Stjórnmálaályktun landsþings: sigrumst á sérhagsmunum

Ráðast þarf í átak gegn kynbundnu ofbeldi og grípa verður til aðgerða til að stöðva hrinu sjálfsvíga meðal ungs fólks. Þá þarf að draga úr misskiptingu með því að hækka barna- og húsnæðisbætur og sigrast á sérhagsmunaöflum samfélagsins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í stjórnmálaályktun landsþings Ungra jafnaðarmanna, sem fór fram um helgina.

Í setningarræðu sinni sagði Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, formaður Ungra jafnaðarmanna, að jafnaðarmönnum gefist nú einstakt tækifæri til að sigrast á sérhagsmunaöflum samfélagsins. Jafnaðarmenn þurfi að taka höndum saman með öðrum miðju- og vinstrisinnuðum umbótaöflum til að koma hér á nýju, betra og réttlátara samfélagi.

Þá samþykkti þingið tvær sérályktanir. Önnur snýr að stuðningi við menntun og nýsköpun á landsbyggðinni og hin leggst gegn hugmyndum um vegtolla til og frá Reykjavík.

Sema Erla Serdar, formaður Solaris, hlaut félagshyggjuverðlaun Ungra jafnaðarmanna fyrir þrotlausa baráttu sína í þágu fólks á flótta.

Stjórnmálaályktunin í heild sinni:

Aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi

Við göngum til kosninga í skugga ofbeldis. Kynbundið ofbeldi er alvarlegt mein sem hefur allt of lengi verið látið óáreitt og þaggað niður. Ráðast þarf í aðgerðir til að taka á kynbundnu ofbeldi og leggja meiri áherslu á rannsókn kynferðisafbrota. Liður í því er að efla fræðslu og að veita lögreglu og félagsmálayfirvöldum það fjármagn sem nauðsynlegt er, ásamt þeim úrræðum sem hún þarf til að glíma við vandann.

Unga fólkið á betra skilið

Ungu fólki líður sífellt verr. Auka þarf aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, m.a. með því að fjölga sálfræðingum á heilsugæslum og tryggja sálfræðiþjónustu í öllum framhalds- og háskólum. Grípa þarf til róttækra aðgerða til að stöðva hrinu sjálfsvíga meðal ungs fólks, t.d. með því að bjóða ungu fólki  gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu.

Margt bendir til þess að stytting framhaldsskólans hafi aukið álag á framhaldsskólanema. Menntamálayfirvöld þurfa að koma betur til móts við þá nemendur sem ekki geta staðið undir ströngum kröfum vegna kvíða, þunglyndis eða annarra ástæðna.

Misskipting er óþolandi

Bilið á milli þeirra Íslendinga sem minnst eiga og þeirra sem mest eiga er of breitt. Ungir jafnaðarmenn sætta sig ekki við að þau ríku verði ríkari meðan þau fátæku verða sífellt fátækari. Ríkisvaldið skal beita sér fyrir meiri jöfnuði í samfélaginu. Hækka þarf barna-, vaxta- og húsnæðisbætur til að koma til móts við ungt fólk, barnafjölskyldur og efnaminna fólk á húsnæðismarkaði. Þá þarf að ráðast í sérstakar aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja, til að mynda með hækkun frítekjumarks, afnámi krónu á móti krónu skerðinga og hækkun örorkubóta. .

Sigrumst á sérhagsmunum

Á síðustu misserum hafa fjölmörg alvarleg spillingarmál skekið íslenskt samfélag. Ungir jafnaðarmenn sætta sig ekki við spillt stjórnmál, þar sem sérhagsmunaöfl fá sínu framgengt á kostnað lýðræðis og almannahagsmuna. Íslenskt samfélag þarf að sigrast á sérhagsmunum. Til þess þarf sterka hreyfingu jafnaðarmanna sem berst fyrir almannahagsmunum. Ný ríkisstjórn með þátttöku jafnaðarmanna verður að leggja áherslu á að innleiða nýja stjórnarskrá og temja sér heiðarleika og betri vinnubrögð.

Sérályktanir:

Ályktun um vegatolla
Landsþing Ungra jafnaðarmanna leggst gegn áætlunum um vegatolla til og frá Reykjavík.

Vegakerfið er hluti af grunninnviðum samfélagsins. Vegatollar eru óréttlátar álögur sem leggjast á fólk á landsbyggðinni, sér í lagi þá sem þurfa að sækja störf, nám og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu, sem og fólk sem fílar að fara á sveitaböll.

Þungi skattarins er borinn uppi af fólki óháð efnahag, sem er þvert á hugmyndir jafnaðarstefnunnar um sanngjarna skiptingu skattbyrðanna.

Hugmyndir um vegatolla til og frá Reykjavík ganga þvert gegn þeirri vinnu sem unnin hefur verið til að gera höfuðborgarsvæðið og nálægar byggðir þess að einu atvinnu- og þjónustusvæði.

Ályktum um nýsköpun, háskóla og landsbyggðina:
Landsþing Ungra jafnaðarmanna tekur undir svohljóðandi ályktun kjördæmisráðs Norðvesturkjördæmis:

Ríkið setji stóraukin framlög í sóknaráætlanir og nýsköpunarverkefni á landsbyggðinni, margfaldi framlög í uppbyggingarsjóði og nýsköpunarsjóði tengda háskólanum. Starfsemi Byggðarstofunnar verði efld og hlutverk hennar verði að vera hreyfiafl til nýsköpunar á landsbyggðinni.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand