Ef menn gerast brotlegir við lögin, er náttúrulega best að gera það af hugmyndafræðilegum ástæðum, þá gerast menn samviskufangar. Þeim er þá hent í fangelsi fyrir að hafa brotið, að þeirra mati, heimskuleg lög. Nóg er til af mótsögnunum og rökleysunni í íslenskum lögum, og sum hver eru einfaldlega heimskuleg. Segir Sigurjón Unnar Sveinsson í grein dagsins. Íslensk pólitík getur tekið á sig oft hina furðulegustu mynd. Þó svo að menn hafi gerst brotlegir við lögin, virðast menn eiga sér fast sæti á Alþingi. Ekki nema von að þetta hafi verið tekið fyrir í Skaupinu, og þar látið í það skína að Alþingisvist sé verri en vist í versta fangelsi landsins. Legg ég til að Alþingi verði kallað Stóra hraun hér með.
Ef menn gerast brotlegir við lögin, er náttúrulega best að gera það af hugmyndafræðilegum ástæðum, þá gerast menn samviskufangar. Þeim er þá hent í fangelsi fyrir að hafa brotið, að þeirra mati, heimskuleg lög.
Nóg er til af mótsögnunum og rökleysunni í íslenskum lögum, og sum hver eru einfaldlega heimskuleg. Taka má dæmi af 18 ára einstakling sem má taka allar sínar lífsins ákvarðanir, en svo má sami einstaklingurinn ekki skála í kampavíni í eigin brúðkaupi. Heimskulegt? Já, svo sannarlega. En ruglið er nefnilega ekki búið því þessi sami einstaklingur getur kosið og orðið ráðherra, og getur þar með orðið yfirmaður ÁTVR. Lögin leyfa sama manninum að sjá um áfengið fyrir alla þjóðina, en hann má ekki opna einn bjór. Heimskulegt? Ó, já. Ég legg til að þessi 18 ára einstaklingur brjóti áfengislögin og skáli í sínu eigin brúðkaupi. Leið hans inn á Stóra hraun ætti að vera greið.
Á Íslandi er ríkið með einokunarstöðu í áfengissölu. Heimskulegt? Ó, já. Dæmi um ruglið sem kemur út úr þessu er t.d. staðan í minni bæjarfélögum eins t.a.m. úr mínum heimabæ. Þar er áfengið selt í bensínsjoppu. Sami afgreiðslumaðurinn selur súkkulaðið og bjórinn, súkkulaðið undir merkjum Essó og bjórinn undir merkjum Vínbúðar. Legg til að þessi afgreiðslumaður gerist brotlegur við áfengislögin og selji bjórinn undir merkjum Essó. Leið hans inn á Stóra hraun ætti að vera greið.
Þriðja dæmið sem ég get tekið og þessu tengt er þetta: Fínmalað neftóbak er bannað, en grófmalað leyft. Þegar þessi ákvörðun var tekin á Alþingi voru rökin þau að ríkið yrði að vernda unga fólkið gegn fínmalaða neftóbakinu, en sömu aðilar vildu hafa grófmalað neftóbak ennþá leyft því gamla fólkið ætti ,,rétt“ á því. Ég sé einfaldlega ekki muninn. Legg til að einn eldri borgarinn fari niður á Austurvöll og taki fínmalað neftóbak í nefið og kalli ,,ég hef líka rétt á þessu“. Leið hans inn á Stóra hraun ætti að vera greið.
Ég lifi í þeirri trú að það sé gott að vera samkvæmur sjálfum sér. Mörgum Alþingismönnum virðist vera sama um slíkt. Ég held einmitt að það sé ein helsta ástæðan fyrir því að virðing fólks fyrir Alþingi fer þverrandi.