Stjórnmálaályktun af landsþingi UJ 2005 – Stjórnskipun og mannréttindi

Málefni innflytjenda
Ungir jafnaðarmenn fara fram á það við stjórnvöld að þau stórbæti tungumálakennslu fyrir innflytjendur og hafi hana bæði gjaldfrjálsa og aðgengilega enda aðlögun innflytjenda í samfélagið eitt helsta vopnið gegn frekari stéttskiptingu.

Friðhelgi einkalífs
Ungir jafnaðarmenn telja friðhelgi einkalífs til mikilvægustu mannréttinda sem einstaklingur getur átt rétt til. Eiga þessi réttindi að njóta ríkrar verndar og hefur stjórnarskrárgjafinn þegar tekið af skarið um það, með því að veita þessum réttindum þann sess sem þau skipa innan stjórnarskrárinnar í dag. Hlerun símtækja eða öflun upplýsinga hjá síma- eða fjarskiptafyrirtækjum um símtöl eða fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki er tiltölulega auðveld aðgerð en oft á tíðum notar hinn almenni borgari símtæki til persónulegra nota. Inn á svið einkalífs fólks á ekki að vera unnt að ryðjast nema brýna nauðsyn beri til.

Telja Ungir jafnaðarmenn að dómsúrskurður verði alltaf að vera skilyrði þess að einkasímar fólks verði hleraðir í þágu rannsóknar. Þannig meti dómstólar hvort brýna nauðsyn beri til þess að heimila hlerun við rannsókn og vegna sjálfstæðis dómstóla, sem dregið er af V. kafla stjórnarskrárinnar og áskilnaður um að dómendur dæmi einungis eftir lögum, sbr. 61. gr. hennar, sé þessum ákvörðunum best skipað hjá þeim, en ekki framkvæmdarvaldinu, enda opnar slík heimild á möguleika til misnotkunar. Með því að láta dómstóla meta hvort brýna nauðsyn beri til verði komið í veg fyrir að tortryggni gagnvart ríkisvaldinu vegna slíkrar opnunar vakni.

Ákvæði er í lögum sem skylda fjarskiptafyrirtæki til að tryggja ,,þar til bærum yfirvöldum” aðgang að búnaði til hlerunar, en hvergi virðist koma fram hvaða yfirvöld það séu, í það minnsta ekki í greinargerð með frumvarpinu. Stórt spurningarmerki verður að gera við slíkt ákvæði sem varðar skerðingu á mannréttindum eins mikilvægum og um ræðir. Ákvæði sem þetta þurfa að vera mun nákvæmari og er það stefna Ungra jafnaðarmanna í þessum málum að réttindi sem teljast til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu verði tryggð með mun skýrari hætti en í nefndu ákvæði fjarskiptalaga, sem hér er tekið sem dæmi.

Lýðræði
Til þess að ríki séu í raun og veru lýðræðisríki er ekki nægilegt að formhlið stjórnskipunarinnar sé í lagi. Ekki er síður mikilvægt að vinnubrögð og viðhorf þeirra sem starfa í umboði fólksins endurspegli virðingu fyrir lýðræðislegum gildum. Þetta þýðir að stjórnskipulega hlið lýðræðis verður að skoða í samhengi við lýðræðislega stjórnarhætti. Nauðsynlegt er að lýðræðislegir stjórnarhættir séu sívirkir, það er að þátttaka almennings sé ekki bundin við að velja menn til að fara með völdin með reglulegu millibili. Það þýðir meðal annars að stjórnvaldsákvarðanir séu ávallt teknar af hlutlægni og fagmennsku og þær studdar málefnalegum rökum.

Vanvirðingu stjórnvalda við lýðræðislega stjórnarþætti má meðal annars sjá í því að framkvæmdavaldið hefur í æ ríkara mæli ekki haldið sig innan lagaramma án þess að það hafi verið hægt að bregðast við því með neinum hætti. Slíkt má glögglega sjá í því hvernig stjórnvöld hafa staðið að ráðningu í opinber störf og skipan í embætti. Hefur vanvirðing stjórnvalda á lögunum við meðal annars leitt til þess að efasemdir hafa vaknað í samfélaginu um sjálfstæði dómstóla. Slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér vegna þess að þrískipting ríkisvaldsins og sjálfstæðir dómstólar er eitt af grundvallarskilyrðum lýðræðislegra samfélaga.

Skipan dómara verður að vera með það að leiðarljósi að dómarar séu eingöngu valdir á faglegum grundvelli og að sú leið sem farin er rýri ekki traust almennings á Hæstarétti líkt og síðustu skipanir hafa gert. Þegar skipan dómara er skoðuð er einnig mikilvægt að hafa í huga sjónarmið um aðskilnað framkvæmda- og dómsvalds. Hægt væri að fara þá leið að skipa sérstaka ráðgefandi nefnd sem væri skipuð fulltrúum bæði frá lagasamfélaginu og almenningi, til dæmis almenningi. fulltrúi dómsmálaráðherra og ríkislögmanns, forseti Hæstaréttar, og fulltrúi frá lagasamfélaginu, þ.e. formaður lögmannafélagsins og forseti lagadeildar Háskóla Íslands eða prófessor í stjórnskipunarrétti. Einnig gæti Umboðsmaður Alþingis átt sæti í slíkri nefnd. Nefndin myndi svo gera tillögu um tilnefningu til forseta eða forsætisráðherra sem skipaði í embættið. Hægt væri að hafa tillögu nefndarinnar bindandi eða að 2/3 hluti þingmanna þurfi að samþykkja tilnefningu ef ekki er farið eftir áliti nefndarinnar. Þá væri einnig hægt að fara þá leið að þingið veldi umsækjendur beint eftir að ráðgefandi álit nefndarinnar bærist og vel má hugsa sér að aukinn meirihluta þurfi eða að valið sé takmarkað með einhverjum hætti.

Fækkun ráðuneyta
Fækka á ráðuneytum úr þrettán í níu í þeim tilgangi að auka skilvirkni, fækka ráðherrum og lækka launagreiðslur, samnýta starfsfólk og einfalda yfirbyggingu ríkisstjórnarinnar. Lagt er til að skipting ráðuneyta verði sem hér segir:
– forsætisráðuneyti
– utanríkisráðuneyti
– fjármálaráðuneyti
– félagsmálaráðuneyti
– heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneyti
– menntamálaráðuneyti
– viðskipta- og atvinnuvegaráðuneyti (áður landbúnaðar-, sjávarútvegs-, viðskipta- og iðnaðarráðuneyti)
– innanríkisráðuneyti (áður samgöngu- og dómsmálaráðuneyti, ráðuneyti Hagstofu Íslands, ríkislögreglustjóri byggðastofnun, og skipulagsstofnun)
– Umhverfisráðuneyti

Fækkun sendiráða, aðskilnaður ríkis og kirkju og kjördæmaskipting
Ungir jafnaðarmenn telja að spara megi töluverða fjármuni með því að samnýta sendiráðin með öðrum Norðurlöndum, auka aðhald í rekstri og minnka íburð sendiráða. Einnig teljum við að endurskoða ætti fjölda sendiráðanna.

Ungir jafnaðarmenn vilja aðskilnað ríkis og kirkju. Leggja ætti niður framlög ríkissjóðs til þjóðkirkjunnar.

Allir landsmenn eiga að hafa sama rétt og sömu tækifæri til að hafa áhrif á hverjir sitja á Alþingi. Því á að gera landið að einu kjördæmi og atkvæði allra landsmanna eiga að hafa sama vægi í kosningum til Alþingis. Misvægi atkvæða landsmanna eftir búsetu er óþolandi mismunun, sem verður að afnema tafarlaust.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand