Skýr sjávarútvegsstefna og vilji til breytinga

sjávarútvegurPISTILL Það má öllum vera ljóst, sem hafa kynnt sér áherslur mínar og samflokksmanna minna, að auðlindamál og þá einkum nýting sjávarauðlindarinnar, verða mjög ofarlega á forgangslistanum í komandi kosningum.

sjávarútvegurPISTILL Í kjölfar prófkjörs Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi hefur heiðursmaðurinn Karl V. Matthíasson yfirgefið flokkinn og gengið í raðir Frjálslynda flokksins. Olli þessi ákvörðun hans mér nokkrum vonbrigðum. Þetta segist Karl hafa gert vegna þess að hann taldi að áherslur hans í sjávarútvegsmálum fengju ekki nægan hljómgrunn innan flokksins. Á bloggsíðu sinni segir Karl m.a.: „Viðhorf mín á þessu sviði hafa ekki skipað þann sess innan Samfylkingarinnar sem ég hefði kosið á undanförnum tveimur árum, sem kom vel í ljós í niðurstöðum prófkjörs Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir skömmu.“ Karl sóttist eftir 1.-2. sæti á listanum en hlaut ekki brautargengi eins og fram hefur komið. Virðist Karl halda því fram að ástæðan fyrir því að hann náði ekki takmarki sínu sé að sjávarútvegsmálin hafi ekki hlotið nægan hljómgrunn innan flokksins.

Þykir mér raunar furðu sæta að Karl haldi þessu fram. Á því fundaferðalagi sem við frambjóðendurnir fórum í fyrir prófkjör okkar voru sjávarútvegsmálin mjög ofarlega á baugi á hverjum einasta fundi, ekki síst vegna harðrar afstöðu minnar gegn óbreyttu kvótakerfi. Ein af ástæðum þess að ég gekk í raðir Samfylkingarinnar, fyrir rúmum mánuði síðan, var einmitt að ég hafði rætt við marga flokksmenn um sjávarútvegsmálin og eftir þau samtöl var augljóst að áherslur mínar áttu vel upp á pallborð innan flokksins. Því ákvað ég að gefa kost á mér í prófkjörið á síðustu stundu án nokkurs stuðnings eða fylgis. Sjávarútvegsmálin og mínar hugmyndir um þau setti ég í algjöran forgang og viðtökurnar voru mjög góðar hvar sem komið var sem aftur skilaði mér góðu gengi í prófkjörinu þrátt fyrir að vera algjörlega óþekktur. Fullyrðingar Karls um að sjávarútvegsumræðan eigi ekki upp á pallborðið hjá Samfylkingunni eiga því alls ekki við rök að styðjast eins og Karl veit vel sjálfur.

Það má öllum vera ljóst, sem hafa kynnt sér áherslur mínar og samflokksmanna minna, að auðlindamál og þá einkum nýting sjávarauðlindarinnar, verða mjög ofarlega á forgangslistanum í komandi kosningum. Þeir sem ekki gera sér grein fyrir þessu nú þegar munu í það minnsta gera það á næstu vikum. Það er eitt mikilvægasta hagsmuna- og réttlætismál þjóðarinnar að auðlindunum verði skipt með sanngjörnum hætti. Örfáir aðilar hafa fengið nánast frían, frjálsan og óheftan aðgang að fiskveiðiauðlindum Íslands undanfarin ár og hefur mannréttindanefnd SÞ komist að þeirri niðurstöðu að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið brjóti gegn mannréttindum. Samfylkingin mun beita sér fyrir breytingum á því til samræmis við álit mannréttindanefndarinnar og til samræmis við vilja þjóðarinnar. Er raunar nú þegar unnið að því að taka fyrsta skrefið í þá átt með 1. gr. frumvarps til stjórnskipunarlaga þar sem lýst er yfir þjóðareign allra auðlinda sem ekki eru háðar einkaeignarrétti, en undir það má fella hugtakið nytjastofnar á Íslandsmiðum, sbr. lög um stjórn fiskveiða. Þetta ætti öllum sem fylgjast með þessum málaflokki að vera ljóst.

Það leikur enginn vafi á að Samfylkingin hefur einn flokka þann slagkraft og vilja sem þarf til þess að koma þessu máli í höfn. Þann slagkraft hyggst Samfylkingin nýta sér, þjóðinni allri til hagsbóta. Karli V. Matthíassyni óska ég hins vegar alls hins besta á nýjum vettvangi og þakka honum þau stuttu og góðu kynni sem við áttum sem samherjar í Samfylkingunni.

Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur, mun skipa 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand