi við framkvæmd laganna. Eftir að hafa unnið að þessari skýrslu er það einlæg skoðun mín að glæpur hafi verið framinn gegn íslensku þjóðinni.
Fyrir áhugasama er skýrsluna að finna á www.thordurmar.blog.is
Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur og annar varaþingmaður Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.