Fyrsta haustþingi eftir kosningar er nú lokið. Þingið var gjörólíkt því sem kjósendur hefðu mátt búast við af áherslum og ummælum kosningabaráttunnar…Önnur mál voru í hefðbundnum farvegi. Ríkisstjórnin fékk sinn árlega Öryrkjadóm, rannsókn samkeppnisyfirvalda á tryggingarfélögunum hélt áfram enn eitt árið, Davíð Oddsson skammaðist út í valda kaupsýslumenn, Jón Steinar stóð í ritdeilu og enn ein heimildamynd Hannesar Hólmsteins var sýnd í Ríkissjónvarpinu. Fyrsta haustþingi eftir kosningar er nú lokið. Þingið var gjörólíkt því sem kjósendur hefðu mátt búast við af áherslum og ummælum kosningabaráttunnar.
Það skiptir máli hver lofar
Í kosningabaráttunni kom margsinnis fram að það skiptir víst máli hver það er sem lofar. Síðan birtist hvert loforðið á fætur öðru, aðallega frá þeim sem þetta sagði. Allir fá þá eitthvað fallegt eins og segir í jólakvæðinu. Kjósendur trúðu þessu.
Kosningabaráttan snerist meira og minna um skattalækkanir. Raunin varð hins vegar að minna varð um skattalækkanir og meira um skattahækkanir. Einn flokkur bauð betur en aðrir í baráttunni um atkvæðin. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn myndaði sína fjórðu ríkisstjórn hugsuðu eflaust margir kjósendur sér gott til glóðarinnar. En annað kom á daginn.
Ekki ein einasta tillaga um skattalækkun kom frá ríkisstjórninni í allt haust. Meira að segja var tilkynnt sérstaklega að engar skattalækkanir yrðu næstu tvö árin. Eina skattalækkunarfrumvarp haustsins kom frá þingmönnum Samfylkingarinnar en það hljóðaði upp á helmingslækkun matarskatts.
Í stað þess að lækka skatta ákvað ríkisstjórnin að hækka skatta. Bensíngjaldið var hækkað um 600 milljónir, þungaskattur var hækkaður um 400 milljónir og sérstakur tekjuskattur á millitekjur í landinu var lagður á sem skilar 1,4 milljarði. Til að kóróna þetta voru síðan vaxtabætur skertar um 600 milljónir með vafasömum hætti.
En var einhver fyrirvari um skattalækkanir í kosningabaráttunni? Var einhvern tíma sagt, af þeim sem öllu lofaði, að fyrst þyrfti að hækka skatta á launafólki og svo að bíða í tvö ár þar til einhver skattalækkun gæti skilað sér?
Milljarður hér, milljarður þar
Fjárlögin voru afgreidd með hagnaði. Hagnaður er þó fljótur að gufa upp ef marka má reynsluna. Það vill oft verða nokkur skekkja hjá fjármálaráðherra þegar hann gerir upp heftið. Fyrir árið 2003 þurfti ,,einungis” að setja 17 milljarða króna fjáraukalög.
Fyrir árin 1998-2002 skeikaði ,,aðeins” um 12 milljarða króna að meðaltali á ári milli fjárlaga og ríkisreikningsins sjálfs eða um 60 milljarðar alls. Þetta er hin ábyrga efnahagsstjórn hægri manna í hnotskurn. Það hefur nefnilega ekkert verið að marka fjárlögin í mörg ár.
Nokkrar hefðbundnar skekkjur eru í hinum nýsamþykktu fjárlögum. Það vantar 1,5 milljarð í Landspítalann til að hann geti boðið upp á sömu þjónustu og áður. Jólagjöfin í ár verður því uppsagnarbréf fyrir allt að 200 manns. Það vantar 500 milljónir í Háskóla Íslands ef hann á ekki að þurfa að vísa tæplega 1.000 nemendum frá. Það vantar 500 milljónir til að uppfylla samkomulag við öryrkja og geðfatlaðir einstaklingar eru enn á götunni. En þetta er allt í lagi að mati ríkisstjórnarinnar.
Lax og rjúpa í brennidepli
Dýraríkið átti vitaskuld sína fulltrúa á þingi í haust og voru lax og rjúpa í brennidepli framan af haustinu. Einnig komu fram mál um sædýrasafn á höfuðborgarsvæðinu og vinnslu kalkþörungasets ásamt eflingu rannsókna á beiðslisgreiningu kúa. Síðan var rifist lítillega um hvort manneskjan gæti verið til sölu en framhald þeirrar grundvallarumræðu verður haldið áfram á vorþingi.
En eitt einkennilegasta mál haustsins er þó línuívilnunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar. Það dúkkaði allt í einu upp, viku fyrir jólafrí, þegar einn Vestfirðingurinn á þingi var orðinn leiður á hangsinu í ráðherra. Allt var sett í gang upp í sjávarútvegsráðuneyti og frumvarp ríkisstjórnarinnar um línuívilnun var skellt á borðið. Síðan kom á daginn að frumvarpið var þess eðlis að enginn var ánægður með það, ekki einu sinni smábátaeigendurnir sem vildu það upphaflega.
Ráðherrann talaði fyrir frumvarpi sem honum var augljóslega í nöp við og hver stjórnarliðinn á fætur öðrum kaus með óskapnaðinum þvert á eigin sannfæringu og fyrri fullyrðingar. Svona er pólitíkin í dag. Menn eru bara í sínu liði eins og einn stjórnarliðinn orðaði það á dögunum.
Rúsínan í pylsuendanum
Rúsínan í pylsuendanum er þó hið margumtalaða eftirlaunafrumvarp. Tveimur dögum fyrir jólaleyfi datt stjórnarherrunum í hug að það væri hið brýnasta verkefni að koma fram með eftirlaunafrumvarp ráðherra og þingmanna. Fyrir nýliða í allsherjarnefnd, sem venjulega fjallar um róleg mál eins og lögfræði og kirkjumál, varð allt í einu allt vitlaust að gera. Loksins rættust hinir margumræddu næturfundir sem maður hafði heyrt um.
Eins og gefur að skilja varð allt brjálað í samfélaginu og þingmenn læddust með veggjum þá helgina. Þegar sú krafa kom fram að það væri skynsamlegt að skoða málið í ró og næði var því umsvifalaust hafnað af hálfu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Málið skyldi keyrt í gegn og það var gert af ríkisstjórnarflokkunum. Nú getur Davíð farið rólegur á 650.000 króna eftirlaun strax vitandi það að ritstörf skerða ekki lífeyrinn eins og stendur berum orðum í frumvarpinu.
Önnur mál voru í hefðbundnum farvegi. Ríkisstjórnin fékk sinn árlega Öryrkjadóm, rannsókn samkeppnisyfirvalda á tryggingarfélögunum hélt áfram enn eitt árið, Davíð Oddsson skammaðist út í valda kaupsýslumenn, Jón Steinar stóð í ritdeilu og enn ein heimildamynd Hannesar Hólmsteins var sýnd í Ríkissjónvarpinu.
Það er ekki ofsögum sagt að hið pólitíska haust hefur verið nýliða á þingi mjög fróðlegt.