Sóun á sameign þjóðarinnar

sjávarútvegurPISTILL Undanfarin ár hafa fjölmargir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi staðið á bak við áróður um að best sé fyrir þjóðarhag að viðhaldið sé óbreyttu fiskveiðistjórnunarkerfi, sem þeir halda fram að sé það besta í heiminum. sjávarútvegurPISTILL Undanfarin ár hafa fjölmargir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi staðið á bak við áróður um að best sé fyrir þjóðarhag að viðhaldið sé óbreyttu fiskveiðistjórnunarkerfi, sem þeir halda fram að sé það besta í heiminum. Til þess að vernda þessa hagsmuni hefur LÍÚ komið sér þægilega fyrir innan Sjálfstæðisflokksins og augljóst er af úrslitum prófkjörs þeirra í NV-kjördæmi að á því er engin breyting. Það er nauðsynlegt fyrir hagsmunaaðilana að hafa dugmikla menn inni á Alþingi til þess að verja þessa miklu hagsmuni. Í lögum um stjórn fiskveiða stendur þó að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Það er vert að spyrja sig að því hvernig kvótakóngarnir fara svo með þessa „sameign“ okkar sem þeir þó hafa haft fullt forræði yfir.

Við getum tekið dæmi. Ef þorskkvótinn er nú rúm 130.000 tonn má velta því fyrir sér hver afrakstur þess er fyrir okkur sem þjóð? Svarið við því er einfalt: Við, sem þjóð, erum ekki að nýta þessa auðlind skynsamlega þrátt fyrir að kvótakóngarnir séu augljóslega að reyna að ná sem mestum afrakstri úr auðlindinni. Tökum einfalt dæmi. Ef þessi 130.000 tonn eru tekin og seld á 200 krónur kílóið þá þýðir það tekjur upp á 26 milljarða. Auðlindin, þ.e. þorskurinn, væri því 26 milljarða virði á ári upp úr sjó. Spurningin er hvernig við hyggjumst ráðstafa þessum 26 milljörðum?

Ef allri auðlindinni er ráðstafað til togaraútgerða lítur dæmið nokkurn veginn svona út: Stór togari fer með u.þ.b. 20% af aflaverðmæti (að lágmarki) í olíukostnað. Það þýðir að fara þarf út í gjaldeyriskaup til að greiða fyrir þá olíu. Þetta myndi þýða að 5,2 milljarðar af auðlindinni færi í að dekka þann kostnað. Verðmæti auðlindarinnar væri því skyndilega ekki lengur 26 milljarðar, heldur 20,8 milljarðar. Þarna er þó ótalinn sá mikli kostnaður sem fer í rándýran skipakost og viðhald sem og sligandi vaxtakostnað margra útgerðanna. Má ætla að virði auðlindarinnar fyrir þjóðarbúið minnki verulega þegar búið er að taka það inn í reikninginn.

Þá þarf aftur á móti að meta það hvort það sé mögulegt að ná auðlindinni með minni tilkostnaði. Sem dæmi um það getum við tekið handfæraveiðar smábáta. Smábátur á handfæraveiðum fer með u.þ.b. 2% af aflaverðmæti í olíukostnað. Til að setja þetta í samhengi þurfum við að gera ráð fyrir því að allur 130.000 tonna kvótinn yrði veiddur af krókabátum og að 200 krónur fengjust fyrir kílóið. Á þann hátt færu 520 milljónir í olíukaup. Með þessum hætti væri heildarvirði auðlindarinnar (þorsksins) því 25,5 milljarðar, eða 4,7 milljörðum hærra en það væri ef allur kvótinn yrði veiddur af stórum togurum. Ekki má gleyma því að annar kostnaður við slíkar veiðar er miklu minni og brottkast yrði lítið sem ekkert væru handfæraveiðar t.d. gefnar frjálsar ákveðinn tíma á ári. Í 7. gr. sáttagjörðar um fiskveiðistefnu Samfylkingarinnar sem samþykkt var á landsfundi nú um helgina er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að handfæraveiðar verði gefnar frjálsar.

Þá eru ótalin þau gríðarlegu verðmæti sem kastað er fyrir borð á togurum. Nýtingin á þorskinum er innan við helmingur af heildarþyngd á frystitogurum en hinu er hent í sjóinn þannig að einungis það verðmætasta er nýtt, hrikaleg spjöll á lífríki hafsins sem risavaxin trollin valda þegar þau eru dregin með gríðarþungum lengjum og hlerum á fullri ferð eftir hafsbotninum, auk mengunarinnar sem af þessu hlýst.

Þarna er augljóst að rekstrarleg hagkvæmni örfárra fyrirtækja er látin fara ofar þjóðhagslegri hagkvæmni. Vissulega ættum við að leggja á það ofuráherslu að veitt sé eins mikið á þjóðhagslega hagkvæman (og vistvænan) hátt og mögulegt er. Það var lítið mál fyrir kvótakóngana að villa mönnum sýn fyrir fáeinum árum síðan þegar uppgangurinn var mikill á Íslandi og flestir gátu talist hafa það nokkuð gott. En nú er öldin svo sannarlega önnur og erfiðara ætti að vera að villa fyrir um og blekkja fólk. Nú þarf að leggja áherslu á hagsmuni heildarinnar, ekki hagsmuni fáeinna útvaldra. Ljóst er að það er ekki mikið mál að breyta þessu, það eina sem þarf til er pólitískur vilji. Í athugasemdum við frumvarp til laga um stjórn fiskveiða stendur m.a.:

    Fiskistofnarnir við Ísland eru helsta auðlind íslensku þjóðarinnar. Lífskjör þjóðarinnar ráðast að miklu leyti af því, hvernig til tekst um nýtingu þeirra. Með frumvarpi þessu er að því stefnt að setja almennar leikreglur um fyrirkomulag fiskveiða, er stuðli að sem mestum afrakstri úr þessari takmörkuðu auðlind.

Ljóst er að ekki hefur tekist vel til varðandi nýtingu þessara takmörkuðu auðlinda. Fyrir því færa ekki margir rök nema vera sjálfir hagsmunaaðilar sem verja áframhaldandi tangarhald sitt á auðlindunum með kjafti og klóm. Það fyrirkomulag sem nú er við lýði stuðlar því miður engan veginn að því að náð sé sem mestum afrakstri úr auðlindinni inn í íslenska efnahagskerfið. Sóunin er of gengdarlaus til þess að hægt sé að færa fyrir því haldbær rök. Þá stendur jafnframt í athugasemdum við 1. gr. laga um stjórn fiskveiða:

    Jafnframt felst í þessu sú sjálfsagða stefnumörkun, að markmiðið með stjórn fiskveiða er að nýta fiskistofnana til hagsbóta fyrir þjóðarheildina. Það verður að vera ákvörðunarefni löggjafans á hverjum tíma, hvaða skipulag teljist best henta til að nýta þessa sameign þjóðarinnar með hagsmuni þjóðarheildarinnar að leiðarljósi. Með því einu að tryggja hámarksafrakstur nytjastofnanna til langs tíma með lágmarkstilkostnaði, er unnt að skapa traustar forsendur fyrir atvinnu og byggð í landinu.

Í 3. málsl. laga um stjórn fiskveiða stendur svo að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildunum. Af þessu er ljóst að fullar forsendur eru til þess að lögum um stjórn fiskveiða verði breytt til samræmis við þjóðarhag, enda getur það ekki verið forsvaranlegt að ráðstafa þessari takmörkuðu auðlind með þeim hætti og að auki mikla tilkostnaði sem gert er í dag. Því er ljóst að leggja verður ofuráherslu á það við slíka breytingu að þjóðhagslega arðbærum veiðum sé gert hátt undir höfði. Leggja verður áherslu á það að sem allra mest sé veitt á þann hátt að verðmætin verði eftir inni í þjóðarbúinu, en séu ekki send beint úr landi áður en fiskurinn hefur verið veiddur. Eins og staðan er í dag er stórum hluta auðlindarinnar sóað. Við það verður ekki búið lengur. Þessi sjónarmið voru höfð í huga við stefnumörkun Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum á landsfundi flokksins um helgina.

Ákall mitt til þjóðarinnar er að hún setji þjóðhagslega hagkvæmni og þar með sína hagsmuni ofar hagsmunum kvótakónganna. Ég skora á fólk að kynna sér stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum sem samþykkt var með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á landsfundinum síðustu helgi. Stefnan miðar að því að koma að fullu til móts við vilja þjóðarinnar í þessum málaflokki, enda tími til kominn. Stefnuna má m.a. sjá á bloggsíðu minni.

Ég tel að nú sé komið að ögurstund, það er nú eða aldrei ef við ætlum að koma á breytingum í samræmi við vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Sýnum þann vilja í verki í kosningunum í vor. Setjum þjóðarhagsmuni, þ.e. okkar hagsmuni, ofar eiginhagsmunum.

Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur, skipar fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi. www.thordurmar.blog.is

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand